1997-12-20 02:08:57# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[26:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi umræða er sennilega brátt á enda runnin og þingmenn Alþb. og óháðra hafa lagt orð í belg undanfarna klukkutíma og komið víða við, bæði í menntakerfi og heilbrigðiskerfi á myndarlegan hátt þannig að í sjálfu sér er ekki mikil þörf á að bæta miklu við það sem fram kom fyrr í dag í upphafi umræðunnar af hálfu okkar talsmanns.

Ljóst er að þungi þessarar fjárlagaumræðu hefur verið á tveimur þáttum aðallega. Það eru í fyrsta lagi heilbrigðismálin. Ég er nú búinn að vera um skeið í þessari stofnun. Ég man satt að segja ekki eftir því að umræðan um heilbrigðismál hafi yfirgnæft svona fjárlagaumræðuna. Það kann auðvitað að vera að það hafi einhvern tíma gerst þó ég muni ekki eftir því en ég held að það sé rétt hjá mér að þetta sé sú fjárlagaumræða þar sem heilbrigðismálin hafi tekið meiri tíma en nokkru sinni fyrr og ég tel að stjórnarandstöðunni og öðrum sem lagt hafa þeim málum lið hafi tekist að opna augu allmargra. Ég tek eftir því að verið er að setja um 100 millj. kr í viðgerðir á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á næsta ári. Engu að síður er ljóst að þarna vantar gríðarlega fjármuni og bersýnilegt er að dæmið gengur engan veginn upp eins og það er lagt upp í fjárlagafrv. þannig að að þessu leytinu til er fjárlagafrv. ekki rétt. Það er falsað, tölurnar eru rangar. Allir vita það og líka talsmenn hv. fjárln.

Ég vil rifja það upp í lok máls míns um þessa hluti að bæði formaður fjárln. og varaformaður svöruðu mjög mikilvægum spurningum mínum við 3. umr. fjáraukalaganna þar sem þeir gerðu grein fyrir því að þeir teldu að ríkissjóður hlyti að koma til skjalanna að því er varðar þann kostnað sem fellur á sjúkrahúsin, m.a. vegna vanskila, dráttarvaxta o.fl., fyrir utan hinn almenna halla sem á sjúkrahúsunum hvílir og ég vil ítreka þessar niðurstöður þeirra vegna þess að þær opna mjög vel fyrir þessa stöðu og segja sem svo: Þeir viðurkenna að fjárlagatölurnar eru ekki endanlegar, þær eru ekki réttar að því er heilbrrn. varðar. Ég vil halda því til haga, að því er mína innkomu í þessa umræðu varðar, að ég tel að þetta mál liggi svona.

Ég vil einnig taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur um menntamálin hér fyrr í kvöld og einnig undirstrika það sem fram kom í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um vandamál einstakra sjúkrahúsa (ÖS: Bara eins.) þar sem hún nefndi sérstaklega dæmi um Sjúkrahúsið á Selfossi þar sem væri um að ræða hrikalegan og alvarlegan vanda.

Ég tel að líka sé nauðsynlegt að hæstv. heilbrrh. svari spurningum hv. 17. þm. Reykv. vegna þess að þar var spurt um grundvallaratriði að því er varðar heilbrigðismálin og þróun þeirra á næstunni.

Ég vil að síðustu vekja athygli á tillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði og segja eins og er að ég er tiltölulega ánægður með það og stoltur af því að vera flutningsmaður að slíkri tillögu miðað við hinn kjördæmislega bakgrunn minn. Tilgangurinn með þessu er ekki síst sá að vekja athygli á því að verið er að skattleggja raforkunotendur í landinu óhæfilega í þágu svokallaðra eignaraðila Landsvirkjunar og verið er að reyna að flytja eitthvað af þeim peningum aftur til þeirra sem eru með óhæfilega orkureikninga með þessari litlu tillögu sem við flytjum, en tillaga um nokkru stærri upphæð var felld við 2. umr. málsins.

Þá vil ég líka vekja athygli á lítilli tillögu sem ég flyt um framlag til Landssambands aldraðra, tillögu sem við drógum til baka við 3. umr., tillögu upp á tiltölulega mjög lágar upphæðir, 2--3 millj. kr. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að skoða þessa tillögu með vinsemd þegar atkvæðagreiðslur fara fram á morgun.

Ég vil síðan minna á tillögu sem ég er meðflutningsmaður að, þ.e. heiðurslaun listamanna. Þar er sú sérkennilega staða uppi að ekki hefur tekist að halda við þeim fjölda á heiðurslaunaskrá sem var fyrir fáeinum árum og vantar þar mikið á. Ég tel að hv. menntmn. hafi ekki haldið nægilega vel á þessum málum á undanförnum árum og ég harma það og þótti leitt að geta ekki átt aðild að því að breyta þessum lista nokkuð með því að bæta þar inn nýjum einstaklingum frá og með fjárlögum ársins 1998, einstaklingum úr mörgum listgreinum sem eru sannarlega verðugir þess að vera á þessum heiðurslaunalista.

Það er umhugsunarvert, herra forseti, að við lok þessarar umræðu er salurinn skipaður þingmönnum Alþb. og óháðra þannig að ef nú væri gengið til atkvæða, þá er alveg ljóst hver niðurstaðan yrði. (Gripið fram í.) --- og einum fyrrv. alþýðubandalagsmanni sem hefur engu gleymt af því sem hann lærði fyrrum. Með þessari áherslu okkar og málflutningi í kvöld sýnum við væntanlega að okkur er mikil alvara í þessari umræðu um fjárlögin. Hún hefur nú staðið nokkuð lengi, mikið lengur en 3. umr. um fjárlög hefur oft staðið undanfarin ár og er reyndar ekki búin vegna þess að menn eru að fikra sig hér í stólinn, sé ég, í stórum stíl. Til þess að skapa svigrúm fyrir þá í stólnum, yfirgef ég hann að sinni.