Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 22:40:24 (2868)

1997-12-19 22:40:24# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:40]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt áhyggjuefni að um leið og verið er að leggja niður heimilið í Skagafirðinum og taka upp annað, virðist það blasa við, þó að við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um það, að ekki sé verið að fjölga meðferðarúrræðunum. Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta heimili sem búið er að semja um verði í stakk búið til að taka við þessum unglingum á aldrinum 16--18 ára. Þetta mun koma smátt og smátt vegna þess að lagabreytingin tekur sem betur fer tíma til þess að virka. En eftir því sem ég best veit hefur ekki verið offramboð á meðferðarúrræðum fyrir þetta unga fólk sem því miður lendir á villigötum þannig að mér finnst þetta vera dæmigert fyrir vinnubrögð okkar. Ég er ekkert endilega að saka meiri hlutann um eitthvað. Þetta eru bara vinnubrögð okkar Íslendinga. Við tökum í okkur að samþykkja svona breytingu og svo förum við einhvern tíma löngu síðar að reyna að átta okkur á hvað breytingin þýðir.

Að vísu kom það fram hér í umræðum um þessa sérstöku breytingu, hækkunina á sjálfræðisaldrinum, að hún mundi kalla á bæði lagabreytingar og úrræði. En við bara segjum alltaf: Við reddum því þegar þar að kemur. Svo kemur í ljós að þetta kallar á heilmikil fjárútlát og við verðum að standa undir því.

Hvað varðar kjaramál lækna, þá hygg ég að þetta sé miklu flóknara mál en bara það sem lýtur að kjörum þeirra beint. Þetta lýtur að kjörum og vinnutíma. Ég held að því miður séu menn kannski að rekast á það núna að upp eru að koma svo breyttar kröfur. Nú er að verða svo að konum er mjög að fjölga í læknadeildinni og þær gera aðrar kröfur til vinnutíma en karlarnir og þær vilja hafa sinn frítíma. Þær vilja geta sinnt sinni fjölskyldu og það kallar á breyttar kröfur fyrir utan það að sá vinnutími sem tíðkast hefur á sjúkrahúsunum og kröfur til ungra lækna hafa ekki náð nokkurri átt þannig að ég skil mjög vel þeirra kröfur. Við þurfum að horfa á þessi mál öll í samhengi, hæstv. forseti, og reyna að taka á þeim. Það sem fyrst og fremst skiptir meginmáli er að íslenska heilbrigðiskerfið verði samkeppnisfært við kerfi annarra þjóða.