Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 278 – 239. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Tómas Ingi Olrich, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.

    Á 5. mgr. 15. gr. laganna verða eftirfarandi breytingar:
     a.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skulu fréttir, sem fluttar eru í aðalfréttatíma sjónvarps, jafnan vera textaðar á íslensku og textinn gerður aðgengilegur þeim sem svo kjósa.
     b.      2. málsl. orðast svo: Þetta á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar, þegar dreift er viðstöðulaust um fjarskiptahnött eða móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem gerist í sömu andrá, eða þegar slíku efni er sjónvarpað í beinni útsendingu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Greinargerð.


    Í III. kafla útvarpslaga, sem fjallar sérstaklega um Ríkisútvarpið og skyldur sem á það eru lagðar umfram aðrar útvarpsstöðvar sem leiðir af þeirri staðreynd að það er rekið af íslenska ríkinu, er m.a. ákvæði um að efni á erlendu máli skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti eftir því sem framast verður við komið. Ríkisútvarpið hefur að mati flutningsmanna staðið sig vel hvað það varðar.
    Rík ástæða er til þess að a.m.k. sumu innlendu efni verði gerð sömu skil og er þá fyrst og fremst miðað við þarfir heyrnarlausra eða heyrnardaufra sem ekki geta notið talaðs máls. Mikilsverðast af þessu er án efa fréttir og fréttatengt efni sjónvarpsins. Slíkt efni er svo ná tengt daglegri tilveru að þeir sem ekki geta notið þess eru að verulegu leyti úr tengslum við mörg af viðfangsefnum líðandi stundar. Ríkisútvarpið, sjónvarp hefur m.a. komið til móts við þennan hóp áhorfenda með fréttayfirliti á táknmáli og er það virðingarvert. Hins vegar nær það fréttayfirlit engan veginn því umfangi sem reglulegir fréttatímar sjónvarpsins miðla, í öðru lagi er nokkur hópur heyrnarlausra og heyrnardaufra sem ekki getur nýtt sér táknmál ið, einkum eldra fólk, og í þriðja lagi geta heyrnarlausir og heyrnardaufir ekki notið þess að fylgjast með fréttaútsendingum sjónvarps á líðandi stundu á sama hátt og aðrir sjónvarps áhorfendur. Þá hefur Ríkisútvarpið, sjónvarp jafnframt gert fréttatexta í textavarpi aðgengi legan fyrir þá sem vilja fylgjast með fréttatexta í fréttatímum, en sá texti er, eins og tákn málsfréttirnar, yfirlitstexti en ekki texti samhliða þeim fréttaflutningi sem fram fer. Auk þess krefst notkun hans móttökutækja með innbyggðum búnaði til móttöku á textavarpi, en slíkur búnaður er aðeins í nýjum og tiltölulega dýrum sjónvarpstækjum.
    Stór hluti sjónvarpsfrétta, þ.e. allar fréttir sem lesnar eru af fréttaþulum, er lesinn texti sem saminn hefur verið fyrir fram af fréttamönnum og er ekki miklum vandkvæðum bundið að varpa honum á skjá jafnhliða. Öðru máli gegnir um fréttir sem fréttamaður flytur beint eða ræðir við viðmælanda. Slíkum fréttum og fréttaviðtölum má skipta í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða beina frásögn eða fréttaviðtöl sem tekin eru upp fyrir fram og eru í mörgum tilfellum klippt og löguð til fyrir útsendingu. Slíkar beinar frásagnir og fréttaviðtöl er auðvelt að texta þó að það kosti nokkra fyrirhöfn. Hins vegar eru svo frásagnir eða frétta viðtöl sem sjónvarpað er beint af vettvangi, innlendum eða erlendum, um fjarskiptahnött, frá sendistöð eða í beinni útsendingu úr stúdíói. Slíkt efni er næstum ógerlegt að texta og verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess eins og gert er í frumvarpinu.
    Full ástæða væri til að texta margvíslegt annað efni en fréttir og fréttatengt efni eða flytja jafnhliða á táknmáli. Dæmi um slíkt eru viðtalsþættir, innlendar sjónvarpsmyndir og leikin verk, náttúrulífsmyndir og landkynningarþættir, svo og margt annað innlent efni sem unnið er fyrir fram fyrir sjónvarpið. Í þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að fyrsta skrefið verði að textasetja allar fréttir, innlendar sem erlendar, sem fluttar eru í aðalfréttatíma sjónvarps og unnt er að textasetja. Er sú tillaga ekki síst gerð vegna þess hve þýðingarmikið það er fyr ir þá sem ekki geta notið talaðs máls að fylgjast sem best með atburðum líðandi stundar sem einatt varða umhverfi fólks og daglegt líf.
    Spyrja má hvort ástæða sé til þess að gera Ríkisútvarpinu, sjónvarpi skylt, einni starfandi sjónvarpsstöðva, að textasetja fréttir í aðalfréttatíma eins og tillaga er gerð um í frumvarp inu. Því er til að svara að flutningsmenn telja að sú lagaskylda eigi í framtíðinni einnig að ná til annarra sjónvarpsstöðva sem flytja fréttir og fréttatengt efni. Hins vegar er ekki óeðli legt að Ríkisútvarpið sem hefur sérstöku þjónustuhlutverki að gegna, sbr. ákvæði í útvarps lögum, ríði á vaðið í þessu efni. Í kjölfarið verði sett inn sams konar ákvæði um aðrar stöðv ar taki þær ekki upp sömu þjónustu að eigin frumkvæði.
    Þótt nokkur hluti sjónvarpsfrétta, þ.e. þær fréttir sem lesnar eru af fréttamanni eða frétta þul, séu nú þegar lesnar af textaskjá og tiltölulega auðvelt sé að varpa textanum á skjái jafn hliða lestri krefst textun annarra frétta sem hægt er að texta talsverðs undirbúnings og við bótartæknibúnaðar. Flutningsmenn treysta sér ekki til þess að meta þann viðbótarkostnað eða hve mikinn undirbúningstíma þarf til. Því er gerð sú tillaga að frumvarpið, ef samþykkt verður, öðlist ekki lagagildi fyrr en 1. janúar árið 1999 þannig að Ríkisútvarpinu gefist gott svigrúm til undirbúnings. Að lokum má benda á að líklega styttist í að sjónvarpið flytji með a.m.k. hluta af starfsemi sinni í Útvarpshúsið við Efstaleiti. Sá flutningur hefur í för með sér að endurbæta þarf mjög allan tækjakost bæði á fréttastofu og við útsendingar. Það er því rétt að gera nú þegar ráð fyrir að tekið verði sérstakt tillit til textunar á innlendu efni fyrir heyrn arlausa og heyrnarskerta. Við núverandi aðstæður, ekki síst á fréttastofu sjónvarpsins, er lík lega ekki unnt að koma við textun frétta eins og hér er lagt til. Búast má við að flutningur sjónvarpsins ætti að geta orðið fyrir árslok 1998 og við undirbúning og hönnun aðstöðu yrði nú þegar að gera ráð fyrir textunarmöguleikum eins og hér er lagt til.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að Ríkisútvarpinu verði skylt að auk þess að tal- eða textasetja efni á erlendu máli sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá þess skuli það textasetja allar fréttir og frétta tengt efni, innlent sem erlent, sem flutt er í aðalfréttatíma sjónvarpsins. Ekki er mælt fyrir um að sá texti skuli skilmálalaust birtast á sjónvarpsskjánum jafnhliða því sem fréttir eru fluttar, enda gæti slík textun truflað marga sem ekki þurfa á henni að halda. Hins vegar er gert ráð fyrir að slíkur texti verði aðgengilegur fyrir þá sem svo kjósa og er það þá á valdi forráðamanna Ríkisútvarpsins hvort þeir birta textann á sjónvarpsskjánum jafnóðum eða í textavarpi eins og nú er gert þar sem textavarpsmynd er hægt að setja til hliðar á sjónvarps skjá jafnframt því sem fréttum vindur fram eða til skiptis eftir því sem haganlegast er.
    Samkvæmt b-lið 1. gr. er bætt við þær undanþágur sem nú eru gerðar frá tal- eða texta setningu samkvæmt gildandi lögum að ekki þurfi að textasetja fréttir eða fréttatengt efni sem sent er beint úr stúdíói, um sendistöð eða um fjarskiptahnött.