Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 7 – 7. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um aukið framlag til þróunarsamvinnu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að auka skuli framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu og tengdra verkefna í áföngum á árunum 1998–2001 með eftirtöldum aðgerðum:
     1.     Á árinu 1998 verði framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands aukið sérstaklega um 15 millj. kr. Verði þeim fjármunum varið til áætlanagerðar og undirbúnings aukinna verkefna á komandi árum.
     2.     Á árunum 1999 og 2000 verði grunnframlag til Þróunarsamvinnustofnunar 250 millj. kr. samkvæmt fjárlögum, auk tekna af sérstöku álagi á hátekjuskatt og tekjuskatt fyrirtækja. Á sérstakan tekjuskatt manna leggist 1% álag hvort ár og á tekjuskatt af hagnaði fyrir­tækja (lögaðila) 1,5% álag.
     3.     Frá og með árinu 2001 verði grunnframlag til Þróunarsamvinnustofnunar 350 millj. kr., auk 2% álags á hátekjuskatt og 3% álags á tekjuskatt fyrirtækja.
     4.     Á árinu 1998 skal Þróunarsamvinnustofnun vinna nauðsynleg undirbúningsverkefni, m.a. verði gerð áætlun um verkefni sem talin eru brýn á sviði þróunarsamvinnu þar sem Íslendingar geta einir sér eða í samvinnu við aðra orðið að liði í krafti sérþekkingar, t.d. á sviði sjávarútvegs eða tengdra greina. Utanríkisráðherra leggi áætlun Þróunarsam­vinnustofnunar fyrir Alþingi haustið 1998 í formi skýrslu.

Greinargerð.


    Tillagan er endurflutt óbreytt frá síðasta þingi utan að ártöl eru færð fram um eitt ár.
    Saga opinberrar þróunaraðstoðar og þróunarsamvinnuverkefna er hvorki ýkja löng né glæsileg af Íslands hálfu.
    Á áttunda áratugnum og allt til ársins 1981, þegar Þróunarsamvinnustofnun tók til starfa, var aðstoðin bundin við framlög til alþjóðastofnana og samnorrænna verkefna. Varið var á bilinu 0,03–0,07% af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar. Undan eru þó skilin framlög til hjálparstarfs og neyðaraðstoðar, oftast í samstarfi við aðila eins og Rauða krossinn og Hjálp­arstofnun kirkjunnar.
    Þegar Þróunarsamvinnustofnun tók til starfa voru bundnar vonir við að úr frammistöðu okkar rættist að þessu leyti. Í kjölfarið komu vissulega til sögunnar fyrstu tvíhliða verkefnin þar sem Íslendingar reyndu að aðstoða fátækar þjóðir við uppbyggingu, oftast á sviði sjávar­útvegs. Framlög jukust árin 1982 og 1983, en lækkuðu síðan aftur.
    28. maí 1985 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar frá utanríkismálanefnd um þró­unaraðstoð Íslands. Ályktunin var um að á næstu sjö árum skyldi með reglubundinni aukningu framlaga ná því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum yrðu 0,7% af þjóðarframleiðslu. Gengið var út frá þeim viðmiðunarmörkum sem Sameinuðu þjóð­irnar höfðu samþykkt fyrir velmegunarríkin, að varið skyldi a.m.k. jafnvirði 1% þjóðarfram­leiðslu til aðstoðar við þróunarríki og þar af væri 0,7% opinber þróunaraðstoð.

    Skemmst er frá því að segja að framkvæmd þessarar ályktunar Alþingis frá 1985 hefur orðið harla dapurleg. Árin á eftir, þ.e. 1986–88, lækkuðu framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af þjóðartekjum og fóru niður í um 0,05%. Framlögin hækkuðu hins vegar verulega næstu þrjú ár, 1989–91, og náðu þá hæsta hlutfalli hingað til eða yfir 0,13%. Síðan hafa framlögin aftur farið heldur lækkandi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og samkvæmt nýfram­lögðu fjárlagafrumvarpi munu þau ekki gera betur en u.þ.b. standa í stað í krónum talið á næsta ári.
    Tillagan gerir ráð fyrir að framlag Íslands til þróunarsamvinnu verði verulega aukið á ár­unum fram yfir aldamót. Í ljósi reynslunnar er lagt til að sú aukning verði að verulegu leyti fjármögnuð með sérstakri tekjuöflun í skattkerfinu, þ.e. sérstöku álagi á hátekjuskatt einstak­linga og á tekjuskatt fyrirtækja. Auk þess verði fjárveiting eða grunnframlag til Þróunarsam­vinnustofnunar hækkuð nokkuð, í fyrsta sinn strax á næsta ári, og verði þeir fjármunir notaðir til undirbúnings nýrra verkefna. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður framlag til þróunar­mála 670 millj. kr. og stendur nokkurn veginn í stað. Hér er miðað við upphæðir skv. fjárlaga­frumvarpi fyrir árið 1997 (frumvarpi haustið 1996) þegar tillagan var fyrst flutt. Tölur breyt­ast í samræmi við það sem verður niðurstaðan í frumvarpi haustið 1997 (fjárlögum ársins 1998). Til Þróunarsamvinnustofnunar fara 172 millj. kr. og hækkar framlagið um 14,4 millj. kr. til nýrra verkefna í Mósambík. Tillagan gerir ráð fyrir að stofnunin fái 15 millj. kr. í við­bót til að undirbúa aukin verkefni og gera áætlun um hvernig auknum framlögum til þróunar­aðstoðar verði best varið.
    Tillagan gerir ráð fyrir að framlögin hækki síðan á árunum 1999–2001 með hærra grunn­framlagi og sérstakri tekjuöflun. Lauslega áætlað ættu opinber framlög þá að geta orðið eins og fram kemur í eftirfarandi töflu, reiknað á núgildandi verðlagi. Er þá gert ráð fyrir óbreytt­um framlögum til þróunarmála annarra en Þróunarsamvinnustofnunar og til hjálparstarfsemi og alþjóðastofnana sem flokkast undir þróunarmál.

    1998     1999     2000     2001


Framlag til Þróunarsamvinnustofnunar          187     250     250     350
Önnur framlög til þróunarmála og alþjóðastofnana
á því sviði          498     500     500     500
Tekjur af álagi á hátekjuskatt          0     65     65     130
Tekjur af álagi á tekjuskatt fyrirtækja          0     220     220     440
Samtals          685     1035     1035     1420
Hlutfall af* þjóðarframleiðslu          0,13%     0,20%     0,20%     0,28%

* Gert er ráð fyrir að allar upphæðir færist upp í takt við aukningu (breytingu) þjóðartekna þannig að hlutfallstalan verði óbreytt.
    Þótt þessi áætlun gengi eftir og opinber framlög til þróunarmála rúmlega tvöfölduðust á árunum fram að aldamótum yrði samt langt í land að ná áðurnefndu markmiði um að opinber þróunaraðstoð verði 0,7% af þjóðarframleiðslu. Hér er því fyrst og fremst verið að leggja til fyrstu skref á þeirri löngu leið sem Íslendingar eiga fyrir höndum ef þeir á annað borð vilja kinnroðalaust geta gengist við frammistöðu sinni í þessum efnum. Á árunum eftir aldamótin þarf því að halda áfram á sömu braut og auka framlög til þróunarsamvinnu með frekari hækk­un grunnfjárveitinga og/eða aukinni sjálfstæðri tekjuöflun.

Fylgiskjal I.


Utanríkisráðuneytið:

Þróunarsamvinna Íslands.


(10. kafli skýrslu íslenskra stjórnvalda vegna fjórðu ráðstefnu


Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Peking 1995.)



Þróunarsamvinna Íslands.
    Íslendingar tóku ekki þátt í alþjóðlegu þróunarstarfi fyrr en á áttunda áratugnum. Fyrstu árin voru framlög Íslands nær eingöngu í formi fjárframlaga til alþjóðastofnana og norrænna samvinnuverkefna en eftir stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) árið 1981 má segja að sjálfstæð þátttaka Íslands í þróunarsamvinnu hefjist. Íslendingar höfðu þó fyrir þann tíma oft sýnt í verki viljann til að hjálpa bágstöddum. Safnanir á vegum stofnana eins og Rauða krossins og Hjálparstofnunar kirkjunnar skiluðu yfirleitt umtalsverðum upphæðum og gera enn. Í eftirfarandi samantekt er ekki gerð úttekt á fjármunum sem hafa safnast hjá félög­um, heldur litið til þess sem stjórnvöld hafa gert í þessum efnum.

Framlag stjórnvalda til þróunaraðstoðar.
    
Íslensk stjórnvöld eru enn langt frá því að uppfylla viðmið Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu renni til þróunaraðstoðar. Árlegt framlag Íslands hefur und­anfarin ár verið rétt ríflega 0,1% af vergri þjóðarframleiðslu og er það með því minnsta sem gerist meðal iðnríkja.






(Súlurit - myndað)













    Þrátt fyrir ítrekaðar viljayfirlýsingar allra stjórnmálaflokka á Íslandi og talsverðar umræð­ur í samfélaginu hefur enn ekki tekist að þoka framlaginu upp á við að neinu ráði. Þó má merkja að á allra síðustu árum hafi áhugi fyrir þessum málaflokki aukist dálítið á meðal al­mennings hér á landi. Núverandi ríkisstjórn hefur einnig beitt sér fyrir lítils háttar hækkun á framlögum á sama tíma og niðurskurður hefur verið á nær öllum öðrum sviðum ríkisút­gjalda.
    Grundvallarmarkmið þróunaraðstoðar Íslendinga er að styðja þróunarlönd í viðleitni þeirra í að auka efnahagslegan vöxt og stuðla að félagslegum framgangi og stjórnmálalegu sjálfstæði í samræmi við sáttmála og grunnviðmið Sameinuðu þjóðanna. Áhersla er lögð á að aðstoða fátækustu löndin og á þann hátt er talið að aðstoðin komi þeim hópum til góða sem verst eru settir.
    Um þriðjungur þess fjármagns sem ríkið ver til þróunaraðstoðar fer til verkefna Þróunar­samvinnustofnunar. Alþjóðaframfarastofnunin (IDA) fær sinn þriðjung og það sem þá er eftir skiptist á Alþjóðabankann (IBRD), Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Alþjóða­gjaldeyrissjóðinn (IMF), Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), Norræna þróunar­sjóðinn (NDF), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Matvæla- og landbúnaðarstofn­un Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna til handa konum (UNI­FEM). Um það bil 10% heildarfjármagns stjórnvalda hafa undanfarin ár farið til sérstakra verkefna í neyðaraðstoð.
    Þannig er drjúgur hluti þróunaraðstoðar framlög til stofnana og telja má víst að Íslendingar hafi takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á ráðstöfun þess fjár, nema ef vera kynni innan Norræna þróunarsjóðsins.

Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna.
    Rekstur Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hófst hér á landi árið 1979. Fyrstu árin greiddi íslenska ríkið helming rekstrarkostnaðar en greiðir nú um 80% af kostnaðinum við rekstur skólans. Nálægt hundrað nemendur hafa lokið sex mánaða námi frá Jarðhitaskólanum frá því að hann hóf störf.
    Kannanir hafa leitt í ljós að starf skólans hefur verið árangursríkt. Langflestir nemendur hans vinna nú við jarðhitaverkefni í heimalöndum sínum og ýmsir þeirra eru leiðandi sérfræð­ingar á þessu sviði í þróunarlöndunum.

Marghliða og tvíhliða aðstoð.
    Á undanförnum árum hefur marghliða aðstoð numið ríflega 50% af fjárhæðinni sem varið er í þróunaraðstoð og tvíhliða aðstoð verið tæplega 40%. Neyðaraðstoð nemur um 10% af heildarupphæðinni og er henni að hluta til beint til frjálsra félagasamtaka sem jafnframt safna framlögum meðal almennings á Íslandi.
    Þátttaka Íslendinga í starfsemi alþjóðastofnana sem veita svokallaða marghliða aðstoð er vistuð víða innan íslenska stjórnkerfisins. Hefur það gert yfirsýn yfir hana erfiðari og ef til vill hefur hún því ekki verið eins markviss og best væri á kosið.
    Tvíhliða aðstoð íslenskra stjórnvalda er í höndum ÞSSÍ. Hún er eingöngu veitt í formi gjafaaðstoðar og er að mestum hluta verkefnaaðstoð.
    ÞSSÍ hefur samþykkt eftirfarandi markmið og áherslur til grundvallar starfi sínu:
—    Þróunarsamvinna skal miða að því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, einkum með því að miðla þekkingu og verkkunnáttu. Þróunarsamvinna skal stuðla að varanlegum framför­um, vernd umhverfis og auðlinda, þróun atvinnulífs, jafnrétti, lýðræði og mannréttindum.
—    Mikilvægt er að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, en hagur kvenna og barna er oft fyrir borð borinn við veitingu þróunaraðstoðar. Þess skal jafnan gætt að sú aðstoð sem veitt er af Þróunarsamvinnustofnun eða fyrir tilstuðlan hennar nýtist sem flestum og valdi ekki óæskilegri röskun á högum þegnanna.
—    Áhersla skal lögð á samvinnu við þau lönd þar sem lífskjör eru lökust að mati viðurkenndra aðila.
—    Aðstoð skal einkum veitt á þeim sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérstakri þekkingu og reynslu sem hægt er að miðla með fræðslu og þjálfun.
    Vegna takmarkaðs fjármagns verður stofnunin að einbeita sér að fáum löndum og fáum sviðum. Með því móti nýtist aðstoðin best og getur þjónað langtímamarkmiðum. Jafnframt auðveldar það stofnuninni að fá yfirsýn og öðlast þekkingu á þeim löndum og viðfangsefnum sem hún beinir starfsemi sinni að.
    Við val á samstarfslöndum leggur ÞSSÍ fátæktarskilgreiningu Sameinuðu þjóðanna til grundvallar. Í öllum samstarfslöndum hefur ÞSSÍ lagt áherslu á þátttöku í uppbyggingu sjáv­arútvegs og fiskvinnslu. Fiskur er þýðingarmikil viðbót við dýrafitu fátækasta hluta íbúanna og jafnframt það svið þar sem Íslendingar telja sig hafa einna besta þekkingu fram að færa.
    Að undanförnu hefur ÞSSÍ einnig beint augum sínum að heilsugæslu og fullorðinsfræðslu. Slík verkefni miða að því að bæta lífsgrundvöll þeirra sem erfiðast eiga í þróunarlöndunum, en það eru oftast konur og börn. Sérstök kvennaverkefni ÞSSÍ hafa til þessa bæði verið fá og smá. Framlag til þeirra hefur verið um 1% af heildarfjármagni stofnunarinnar. Á síðasta ári varð athyglisverð breyting á þessu þegar ÞSSÍ hóf að greiða til verkefnis UNIFEM á Íslandi í Andesfjöllum og tvöfaldaði þar með hlut kvennaverkefna hjá stofnuninni.
    Fátækt og atvinnuleysi eru einhver alvarlegustu félagslegu vandamál heimsins og verst er ástandið í fátækari hlutum heimsins. Það hefur sýnt sig að vænlegasta leiðin til að fjölga at­vinnutækifærum er að styðja við bakið á litlum fyrirtækjum. Miklu skiptir hvernig þeim sem stunda slíkan rekstur gengur að fá aðgang að fjármagni, þjálfun, tækni og þjónustu sem eru allt mikilvægir þættir til að auka möguleika þeirra á að lifa og dafna. ÞSSÍ hefur lagt aukna áherslu á að styrkja rekstur sem þennan.

Framtíðarsýn.
    
Kröfur um gæði þróunaraðstoðar vaxa stöðugt. Til þess að koma í veg fyrir misnotkun og tryggja að aðstoðin skili sér á leiðarenda hefur á undanförnum árum verið lögð áhersla á að vanda vel til alls undirbúnings og eins hefur verið á það bent að mikilvægt sé að samræma alla þróunaraðstoð stjórnvalda og setja hana undir eina stjórn. Sem stendur eru málefni sem tengjast þróunaraðstoð, þróunarsamvinnu og alþjóðlegri hjálparstarfsemi vistuð víða innan stjórnkerfisins.
    Það er markmið ríkisstjórnarinnar að þátttaka Íslendinga í starfsemi alþjóðastofnana sem veita marghliða aðstoð verði eins virk og markviss og frekast er kostur. Eftirsóknarvert er að geta haft áhrif á ráðstöfun eigin framlaga, og því telja stjórnvöld æskilegt að framlög til marghliða aðstoðar verði aldrei hærri en 50% af heildarframlögum til þróunaraðstoðar.
    Á allrasíðustu árum má merkja aukinn áhuga á þróunaraðstoð hér á landi og hefur núver­andi ríkisstjórn beitt sér fyrir lítils háttar hækkun á framlögum á sama tíma og niðurskurður hefur verið á nær öllum öðrum sviðum ríkisútgjalda. Þá hafa verið gerðar áætlanir um að auka aðstoðina jafnt og þétt á næstu árum.


Fylgiskjal II.


Þingsályktun um þróunaraðstoð Íslands.


(Samþykkt 28. maí 1985.)



    Alþingi ályktar að á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum verði 0,7% af þjóðarfram­leiðslu.

Greinargerð með þingsályktunartillögunni.


(Þskj. 947, 507. mál á 107. löggjafarþingi, 1984–85.)



    Það er sem kunnugt er markmið velmegunarríkja að leggja fram 1% þjóðarframleiðslu til þróunarstarfsemi í fátækari ríkju heims, þ.e. 0,7% af opinberu fé og 0,3% á vegum samtaka og einkaaðila. Árið 1984 voru ríkisframlög Íslands til þróunaraðstoðar rúmar 72 millj. kr. eða 0,107% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Á árinu 1985 lækkar fjárhæðin um 3,2 millj. kr. í 68,9 millj. kr. eða í 0,08% af áætlaðri þjóðarframleiðslu nema taldar séu með 8,3 millj. kr. niðurgreiðslur á mjólkurdufti er fóru til neyðarhjálpar í Eþíópíu sem þó er hæpið en við það mundu heildarframlög opinberrar þróunaraðstoðar á árinu hækka í 77,2 millj. kr. eða 0,087% af þjóðarframleiðslu.
    Á tímabilinu 1974–1985 hefur eftirfarandi hlutfalli þjóðarframleiðslu verið varið til þró­unaraðstoðar af Íslands hálfu:

1974     1975     1976     1977     1978     1979     1980     1981     1982     1983     1984     1985

0,03%     0,04%     0,03%     0,06%     0,05%     0,05%     0,07%     0,05%     0,08%     0,13%     0,10%     0,08%

    Þannig eru framlög hins opinbera í heild á þessu ári nær nífalt lægri en 0,7%-markið sem velmegunarríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér að ná og það væri sam­kvæmt núverandi áætlun um þjóðarframleiðslu nálega 620 millj. kr.
    Utanríkismálanefnd er eindregið þeirrar skoðunar að Ísland sem velmegunarríki eigi að taka vaxandi þátt í stuðningi við þróunarríki en framlög Íslands hafa lítið aukist síðustu ár, sbr. framangreint yfirlit, þótt þingmenn úr röðum allra stjórnmálaflokka hafi lagt áherslu á að hækka framlög verulega.
    Mikið skortir á að opinber framlög af Íslands hálfu séu sambærileg við framlög annarra norrænna þjóða. Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa fyrir mörgum árum náð áðurnefndu marki og Finnland stefnir að því að ná því á þessum áratug. Árið 1983 lögðu þessi ríki fram til þróunarmála sem hér segir:



    Danmörk          0,73% af vergri þjóðarframleiðslu.
    Finnland          0,33% af vergri þjóðarframleiðslu.
    Noregur          1,06% af vergri þjóðarframleiðslu.
    Svíþjóð          0,85% af vergri þjóðarframleiðslu.

    Opinber framlög til þróunarsamvinnu skiptast sem kunnugt er í tvíhliða og fjölþjóðlega aðstoð, þ.e. annars vegar aðstoð sem veitt er tilteknu þróunarríki beint og hins vegar aðstoð sem miðlað er um fjölþjóðastofnanir. Árin 1981–1982 ráðstöfuðu Danmörk, Finnland, Nor­egur og Svíðþjóð frá 53% til 65% af framlögum sínum til tvíhliða aðstoðar, að meðaltali 59%. Árið 1984 og 1985 var hlutfall tvíhliða aðstoðar af þróunaraðstoð Íslands 57,4% og 29,8%.
    Til frekari upplýsingar og samanburðar á framlögum til þróunaraðstoðar má vísa til þess að 17 af 24 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem eru aðilar að þróunaraðstoðarnefnd stofnunarinnar (DAC), leggja fram 3/ 4 hluta þróunaraðstoðar í heiminum. Hér fylgir tafla ársins 1983 yfir framlög DAC-landa, skiptingu framlaga í tvíhliða og fjölþjóðlega aðstoð, hlutfall framlaga af þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur á íbúa.



         Hlutfall til     Hluti af þjóðar
    Þjóðarframlög     tvíhliða-fjöl-     framleiðslu     Þjóðartekjur
    í milljónum dollara     þjóðlegra verkefna     í prósentum     á íbúa í dollurum


Ástralía          753     70,9     29,1     0,49     10.030
Austurríki          158     77,1     22,9     0,23     8.910
Belgía          480     60,2     39,8     0,59     8.270
Kanada          1.429     59,4     40,6     0,45     12.660
Danmörk          395     59,9     40,1     0,73     10.630
Finnland          153     60,4     39,6     0,33     9.570
Frakkland          3.815     82,4     17,6     0,74     9.460
V.-Þýskaland          3.176     66,1     33,9     0,49     10.650
Ítalía               827     53,5     46,5     0,24     6.160
Japan          3.761     64,5     35,5     0,33     9.700
Holland          1.195     67,9     32,1     0,91     9.140
N.-Sjáland          61     77,5     22,5     0,28     6.840
Noregur          584     56,8     43,2     1,06     13.320
Svíþjóð          754     69,8     30,2     0,85     10.650
Sviss               320     68,2     31,8     0,32     15.500
Bretland          1.605     53,5     46,5     0,35     8.100
Bandaríkin          7.992     68,7     31,3     0,24     14.120

                   Meðaltal:          67,5     32,5     0,36

    Þjóðartekjur á íbúa á Íslandi árið 1983 voru 9.000 dollarar en til samanburðar má nefna að árið 1982 voru árlegar þjóðartekjur á mann t.d. á Grænhöfðaeyjum 350 dollarar og í fjölda þróunarríkja svipaðar því.
    Síðan fyrstu lög um þróunaraðstoð voru sett hér á landi 1971 hefur smám saman skapast traustari grundvöllur undir tvíhliða þróunaraðstoð. Nú gilda á þessu sviði lög nr. 43/1981. Samkvæmt þeim fer Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) með framkvæmd íslenskrar þró­unarsamvinnu og starfar í tengslum við utanríkisráðuneytið og er stjórn hennar kjörin af Al­þingi. Aðalverkefni stofnunarinnar er þróunaraðstoð við Grænhöfðaeyjar í þeim tilgangi að efla fiskveiðar þar. Ekki hefur verið unnt að ráðast í nein ný verkefni um skeið vegna fjár­skorts. Er mjög mikilvægt að Alþingi og ríkisstjórn marki stefnu um vöxt þróunarframlaga næstu ár svo að fyrir fram fáist um það nokkur vitneskja hvers vænta má og eðlilegur tími gef­ist til undirbúnings fyrir ný verkefni. Þess vegna hefur utanríkismálanefnd í kjölfar ítarlegra umræðna um þróunarsamvinnumál orðið ásátt um að leggja fram þingsályktunartillögu þessa.
    Í sambandi við fyrirhuguð aukin framlög til þróunaraðstoðar þykir rétt að árétta þá megin­stefnu að einkum skuli hafa hliðsjón af því þegar framlögum verður ráðstafað hvar neyð er mest og hvar tryggast má telja að aðstoð skili árangri, jafnframt því að aðstoðinni verði ekki dreift um of og kappkostað við framkvæmd aðstoðarverkefna að taka jafnan tillit til aðstæðna íbúa á hverjum stað.
    Þá er það skoðun utanríkismálanefndar að beina beri auknum framlögum einkum að tví­hliða þróunarsamvinnu eða verkefnum sem Íslendingar geta séð um sjálfir. Sú reynsla, sem fengist hefur af rannsókna- og fiskiskipinu „Feng“, sérhönnuðu og smíðuðu hérlendis, á Grænhöfðaeyjum, er ný hvatning í þessa átt. Einnig hafa haslað sér völl íslensk ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem ráða nú þegar yfir umtalsverðri þekkingu og reynslu og leita sér nýrra verkefna en vaxandi fjöldi Íslendinga hefur á síðari árum unnið í þróunarlöndunum við margvísleg verkefni, þar á meðal eflingu fiskveiða og nýtingu jarðhita.
    Þegar aðstoð er veitt tvíhliða er ríkið, sem hana lætur í té, miklu virkari aðlili að allri framkvæmd. Það ræður því hvaða land skuli njóta aðstoðar, semur sjálft um efni og fyrir­komulag, leggur til mannafla, tækjabúnað og framleiðsluvörur eftir því sem heppilegast þykir, o.s.frv. Með þessu móti er, jafnframt því að veita þurfandi þjóðum þróunaraðstoð hægt að hlynna að eigin atvinnulífi, sérfræði- og ráðgjafarþjónustu og margs konar framleiðslustarfsemi enda sé gætt þeirra sjónarmiða sem gilda þurfa um þróunarsamvinnu og fullt samráð haft við þá aðila er henni stjórna. Þetta auðveldar löndum oft að láta aðstoð í té og leiðir til þess að aðstoðin getur orðið meiri en ella.
    Það er að auki einn höfuðkostur tvíhliða aðstoðar að ríkið, sem er veitandinn, getur frá upphafi til enda fylgst náið með því að skynsamlega sé staðið að málum, hagsýni gætt og sí­fellt reynt að tryggja að aðstoðin komi að tilætluðum notum.
    Þá skapar þetta form aðstoðar margs konar grundvöll fyrir gagnkvæm kynni og víðtækara samstarf við þau þróunarríki sem aðstoðar njóta. Er nefndin þeirrar skoðunar að nánari sam­vinna sé æskileg og geti orðið til góðs á margan hátt.
    Að því er varðar tilhögun þeirrar aukningar opinberra fjárframlaga til þróunarsamvinnu, sem hér er fjallað um, hefur einkum verið rætt um tvær aðferðir. Annars vegar að aukningin verði látin nema jafnri fjárhæð ár hvert á umræddu 7 ára tímabili, þ.e. um 77,4 millj. kr. ár­lega á föstu verðlagi miðað við óbreytta þjóðarframleiðslu. Hins vegar kemur til greina hækkun um jafnt hlutfall árlega sem þá þyrfti að vera 341/ 2–35% hækkun ár hvert fram til 1992. Síðari aðferðin felur í sér að hækkunin næmi lægri fjárhæðum fyrstu árin, þ.e. um 27 millj. kr. árið 1986 og rúmlega 36 millj. kr. árið 1987, miðað við núverandi áætlaða þjóðar­framleiðslu og fast verðlag, en upphæðirnar færu hækkandi að krónutölu ár frá ári. Ef um al­varlegan samdrátt þjóðarframleiðslu yrði að ræða einhvern tíma á umræddu tímabili væri eðlilegt að taka tillit til þess.


Fylgiskjal III.


Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar


um framlög til þróunarsamvinnu og hjálparstarfs.


(Þskj. 216, 95. mál á 109. löggjafarþingi, 1986–87.)



    Þróunarsamvinnustofnun Íslands kannaði einstök atriði fyrirspurnarinnar að beiðni utan­ríkisráðuneytisins og er þeim svarað í sömu töluröð og fram kemur í fyrirspurninni á þskj. 96. Um svar við 5. tölul. var og haft samráð við viðskiptaráðuneytið.

1. Framkvæmd á ályktun Alþingis 28. maí 1985.


    
Þegar ályktun Alþingis var samþykkt 1985 námu framlög ríkissjóðs til þróunarsamvinnu og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi 0,073% af þjóðarframleiðslu þess árs (1985). Í ár er áætlað að þetta hlutfall verði 0,062%. Stefnt skyldi að því samkvæmt ályktuninni að þessi framlög næmu 0,7% af þjóðarframleiðslu eftir sjö ár, þ.e. árið 1992.

2. Hlutfall þróunaraðstoðar af þjóðarframleiðslu.


    
Framlög til þróunarsamvinnu og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi samkvæmt fjárlagafrumvarpi 1987 nema 82.599.000 kr. Verg þjóðarframleiðsla er áætluð vera 152.600.000.000 kr. Hlutfall framlaganna af þjóðarframleiðslu verður þá 0,054%.


3.–4. Framlög Íslands og OECD-ríkja til þróunarsamvinnu


og hjálparstarfs sl. 10 ár.



    1977     1978     1979     1980     1981     1982     1983     1984     1985     1986


A    Framlög til þróunar-
    samvinnu og alþjóð-
    legs hjálparstarfs
    (í þús. kr.)          2.058     2.587     3.931     9.743     10.860     23.256     68.339     72.094     77.162     84.536

B     Verg þjóðarfram-
    leiðsla (í millj kr.)          4.031     6.235     9.195     15.094     23.142     35.429     59.590     77.007     105.100     136.200

C     Hlutfall A/B (%)          0,051     0,042     0,043     0,065     0,047     0,066     0,115     0,094     0,073     0,062

D    Verg landsframleiðsla
    á mann í bandaríkja-
    dölum          9.530     10.860     12.099     14.175     14.354     12.775     10.642     10.723     11.100     -

E     Röð Íslands meðal
    OECD-landa skv. D-lið     3.     4.     5.     3.     2.     4.     7.     7.     -     -


5. Aðild Íslands að hjálpar- og þróunarstarfi OECD.


    Af Íslands hálfu hefur ekki verið talin ástæða til að taka þátt í starfi Þróunarmiðstöðvar OECD. Meiri áhersla hefur verið lögð á aðra þætti í starfi samtakanna, svo sem þátttöku í ráðsfundum og störfum ýmissa nefnda, t.d. fiskimálanefndar. Í þessu sambandi skiptir og máli að hin takmarkaða aðstoð Íslands við þróunarlönd hefur beinst að starfi fáinna alþjóðastofn­ana og starf OECD hefur öðru fremur miðast við fræðilegri þætti sem ekki skipta sköpum um þróunaraðstoð sem slíka. Ekki er vitað til þess að af hálfu Þróunarmiðstöðvar OECD hafi verið spurst sérstaklega fyrir um þróunaraðstoð Íslands.

6. Hæsta hlutfall þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar sl. 10 ár.









Tafla - mynduð