1997-12-20 01:31:46# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[25:31]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að ræða um tillögur minni hluta fjárln. um tekjuöflun til ríkissjóðs. Minni hlutinn hefur lagt fram tillögur um að leitað verði eftir viðbótarfjármagni til ríkissjóðs með því að hækka tryggingagjald um 0,5% og afla þannig 1,2 milljarða kr. en einnig hefur komið fram tillaga frá minni hlutanum um að hækka tekjuskatt fyrirtækja úr 33% í 39%. Slík hækkun mundi skila einum milljarði kr. í ríkissjóð.

Þá er rætt um að setja þrengri tímamörk en nú gilda um nýtingu rekstrartaps. Í áliti minni hluta fjárln. er vakin athygli á því að á undanförnum árum hafi margir milljarðar kr. verið færðir af herðum fyrirtækja yfir á launafólk og eru nefndir fjórir milljarðar kr. í því sambandi. Hér eru menn væntanlega fyrst og fremst að tala um aðstöðugjöld fyrirtækja en að auki má nefna aðra þætti. Þegar menn velta fyrir sér hvort um mikla skattahækkun er að ræða þegar lagt er til að tekjuskattur fyrirtækja sé hækkaður úr 33% í 39% þá skulum við minnast þess að árið 1990 nam þessi skattur 50%. Hann hefur verið færður niður í áföngum í 33%. Á sama tíma var tekjuskattur einstaklinga hækkaður og er þar komin skýringin á þessum milljarðatilflutningi.

Skattar á Íslandi eru að mörgu leyti frábrugðnir því sem gerist með þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við. Ef litið er á samanburðartölur þá kemur fram þegar skoðað er hlutfall skatta af vergri landsframleiðslu að tekjuskattur einstaklinga á Íslandi er 9,5% á móti 12,2% hjá OECD að meðaltali. Á Norðurlöndunum er tekjuskattur einstaklinga miklum mun hærri eða 15,7%.

Tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi er 1% af vergri landsframleiðslu á sama tíma og hann er 2,5% á Norðurlöndum, 3,4% hjá OECD. Launa- og tryggingagjöld, sem minni hlutinn leggur til að verði hækkuð um 0,5%, nema 2,5% af vergri landsframleiðslu hér á landi á móti 8,6% á Norðurlöndum, 14% hjá Evrópuríkjum OECD. Skattar á vöru og þjónustu eru hér á landi nokkuð nærri því sem gerist hjá OECD en heldur hærri en gerist hjá Norðurlöndunum. Þegar skatttekjur hins opinbera eru bornar saman við það sem gerist á Norðurlöndum og OECD kemur í ljós að við liggjum miklum mun lægra en gerist annars staðar. Hér er hlutfallið 30,9%, á Norðurlöndunum er það 40,8%, hjá Evrópuríkjum OECD er það 47,8%, Með skattatillögum minni hluta fjárln. er gert ráð fyrir að afla ríkissjóði á milli 2--3 milljarða kr. til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar. Ég tek undir tillögurnar sem koma frá minni hlutanum og legg áherslu á að þær eru mjög hófsamar.

Hvernig á að nota þessa peninga? Í áliti minni hluta fjárln. er vikið að ýmsum málaflokkum og þar á meðal heilbrigðisþjónustunni og þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Uppsafnaður rekstrarhalli allra sjúkrahúsanna er nú í árslok u.þ.b. 1 milljarður kr. eftir hallarekstur síðustu ára, en því til viðbótar nemur augljós fjárvöntun til rekstrar sjúkrahúsanna á næsta ári nær hálfum öðrum milljarði, þannig að samtals er rekstrarvandi sjúkrahúsanna í landinu nær 2,5 milljarðar kr.``

Menn hafa deilt mikið um þessar upphæðir í þingsal á undanförnum dögum og hvað þetta þýði í reynd. Menn hafa bent á varnaðarorð sem hafa komið frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og öðrum sjúkrahúsum. Forsvarsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur hafa bent á að fjárvöntun þar muni leiða til þess að 100 sjúkrarúmum verði lokað og þetta kunni að leiða til þess að 200 manns verði sagt upp störfum. Hið sama er uppi á teningnum þegar kemur að Landspítalanum. Þá erum við líka að tala um þessar stærðir. Þá hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar komið fram og sagt að þetta væru ýkjur af hálfu stjórnarandstöðu og þetta væru ýkjur af hálfu forsvarsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur og annarra sjúkrahúsa en ég spyr: Hver er raunveruleikinn? Gera menn sér t.d. grein fyrir því að á þeirri deild Sjúkrahúss Reykjavíkur sem sinnir geðsjúkum, og þar sem hafa verið 30 rúm, hefur nú verið tekin ákvörðun um að loka 6 rúmum? Gera menn sér grein fyrir því að fyrir síðustu áramót var lokað 12 rúmum í Arnarholti? Gera menn sér grein fyrir þessu? Það var talað um að þetta mundi ekki verða í reynd, það yrði eitthvað gert til þess að bæta úr þessu. Það hefur ekkert verið gert. Þessum rúmum hefur verið lokað í reynd. Þetta er svona í alvörunni. Ég var í dag að tala við starfsmenn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem lýstu áhyggjum yfir þessu og yfir yfirlýsingum sem komu frá ráðamönnum um að úr þessum vanda verði greitt, vandinn verði leystur. En það er ekki verið að leysa vandann. Ákvörðun hefur verið tekin um að loka þessum rúmum og ég vildi heyra frá hæstv. heilbrrh. hvað hann ætlar að gera í þessu tiltekna máli. (Gripið fram í: Hvar er hæstv. heilbrrh.?) Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann sjái til þess að hæstv. heilbrrh. komi í þingsal og geri grein fyrir því hvernig hann ætlar að bregðast við vandanum.

Við erum að tala um mjög háar upphæðir. Við erum að tala um fjárlög sem nema yfir 100 milljörðum. Ég er hins vegar að tala um agnarsmáar upphæðir en ég er að tala um grundvallaratriði. Ég er að tala um ákvarðanir ríkisstjórnar sem vill tryggja að einkavæðingarsveitin, þ.e. meiri hlutinn, hefur samþykkt það hér að einkavæðingarsveit ríkisstjórnarinnar skuli fá á fjárlögunum 15 millj. kr. Á sama tíma er verið að loka á geðsjúka á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og öðrum sjúkrahúsum. Hvers vegna geðsjúka? Jú, vegna þess að þegar fjárhagsvandi steðjar að heilbrigðisstofnunum er fyrst skert framlagið hjá deildum á borð við þessar. Það er ekki klipið af bráðadeildunum vegna þess að það er einfaldlega ekki hægt en þarna er hægt að herða að og það er gert. Þegar menn eru að tala um að séð verði til þess að það komi peningar til að leysa þennan vanda er ég að benda á tiltekin dæmi þar sem það er ekki gert. Fyrir fáeinum dögum var því lýst yfir að þessum rúmum yrði lokað. Ég veit það vel og ég þekki það að eftirspurnin eftir plássum á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur verið mjög mikil. Þarna er verið að draga saman seglin og ég vil heyra frá hæstv. heilbrrh. hvað hann ætlar að gera í þessu efni.

[25:45]

Mér finnst líka áhyggjuefni þegar forsvarsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur lýsa því yfir að ef ekkert verður að gert kunni þeir að þurfa að segja upp 200 manns. Hið sama er uppi á teningnum hjá Landspítalanum. Síðan kemur ríkisstjórnin eða talsmenn hennar og forsvarsmenn fjárln. eða meiri hluta hennar og segja að þetta verði allt í lukkunnar velstandi þegar líður á árið. En ég er að nefna dæmi þar sem samdrátturinn er þegar orðinn að veruleika. Það voru 30 rúm á tiltekinni deild sem ég nefni, A2, geðdeildinni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Búið er að loka 6 þeirra. Á Arnarholti var lokað 12 rúmum og því var ítrekað lýst yfir að úr þessu yrði bætt en það hefur ekki verið gert.

Skoðun mín er sú að þótt víða sé þörf fjármuna þá sé það fyrst og fremst til heilbrigðisþjónustunnar sem þetta viðbótarfjármagn sem stjórnarandstaðan er að leggja til að verði aflað í ríkissjóð verði látið renna. Það er fyrst og fremst inn í velferðarþjónustuna og inn í heilbrigðiskerfið sem þessir peningar eiga að renna.

Við alþingismenn fengum yfirlýsingu frá Starfsmannaráði Sjúkrahúss Reykjavíkur í dag þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn SHR, Sjúkrahúss Reykjavíkur, hafa orðið þess áskynja að starf þeirra er þyngra en áður var. Á sjúkrahúsið leitar aukinn fjöldi sjúklinga og slasaðra. Þar sem legurúmum hefur fækkað hefur þróunin leitt til að heilbrigðisstarfsmenn hafa skemmri tíma til að sinna hverjum og einum sjúklingi. Auk þess hefur fækkun legurúma orðið til þess að á álagstímum vistast fleiri alvarlega veikir á göngum sjúkrahússins. Talið er að álagið á sjúkrahúsið eigi e.t.v. þátt í að fjöldi sjúklinga sem þarf að leggja inn aftur innan sjö daga frá útskrift vex nú ár frá ári. Það er augljóst að við núverandi rekstrarstöðu sjúkrahússins verður ekki við búið.

Verði fjárhagsvandi sjúkrahússins ekki leystur strax mun það ekki aðeins hafa áhrif á framboð sjúkrarúma á SHR og atvinnuöryggi starfsfólks heldur einnig á getu sjúkrahússins til að valda grundvallarhlutverki sínu, þ.e. að sinna sjúkum og slösuðum. Ekki verður unnt að sinna fimmta hverjum sjúklingi sem leggst inn á sjúkrahúsið verði fjárframlög til þess samkvæmt núverandi frumvörpum til fjárlaga fyrir 1997 og fjárlaga 1998. Við sem störfum í framlínunni á sjúkrahúsunum vitum að stjórn og framkvæmdastjórn SHR er ekki að reyna að þeyta upp moldviðri í þeim tilgangi að véla ráðamenn þjóðarinnar til að auka fjárframlög til SHR. Okkur sem sinnum fárveiku fólki á göngum sjúkrahússins er fjárskorturinn daglegur raunveruleiki. Starfsmannaráð beinir þeim tilmælum til allra alþingismanna að taka fullt tillit til ábyrgðarfulls málflutnings stjórnarmanna SHR varðandi fjárhagsvanda stofnunarinnar við afgreiðslu fyrrgreindra frumvarpa til laga fyrir jól 1997.``

Ég efast ekki um að einhverjir stjórnarsinnar, einhverjir hæstv. ráðherrar og einhverjir þingmenn, kunni að hrista höfuðið yfir ályktunum af þessu tagi, enn ein ályktunin, enn ein ábendingin. En í rauninni þegar við förum að hugsa um það er þetta mjög merkilegt. Þetta er skrifað af fólki sem er margt hvert mjög öruggt um persónulega stöðu sína en það sest niður og skrifar til Alþingis Íslendinga og beinir þeim tilmælum til Alþingis Íslendinga að við íhugum hvaða vandi blasir þarna við. Mér finnst þetta mjög merkilegt og mér finnst þetta í rauninni ekki aðeins vera umhugsunarefni, mér finnst þetta vera fagnaðarefni að þarna skuli vera fólk með þessa ábyrgðartilfinningu gagnvart starfi sínu.

Hæstv. forseti. Ég sakna þess að hæstv. heilbrrh. er ekki í salnum. Ég óskaði eftir því áðan að fá svör við tilteknum spurningum um niðurskurð á geðdeildinni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, lokun rúma, og í Arnarholti og óska eftir því að hæstv. ráðherra komi í salinn og geri grein fyrir afstöðu sinni og hvað hæstv. ráðherra hyggst gera í því máli. En þangað til hæstv. ráðherra kemur í salinn langar mig til að víkja örlítið að skuldastöðu heimilanna og hvað þar er helst á döfinni hjá ríkisstjórninni í þeim efnum.

Það eru mjög sláandi tölur sem koma í ljós þegar litið er á skuldaþróun heimilanna á Íslandi. Skuldir heimilanna hafa aukist í hlutfalli við ráðstöfunartekjur úr 117,3% á árinu 1993 í 132,8% á þessu ári samkvæmt áætlun Seðlabankans. Þá benda spár til þess að skuldir heimilanna muni nema um 374 milljörðum kr. í lok ársins 1997 og hafa þær aukist um rúmlega 26 milljarða kr. á árinu. Hvað hefur ríkisstjórnin fram að færa þegar kemur að þessum málaflokki? Jú, fyrst og fremst er mikill fögnuður sem hefur verið lýst yfir vegna þeirrar ákvörðunar Seðlabankans að reyna að keyra upp vexti. Það var ekki mikið. Vextir voru keyrðir upp um 0,03% ekki alls fyrir löngu og talsmenn ríkisstjórnarinnar sögðu að komin væri mjög jákvæð ráðstöfun af hálfu Seðlabankans til að slá á þenslu. Æskilegt væri að hækka vexti í landinu til að slá á þenslu. En gera menn sér grein fyrir því að vextir á Íslandi núna eru mjög háir? Meðalvextir verðtryggðra skuldabréfa liggja núna í 9%, einu prósentustigi ofar en þeir voru í byrjun áratugarins. Hvað þýðir þetta með tilliti til skulda heimilanna sem eru 374 milljarðar kr.? Hvað þýðir þetta á einu ári? Þetta þýðir tæpar 4 þúsund millj. kr. sem menn eru að tala um sem æskilega efnahagsráðstöfun að færa yfir á heimilin til að slá á þensluna. Menn eru að tala um það sem æskilega efnahagsráðstöfun til að slá á þenslu í þjóðfélaginu að keyra vextina upp. Og ég vek athygli á því að eitt prósentustig í vöxtunum þýðir tilfærslur í þjóðfélaginu yfir á hina skuldugu um 3.740 millj. kr. Það er það sem við erum að tala um.

Gerð var tilraun til að keyra niður vexti með handafli á sínum tíma. Það mun hafa verið í byrjun árs 1994. Ríkisstjórnin hafði þá þráast lengi við og sagt að hún tryði ekki á handafl. Þetta þyrfti allt að gerast og ætti allt að gera samkvæmt lögmálum markaðarins. En það var þá reynt eftir mikinn þrýsting frá verkalýðshreyfingunni og frá stjórnarandstöðunni að beitt yrði handafli á vextina og þeir voru keyrðir niður um hátt á annað prósentustig. Þetta var árið 1994. Þetta var ekki mjög lengi en það gerðist þó og skipti sköpum fyrir fyrirtækin á sínum tíma og skipti miklu máli fyrir heimilin á þessum tíma.

Ég hef áður vakið máls á því í þessum ræðustól hver breyting hefur orðið í þjóðfélagi okkar á síðustu árum og áratugum hvað þetta snertir. Fyrir 20--30 árum þótti óverjanlegt að stunda okur á Íslandi. Gott ef það varðaði ekki við lög að okra. Núna sjá menn þetta hins vegar sem mikla dyggð og á morgun munum fjalla um frv. um lífeyrissjóði þar sem það er gert að lögbundinni skyldu að okra. Við höfum áður samþykkt slíkt frv. á Alþingi um lífeyrissjóði, það var um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar segir og þetta er nákvæmlega samsvarandi lagagrein. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.``

Þetta er lögboðið. Okrið er lögboðið og það sem ég var að vitna til að hefði gerst á árinu 1994 er núna bannað með lögum. Menn eru að banna með lögum að keyra vexti niður með handafli. Menn eru að banna það með lagasetningu. Þetta er sú breyting sem hefur orðið í þjóðfélagi okkar á síðustu árum og áratugum.

[26:00]

Önnur breyting hefur orðið hér á síðustu árum og áratugum. Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að á sama tíma og menn hafa í umræðum í dag verið að lýsa áhyggjum yfir stöðu öryrkja, lífeyrisþega og atvinnulausra þá una aðrir bara nokkuð vel við sinn hag og í Frjálsri verslun er talað um að veislan sé hafin. Veislan er hafin. Hverjir eru það sem tala um að veislan sé hafin? Það eru þeir sem auglýsa í morgunútvarpinu, í dagútvarpinu og á kvöldin, frá morgni til kvölds, um það hvernig eigi að hagnast og græða á verðbréfaviðskiptum og hvernig eigi að komast hjá því að greiða til samfélagsins, hvernig eigi að komast hjá því að fjármagna geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og velferðarþjónstuna á Íslandi. ,,Verðbréfaveislan er hafin``, segir Frjáls verslun. Annasamasti tími ársins í sölu hlutabréfa er genginn í garð. Við erum að tala um jólin á Íslandi árið 1997. (Gripið fram í: Þeir frestuðu þeim á Kúbu.) Eftir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur setið við völd í nokkur ár þá eru hafin mikil veisluhöld í landinu þar sem talað er um brosmilda forstjóra. Og hvað er það sem menn sækjast eftir? Jú, vegna þess að í skattaparadís hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar gefst mönnum tækifæri til þess að hagnast verulega á verðbréfaviðskiptum. Ef þú kaupir hlutabréf fyrir 130 þús. þá færðu 60% af því undanþegið skatti. Þar erum við komin með 80 þús. kr. Þetta getur þýtt að einstaklingur fái sendan heim tékka frá skattborgaranum upp á 32 þús. kr. Þetta eru menn að auglýsa í morgunútvarpinu. Þetta er skattaparadísin. Þessi mannskapur er að sjálfsögðu að hagnast miklu meira en þessu nemur vegna þess að arðurinn af hlutabréfunum kemur þar að auki að sjálfsögðu. Hann kemur þar að auki. (Gripið fram í: Þeir græða sem eiga fyrir.) Þetta er sá mannskapur, þetta er sá hluti þjóðfélagsins sem er að hagnast.

En það sem er verst er að hér á sér ekki stað raunveruleg uppbygging í atvinnulífi. Hér er ekki verið að stuðla að raunverulegri uppbyggingu í atvinnulífi. Hér er samfélagið allt komið á það rólið að leita eftir leiðum til þess að komast hjá því að borga til samfélagsþjónustunnar. Það er þessi breyting sem er að verða í þjóðfélaginu. Í stað þess að við búum við ríkisstjórn sem reynir að stappa stálinu í þjóðina og safna liði til þess að styrkja og treysta velferðarþjónustuna, koma í veg fyrir að við þurfum að loka sjúkradeildum, stuðla að því að við getum búið atvinnulausum mannsæmandi kjör, öryrkjum og ellilífeyrisþegum, þá er efnt til mikilla veisluhalda hjá þeim sem hagnast á verðbréfaviðskiptum.

Við skulum ekki gleyma því þegar við tölum um fjárlög að þessi ríkisstjórn hefur fært þessum hluta samfélagsins stórkostlegar kjarabætur með því að færa skattprósentuna af hagnaði á hlutabréfaviðskiptum niður í 10%. Þeir sem áður höfðu búið við sömu skattprósentu og aðrir af sínum tekjum eru komnir núna niður í 10%. Þetta er skýringin á veisluhöldunum sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hafa verið að efna til. Mér finnst nauðsynlegt að vekja máls á þessu og athygli á þessu þegar við erum að tala um fjárlögin og þegar við erum að tala um vanda sjúkrahúsanna og um vanda velferðarþjónustunnar. Þegar menn bera sig illa undan fjárskorti skulum við ekki gleyma því hvað þessi ríkisstjórn er búin að vera að gera. Ef menn síðan ætla að neita því að samþykkja þær tillögur sem komið hafa fram frá minni hluta fjárln. um tekjuöflun fyrir ríkissjóð til að standa straum af þeim kostnaði sem óhjákvæmilega fellur á sjúkrahúsin og verður óhjákvæmilega að leysa einhvern veginn ef menn ætla ekki að skera niður þessa þjónustu, þá finnst mér ábyrgðarhluti að greiða atkvæði gegn þessum tillögum.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira. Ég hef talað í milljónatugum og milljörðum en ég ætla að enda mitt mál, ekki í milljörðum og ekki hundruðum milljóna heldur í spurningu sem hljóðar upp á fáeinar millj. kr. sem skipta sköpum og skipta miklu máli fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Hvað hyggst hæstv. heilbrrh. gera gagnvart lokunum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, lokunum á sjúkrarýmum fyrir geðsjúkt fólk á Sjúkrahúsi Reykjavíkur? Borist hafa fréttir um að tekin hafi verið ákvörðun um það að loka sex sjúkrarúmum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og í Arnarholti var tólf rúmum lokað fyrir síðustu áramót. Ég heyri að hæstv. heilbrrh. segir að þau séu ívið færri, að þau hafi verið sex talsins. Þó það væri bara eitt. Á sama tíma og allur ráðherrabekkurinn hér greiddi atkvæði með því að veita einkavæðingarsveit ríkisstjórnarinnar 15 millj. kr. til að sukka með og eru búnir að dæla mörg hundruð millj. kr. inn á marmaragólfin í sendiráðum Íslands erlendis, þá er verið að loka hér, skella hurðum á geðsjúkt fólk. Spurningin snýst ekki um það hvort þetta eru tólf rými eða sex. Það er verið að loka rúmum í Arnarholti og það er verið að loka rúmum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. (Gripið fram í: Hvað ætlar BSRB að gera?) Ég vil heyra það frá hæstv. heilbrrh. hvað hann ætlar að gera í þessu efni.