Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:58:41 (2866)

1997-12-19 21:58:41# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:58]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar ég var á leið til vinnu minnar í morgun varð mér gengið fram hjá húsi Hjálpræðishersins sem er í nágrenni þingsins. Þá vildi svo til að það vakti athygli mína að þar fyrir utan hafði safnast saman allnokkur hópur fólks. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta fólk væri þarna saman komið en þegar ég fór að fletta dagblöðunum rak ég augun í frétt um að Hjálpræðisherinn var að úthluta aðstoð til fólks. Ég verð að viðurkenna að þessi sjón kom býsna illa við mig því þarna var á ferð fólk sem var nokkuð illa klætt. Sem betur fer var gott veður og fólk var ekki að híma úti í kulda en þarna var nokkuð löng röð og það vakti mig til umhugsunar um að við gleymum því oft í þeirri umræðu sem hér fer fram um tölur, prósentur og línurit að býsna stór hópur í okkar samfélagi á því miður varla til hnífs og skeiðar.

[22:00]

Við vorum hér fyrr í dag að greiða atkvæði um húsaleigubætur. Í þeirri umfjöllun sem varð um það mál í félmn. komu fram ýmsar upplýsingar og útreikningar sem vekja okkur til umhugsunar um að fólk stendur mjög misjafnlega að vígi og það bótakerfi sem við búum við getur að sjálfsögðu stundum leitt til mismununar og til þess að ýmsir sjái sér hag í því að leika á kerfið en það er líka til fólk sem sér sér ekki annan kost en þann að leita til stofnana eins og Hjálpræðishersins eða Mæðrastyrksnefndar eða Vetrarhjálparinnar til þess að geta haldið jól í okkar landi. Við erum að fjalla um fjárlögin og það góðæri sem við okkur blasir sem m.a. má sjá í því yfirliti sem við t.d. sem erum á fundum efh.- og viðskn. fengum í hendur nú í gær. Það yfirlit sýnir að tekjur ríkissjóðs fara langt fram úr því sem áætlað var. Það er góðæri í landinu. Atvinnulífið býr við vöxt og góðæri. En ákveðinn hluti þjóðfélagsins stendur fyrir utan þessa þróun og ég vil hvetja þingmenn til þess að hafa það í huga. Við skulum ekki gleyma því að það er fólk sem því miður á um mjög sárt að binda og það er ekki verið að fjalla um það eða þess kjör hér nema helst þegar við komum að kjörum öryrkja og lífeyrisþega.

Mér fannst mjög sláandi, hæstv. forseti, að sjá þetta í morgun. Þetta var óþægilegt. Það var óþægilegt að ganga fram hjá þessum hóp. (Gripið fram í.) Það er óþægilegt að vera minntur á að það er til fátækt í íslensku samfélagi.

(Forseti (GÁS): Það er órói í hliðarsal. Ef hv. 2. þm. Suðurl. mundi halla aftur hurðinni, þá kæmi það að miklu gagni hér.)

Ég veit það, hæstv. forseti, að þingmenn skirrast ekki við að hlusta á það sem hér er sagt. Menn hafa um margt að ræða hér á þessu kvöldi og margar tillögur liggja hér fyrir. En það eru fyrst og fremst tvö mál sem ráða því að ég er komin í þennan ræðustól þó að ég hafi haft þennan formála, hæstv. forseti.

Áður en ég kem að þeim tveimur málum vil ég þó geta þess að afar athyglisvert var að sjá þær tölur og upplýsingar sem hafa verið lagðar fram fyrir þessa umræðu um tekjur ríkissjóðs. Að flestu leyti má segja að afar áægjulegt er að sjá hve tekjur ríkissjóðs fara vaxandi og að áætlanir um tekjur sem menn gerðu áður en fjárlagafrv. fyrir árið 1998 var lagt fram, reynast meiri en menn áætluðu. Vöxturinn er töluvert meiri. Þó að einstaka aðilar séu að benda á að hugsanlega sé þarna á ferðinni ákveðin hætta á þenslu, þá sýna þessar tölur að þarna eru meiri fjármunir en við gerðum ráð fyrir og þeir gefa kost á því að veita peninga til fleiri málefna en við ætluðum og það út af fyrir sig er ánægjulegt.

Vegna þeirrar umræðu sem hér varð fyrr í dag vil ég taka undir það að ég tel miklu betra að menn áætli varlega. Það er alltaf betra fyrir þjóðarbúið að áætla heldur varlega og gera ekki meira úr tekjuáætlunum en minna því að þá hafa menn því meiru úr að spila. Við höfum séð á undanförnum árum að það er ekki bara tekjuáætlunin sem hefur farið úr böndum heldur ekki síður gjaldahliðin. Ég ætla ekki að gera mikið úr því hæstv. forseti, ég hef gert það oft hér úr þessum ræðustól, að menn hafa verið hér í ýmsum bókhaldsbrellum og hafa vanáætlað útgjöld til ákveðinna málaflokka, ekki síst heilbrigðismála og hafa svo orðið að hlaupa til á miðju ári til að reyna að bjarga málunum með hundruðum milljóna eða jafnvel yfir heilum milljarði króna. Ég tel að það séu ekki góð vinnubrögð. Því ber að fagna að það skuli vera gróandi í þjóðlífinu og hagvöxtur svona með þeim formerkjum að hagvöxturinn má ekki verða á kostnað umhverfisins. Því miður er það nú svo að hluti af þessum hagvexti sem við erum að horfa upp á er m.a. vegna þess að hér hafa menn verið að fjárfesta í verksmiðjum og ýmsum fyrirtækjum sem valda mengun og tengjast þeim nýja sáttmála sem verið var að gera um takmörkun á útblæstri mengandi lofttegunda. Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma en þetta hangir allt saman og tengist því hvernig við ætlum að haga okkar málum í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Það eru einkum tvö mál sem ég ætla að koma að í máli mínu. Það eru annars vegar málefni barna og ungmenna og hins vegar staða Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Þegar við fjölluðum um frv. til fjárlaga í hv. félmn. kom það upp að menn höfðu að litlu eða engu leyti gert ráð fyrir því að sú lagabreyting sem gerð var í vor á sjálfræðisaldri mundi kalla á ákveðinn kostnað, það að færa sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár mundi kalla á viðbrögð stjórnvalda og ákveðnar stjórnvaldsaðgerðir. Í fjárlagafrv. var ekki að finna neinar aðgerðir eða nein framlög til þess að mæta þessum kostnaði. Þegar við kölluðum fyrir fulltrúa Barnaverndarstofu, þá kom fram að þeir fulltrúar Barnaverndarstofu töldu að kostnaðurinn sem af þessu hlytist mundi nema allt að 90 millj. kr., hvorki meira né minna en 90 millj. kr., bara sá þáttur sem lýtur að Barnaverndarstofu. Þá eru ótaldir ýmsir aðrir liðir sem eru alls ekki komnir fram, þar á meðal að hér er verið að ræða og huga að sérstöku unglingafangelsi.

Þannig er málum háttað, hæstv. forseti, að á Norðurlöndum og víðar í löndum sem að öllu jöfnu eru talin til siðmenntaðra ríkja, er talið sjálfsagt að unglingar allt að 18 ára aldri séu vistaðir á sérstökum stofnunum. Á Norðurlöndunum eru sérstök unglingafangelsi fyrir þá unglinga sem eru einstaklega erfiðir. Það er vegna þess að reynslan hefur leitt í ljós að mjög slæmt er að vista unglinga með eldri föngum. Það hefur leitt af sér að þeir læra af þeim sem eldri eru og verða reyndar oft fyrir mjög slæmri meðferð af hálfu þeirra sem eldri eru þannig að víðast hvar er talið eðlilegt og sjálfsagt að þessir unglingar fái sérstaka meðferð og ef þeir eru mjög erfiðir séu þeir vistaðir í sérstökum unglingafangelsum. Ég veit að það hefur verið í umræðunni hvort hér þyrfti ekki að reisa sérstakt unglingafangelsi.

Ýmislegt annað kann að leiða af þessari lagabreytingu, t.d. eitt og annað sem snýr að almannatryggingum, jafnvel öðrum lögum sem við gerum okkur ekki fullkomlega grein fyrir nú. Að minnsta kosti er alveg ljóst að býsna stór þáttur snýr að félmrn. og því að hið félagslega kerfi verði reiðubúið til að sinna þeim unglingum sem verða 17 ára á næsta ári og síðan eftir því sem þeir koma inn í þetta kerfi þegar það nær að fullu til unglinga á aldrinum 16--18 ára. Barnaverndarstofa metur það svo að það kunni að vera á milli 30--40 unglingar á þessum aldri sem þurfi á sérstökum meðferðarúrræðum að halda og vekur athygli á því að í þessum hópi er mikill meiri hluti piltar. Þeir eru oft orðnir fullvaxnir karlmenn og það þarf sérhæft starfsfólk og býsna öflugt til þess að ráða við þá. Það þarf sérstaka menntun og þjálfun starfsfólks til þess að það geti tekist á við þennan hóp og þetta kostar allt peninga. Barnaverndarstofa mat það svo, eins og ég nefndi, að þetta gæti kostað allt að 90 millj. kr. Það tekur sinn tíma að undirbúa þessi úrræði og þess vegna hefði þurft að veita fjármagn til þessa verkefnis.

Ég fagna því að sjálfsögðu að fjárln. leggur til að 20 millj. kr. verði veittar í þetta verkefni en ég tel að það sé alls ekki nóg. Þess vegna leggjum við til, minni hlutinn í félmn., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Ögmundur Jónasson og sú sem hér stendur, að 50 millj. verði veittar í þetta verkefni þannig að Barnaverndarstofu verði gert kleift að byrja á þessu verkefni og sinna því.

Í brtt. meiri hlutans kemur fram að hér sé verið að gera ráð fyrir rekstri nýs meðferðarheimilis í Skagafirði. En eftir því sem ég hef skilið þær fréttir sem fram koma í fjölmiðlum, þá er verið að leggja niður það meðferðarheimili sem er nú þegar í Skagafirði og gerðir hafa verið samningar við aðra aðila um að taka í notkun nýtt heimili. Og þar sem ég veit þetta ekki vil ég beina spurningum til hv. formanns fjárln. sem hér er: Er þarna um fjölgun rýma að ræða eða er um sömu tölu að ræða? Það er verið að leggja niður heimilið sem fyrir er og stofna nýtt í staðinn, eins og ég hef skilið það. Það kann að vera að þarna sé fjölgun um eitt eða tvö rými og vera kann að þetta nýja heimili geti hafið meðferð unglinga sem eru eldri en 16 ára, en þetta er býsna óljóst í mínum huga. Það er a.m.k. ljóst að þessi breyting mun á næstu árum kalla á nokkur heimili til viðbótar og hugsanlega unglingafangelsi til viðbótar. Þetta eru hlutir sem við verðum að horfast í augu við, hæstv. forseti, og þarf að bregðast við og þarf að undirbúa. Þess vegna held ég að þessar 20 millj. sem hv. fjárln. leggur til nú sé alls ekki nægjanlegt fjármagn, það þurfi að bæta um betur og að því miður hafi menn ekki verið nógu vel vakandi yfir þessu máli.

[22:15]

Ég skal alveg viðurkenna að það var rétt undir lok okkar yfirferðar í félmn. sem við hreinlega kveiktum á þessu máli. Við vöktum athygli fjárln. á þessu, bæði meiri hluti og minni hluti í þeim álitum sem við sendum fjárln. Það koma 20 millj. til þessa verkefnis en það er alls ekki nóg. Ég vil bara minna á það í þessu sambandi, hæstv. forseti, að öll mistök sem gerð eru í þessum efnum, allt það sem veldur því að unglingar fá ekki nægilega þjónustu eða nægilega meðferð, kostar samfélagið í heild gífurlega mikið. Hver einstaklingur sem lendir á villigötum kostar samfélagið gífurlega mikið. Ég er ekki að tala þar eingöngu um fjármagn heldur einnig í lífshamingju og örlögum. Þetta er mjög stórt mál, hæstv. forseti, og þessi breyting var ekki gerð að ástæðulausu heldur til þess að hægt væri að ná með lögum til þessa hóps og þar með vonandi að beina þeim inn á réttar brautir. Við verðum að sjá til þess að þeir sem eru að vinna í þessum málum geti það og hafi til þess fjármagn, aðstöðu og mannafla. Þess vegna er þessi tillaga flutt, hæstv. forseti.

Hitt málið sem ég ætlaði að víkja að varðandi fjárlögin --- er þó af nógu að taka --- er fjárhagsvandi Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ég átti þess ekki kost að víkja að því máli við 2. umr. þessa máls en síðan hefur töluvert vatn til sjávar runnið. Hér liggur fyrir að hv. fjárln. leggur til að Sjúkrahús Reykjavíkur fái 100 millj. kr. til viðbótar við það sem áður var ákveðið og ég fagna því að sjálfsögðu. Það er skilyrt að þetta fjármagn renni til endurbóta hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og við vitum það sem höfum skoðað það hús að þar er mjög alvarlegt ástand. Það hús heldur hvorki vatni né vindi. Auðvitað er það mismunandi eftir því hvar í húsinu er, en m.a. gjörgæsludeildin hefur mátt búa við það að halda hvorki vatni né vindi. Þá má draga í efa hvort þessir fjármunir duga til þeirra miklu viðgerða sem þarf á húsinu sjálfu. Ég held þó að þeir muni verða til þess að það verði hægt að fara af stað og gera það sem nauðsynlegt er og ég þakka hv. fjárln. fyrir þó þetta framlag. En þetta breytir samt harla litlu um það sem skiptir meginmáli sem er rekstur þessa sjúkrahúss.

Við hljótum að spyrja okkur, hæstv. forseti: Hvað er hæstv. ríkisstjórn að hugsa? Hvað er hún að gera með þeim tillögum sem hér liggja fyrir og hafa þegar verið samþykktar? Fyrir liggur að fjárskortur Sjúkrahúss Reykjavíkur er upp á um það bil 700 millj. kr. Uppsafnaður halli og sparnaður sem ekki hefur tekist að ná fram er samkvæmt blaði frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur upp á um það bil 780 millj. kr. og maður spyr sig: Er verið að svelta Sjúkrahús Reykjavíkur til sameiningar eða hvað eru menn að hugsa? Á virkilega að fara að leika þann leik enn eitt árið að setja á fót stýrinefnd eins og það heitir núna eða þriggja manna nefnd eða samstarfsnefnd ráðuneytis og borgar, til þess að fara yfir málin og leggja til sparnað hér og þar og það eru 300 millj. kr. í pottinum, ekki bara fyrir Sjúkrahús Reykjavíkur heldur öll sjúkrahús landsins, Ríkisspítalana, 300 millj. þegar fyrir liggur að hátt í 800 millj. kr. vantar bara í rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur sem er bráðasjúkrahús sem rekur einu slysadeild landsins? Það vantar hátt í 800 millj. og það á að bjarga einhverju með 300 millj. Þetta bjargar engu, hæstv. forseti. (ÖS: Hvaða vanþakklæti er þetta?) Vanþakklæti, segir hv. formaður heilbr.- og trn. Nei, þetta er ekki vanþakklæti, þetta sýnir bara að það sem verið er að leggja til dugar ekki og ég spyr bara: Hvers konar skrípaleikur er þetta og hvað á þessi skrípaleikur að þýða? Við erum búin að horfa á það hér ár eftir ár og ég hef sjálf rakið það í umræðum hvernig ríkisstjórnir, allt frá síðasta kjörtímabili og fram á þetta, hafa farið fram á hundruð millj. kr. í aukafjárveitingar til lífeyristrygginga, sjúkratrygginga og sjúkrahúsanna, allt upp í milljarð og yfir milljarð vegna þess að verið er að sýna fram á einhverja bókhaldsniðurstöðu sem ég held reyndar, hæstv. forseti, að sé ekki tilgangurinn núna þetta árið vegna þess að menn hafa einfaldlega haft úr meiru að spila. Það hefur verið meira fjármagn. En það breytir ekki því að ekki hefur verið lagt nægilegt fjármagn til Sjúkrahúss Reykjavíkur. Og þó að ég beri mikla virðingu fyrir Ríkisspítölunum og stöðu þeirra, þá er það alveg ljóst að Sjúkrahús Reykjavíkur býr við miklu verri stöðu. Við skulum ekki gleyma því að þetta er bráðasjúkrahús, þetta er sjúkrahúsið sem rekur stærstu slysadeild landsins og einu slysadeild landsins sem fær til sín nánast öll slík tilvik og verður að bregðast við þeim. Það verður að bregðast við þeim og senda fólk þá áfram.

Við horfum upp á það núna, hæstv. forseti, sem auðvitað tengist þessu máli og það er ekki hægt að horfa fram hjá því, að kjaramál lækna, vinnutími lækna og það álag sem er á þessum deildum á þessum sjúkrahúsum, tengist allt saman. Eins og formaður stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur, Kristín H. Ólafsdóttir, hefur nefnt hvað eftir annað hefur Sjúkrahúsi Reykjavíkur árum saman verið stjórnað með kreppustjórnun, krísustjórnun eins og hún hefur kallað það. Um margra ára skeið hafa menn orðið eftir áramót að setjast yfir það að hafa haft úr allt of lítlu fjármagni að spila, það hefur orðið að gera einhverjar niðurskurðartillögur. Þá kemur ráðuneytið og segir: ,,Nei, nei, það er ekki meiningin að skera niður þjónustu. Þið megið ekki skera niður þjónustu. Þið eigið að ná þessu samt. Þið eigið bara að spara. Þið eigið að spara um tugi og hundruð millj. kr.`` Ár eftir ár hefur þessi sparnaður ekki náðst. Og það er athyglisvert að lesa t.d. úttekt sem var í Morgunblaðinu í dag um það hvernig þeim er gert að spara og hvernig menn vita að þessar sparnaðartillögur nást ekki fram. Þetta er ekkert nýtt. Svona hefur þetta gengið ár eftir ár eftir ár og maður spyr sig: Hver er tilgangurinn með þessu? Ég veit ekki betur en menn hafi hreinlega strikað út skuldir ýmissa ríkisfyrirtækja eða jafnað þær á einhvern hátt og sagt: ,,Nú skulum við bara byrja frá grunni. Það verður bara að byrja frá grunni.``

Það er ljóst að Sjúkrahús Reykjavíkur hefur rekstrarhalla upp á hundruð millj. kr. og eins og kemur fram í greininni í Morgunblaðinu í dag, eru þeir farnir að borga allt að 10 millj. kr. bara í dráttarvexti sem auðvitað munar um í þessum rekstri af því að þeir eru að fá peninga til að greiða laun og að tillögurnar, sem allar þessar þriggja manna, fimm manna og sjö manna og hvað þær hafa nú verið fjölmennar þessar nefndir hafa lagt til, eru óraunhæfar. Þeir eru einfaldlega óraunhæfar. Þær nást ekki meðal annars vegna þess að upp geta komið ófyrirsjáanlegir atburðir. Það verður of mikið álag á deildir og það þarf svo lítið til að kostnaðurinn fari fram úr því sem áætlað var.

Það kann vel að vera að áætlanagerðin sé ekki í lagi, menn geri óraunhæfar áætlanir og menn haldi að meiri sparnaður náist en svo næst í raun og ég held að það gildi um Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana og hugsanlega önnur sjúkrahús. Ég held að enginn hafi reyndar lent í öðru eins og þessir tveir stóru spítalar. Samt sem áður kemur það fram t.d. í þessari úttekt í Morgunblaðinu í dag að stjórnendur hafa margvarað við því að þessi sparnaður mundi ekki nást fram, þetta væru óraunhæfar áætlanir, þetta mundi ekki nást fram. Og það kemur í ljós að þær nást ekki fram. Ég spyr mig aftur og aftur: Hver er tilgangurinn með þessu? Hvers vegna er verið að leika þennan leik ár eftir ár eftir ár? Framlög eru skorin niður, spítölunum er gert að spara þó að menn viti að sá sparnaður náist ekki fram.

Leidd hafa verið rök að því að tilgangurinn sé sá, eins og kemur fram í grein Morgunblaðsins og við höfum svo sem heyrt víðar, að verið sé að reyna að pína spítalana til sameiningar þó að bæði séu ýmsar röksemdir gegn því og mikil andstaða. En þó að svo væri tel ég að þarna sé um algjörlega ranga aðferðafræði að ræða. Menn verða að sýna fram á að hagræðing, sparnaður og bætt þjónusta náist með því að sameina þessi stóru sjúkrahús ef það er meiningin að sameina þau. Menn verða að sýna fram á það í stað þess að sauma svona að þessum stofnunum, gera fólki það að geta ekki veitt fulla þjónustu, skapa endalausa óánægju, eyðileggja starfsanda sem auðvitað leiðir til þess sem við höfum séð hér á undanförnum dögum, að ungu læknarnir eru orðnir svo yfir sig þreyttir á þessu --- og ekki bara þeir heldur ýmsir fleiri --- að þeir eru að gefast upp. Þeir eru einfaldlega að gefast upp.

Önnur sjónarmið eru að ryðja sér rúms varðandi vinnutíma og lífsgæði og fólk einfaldlega lætur ekki bjóða sér upp á þetta lengur. Það sem mun gerast í framhaldi af þessu eins og hefur komið fram í umræðunni að undanförnu er bæði að íslenskir læknar munu ekki snúa heim úr námi og þeir munu hverfa til annarra starfa þar sem þeim er boðið upp á miklu betri kjör. Það mun gerast. Þetta er svolítið svipað því sem kennarastéttinni hefur verið boðið upp á. Þetta er í raun og veru mjög svipað dæmi. Það hefur verið saumað að skólunum, laununum haldið niðri um árabil og það leiðir til þess að ekki fæst jafnhæft fólk og áður til starfa og allir sem geta leita annað. Þetta, hæstv. forseti, er stórhættulegt fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Þess vegna hljótum við að verða að breyta hér um stefnu, hæstv. forseti, og það fyrsta hlýtur auðvitað að verða það að ná samkomulagi um að taka á þessum mikla halla Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það verður einfaldlega að borga hann upp þannig að þessi stofnun geti í það minnsta byrjað á núllinu og að þessu tímabili krísustjórnunar ljúki og menn geti snúið sér að því að byggja upp.

[22:30]

Það er mikið að gerast á sviði heilbrigðismála. Þar eru miklar nýjungar. Þar er mikið að gerast bæði hvað varðar lyf og tæki. Margt af því mun kosta mikla peninga en líka spara til lengri tíma litið og eins og staðan er núna, þá eiga þessar stofnanir varla kost á því að fylgjast með tímanum og tækninni og það veldur miklum pirringi meðal þeirra sem eru að ljúka námi og að byrja sinn starfsferil svo ekki sé nú talað um þá sem er verið að reyna að fá hingað heim. Það er mikið áhyggjuefni, hæstv. forseti, að íslenskir læknar fást ekki lengur til þess að sækja hér um stöðu lækna á spítölunum eða stöðu prófessora við háskólann vegna þess að þau launakjör sem hér er boðið upp á eru ekki í neinu samræmi við það sem tíðkast erlendis.

Þá rifjast upp fyrir mér sú umræða sem hér varð í gær um stöðuna sérstaklega á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í kjölfar þess að ungir læknar hafa verið að ganga út og menn spyrja: Hafa menn ekki skyldur við sína þjóð? Það eru takmarkanir fyrir því hversu miklar skyldur fólk hefur við sína þjóð. Ungir læknar eins og annað námsfólk hafa verið að taka námslán sem þarf að borga með vöxtum og töluverðri greiðslubyrði.

Við erum fyrst og fremst í samkeppni við aðrar þjóðir. Við erum ekki lengur eitthvert eyland norður í ballarhafi sem getum bara hagað okkur eins og okkur sýnist. Við erum í mikilli samkeppni við aðrar þjóðir. Við höfum haft mjög gott menntakerfi m.a. í læknisfræði. Íslenskir læknar hafa átt greiðan aðgang að framhaldsmenntun á Norðurlöndunum, í Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar og þeir hafa getað gengið þar inn og þeim er vel tekið. Hins vegar eru þau kjör sem ungum læknum bjóðast þar og maður talar nú ekki um þegar þeir eru búnir að ljúka sérfræðinámi, ekki í nokkru samræmi við það sem hér tíðkast. Ef Íslendingar halda að þeir geti á grunvelli þjóðerniskenndar eða þakklætis fyrir að hafa fengið að mennta sig, haldið fólki í skrúfstykki og meðallaunum --- ég er ekki að tala um lág laun því að læknar eru þó á meðallaunum reyndar og þar yfir fyrst og fremst vegna alveg gífurlegrar vinnu. Ég skal segja það hér, forseti, að í mínum kunningjahópi eru allnokkrir læknar og ég veit mjög vel hversu gríðarlega þeir vinna og hversu mikla yfirvinnu þeir vinna. Þannig hafa þeir töluverðar tekjur --- og að halda að sé hægt að halda þessu áfram hér fram í rauðan dauðann og menn bara gráti af þakklæti fyrir að fá að flytja heim til Íslands, þá er það mikill misskilningur. Menn ættu að kynna sér sjónarmið ungs fólks sem sér þá framtíð fyrir sér fyrst og fremst að leita sér vinnu í öðrum löndum. Þetta er svo mikið að breytast, hæstv. forseti, að við þurfum fyrst og fremst að fara að hugleiða það, hvernig við ætlum að halda fólki hér í vinnu en ekki það að við getum boðið fólki upp á þessi kjör sem hér hafa tíðkast og þá miklu yfirvinnu.

Mér liggur þetta þungt á hjarta, hæstv. forseti, og vil minna á að við, a.m.k. þingmenn Reykjavíkur, höfum fengið bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík sem vekur athygli á stöðu Sjúkrahúss Reykjavíkur og þeirri slæmu stöðu sem þar er og þeirri hættu sem því fylgir ef ekki verður brugðist við. Því miður leggur fjárln. ekki til nema 100 millj. kr. til viðbótar sem ég þó fagna. Það er mikil bót á því að ráðist verður í að gera við Borgarspítalann en þetta dugar þó hvergi nærri. Ég verð að ítreka það enn og aftur, hæstv. forseti, að ég skil ekki þessa afstöðu ríkisstjórnarinnar. Ég skil ekki að menn skuli ganga svona fram og menn skuli láta þetta viðgangast því að við erum að tala um bráðaspítala og bráðaþjónustu. Við erum að tala um slysadeildina. Við erum að tala um það fólk sem þarf á allra bráðustu þjónustu og að sú staða skuli vera upp komin sem við okkur blasir nú er algerlega óviðunandi.

Hæstv. forseti. Ég gæti vikið máli mínu að ýmsum tillögum sem fram koma í breytingartillögum meiri hlutans. Ég fagna þeim flestum og það er ánægjulegt að sjá að aukið svigrúm er til fjárframlaga. Mér finnst þó að ekki hafi verið tekið á því stóra vandamáli sem við okkur blasir sem er fyrst og fremst staða heilbrigðiskerfisins og einnig það sem kannski kallar á miklu meiri vinnu, þ.e. staða menntakerfisins sem auðvitað þarf að fara rækilega í gegnum í ljósi þeirra kannana sem við höfum fengið og sýna heldur slælega stöðu íslenskra nemenda og stöðu Háskóla Íslands sem þarf að fá miklu meira fjármagn til þess að byggja upp fyrir framtíðina. Ég vænti þess að menn muni taka á þeim málum á næstu árum en þau kalla á það ekki síst að menn marki stefnu og viti hvert eigi að halda.