Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 393 – 98. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Guðmundsson, Indriða Þor láksson og Hermann Jónasson frá fjármálaráðuneyti, Valborgu Kjartansdóttur og Jón Arn alds frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Jakob R. Möller frá Lögmanna félagi Íslands, Kristján Kristjánsson frá Ráðgarði hf., Sólveigu Ólafsdóttur frá Sambandi íslenskra auglýsingastofa og Jónas Friðrik Jónsson frá Verslunarráði Íslands.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Almennu málflutningsstofunni, Lögmannafélagi Íslands, Ráðgarði hf., Sambandi íslenskra auglýsingastofa, Sigurjónssyni og Thor ehf., Verslunarráði Íslands, Samtökum iðnaðarins, Arkitektafélagi Íslands og Útflutningsráði Íslands.     
    Í frumvarpinu er m.a. lögð til breyting á ákvæðum virðisaukaskattslaga um skattskyldu vegna sölu á þjónustu til erlendra aðila. Frá 1. júlí 1997 hafa gilt nýjar og strangari reglur um slíka sölu sem sætt hafa gagnrýni af hálfu hagsmunaaðila. Hér eru þær reglur endurskoð aðar. Þá er í frumvarpinu lagt til að reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts verði breytt þannig að heimildin sem nú tekur til endurgreiðslna til erlendra ferðamanna vegna kaupa á vörum hér á landi taki til allra aðila sem búsettir eru erlendis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
1.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á 1. gr. Samkvæmt breytingu sem lögð er til á 2. málsl. fyrri efnisliðar 1. gr. telst skattskyld þjónusta sem veitt er í tengslum við menningarstarf semi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi, sem fram fer hér á landi og er undanþegin skattskyldu skv. 3. mgr. 2. gr. laganna, ávallt nýtt hér. Með þessu er ákvarðaður skattlagningarstaður þjónustunnar og með reglunni á að vera skýrt að þjónusta telst ekki nýtt hér á landi ef umrædd starfsemi fer ekki fram hér. Þá er lagt er til að 4. málsl. fyrri efnisliðar verði felldur brott en hann felur það í sér að sé þjónusta ekki að öllu leyti nýtt erlendis er skilyrði fyrir undanþágu að fyrir liggi í bók haldi seljanda vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi kaupanda þar sem fram kemur hvers konar atvinnurekstur hann hafi með höndum og gildi vottorðið í tvö ár frá útgáfu degi. Þessi krafa um vottorð er að mati nefndarinnar of ströng og ekki sambærileg við það sem gerist í öðrum löndum. Nefndin telur efnisreglu 3. málsl. fyrri efnisliðar nægjanlega í þessu sambandi og ítrekar jafnframt að með því að fella brott ákvæðið um framlagningu vottorðs hverju sinni er ekki verið að skerða þær heimildir sem skattyfirvöld annars hafa til að kalla eftir gögnum og til eftirlits ef á þarf að halda. Þá er einnig lagt til að í stað þess að kveða á um rétt til mynsturs sem dæmi um þjónustu sem fellur undir a-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt verði notað orðið hönnun, enda er það í sam ræmi við heiti laga á þessu sviði, þ.e. lög um hönnunarvernd. Þá er og lagt til að fjar skiptaþjónusta falli undir upptalningu fyrri efnisliðar á þeirri þjónustu sem heyrir undir 10. tölul. og teljist þar með ekki til skattskyldrar veltu. Með því er verið að tryggja að fjarskiptafyrirtæki væri heimilt að fella niður virðisaukaskatt af reikningi til erlendra rekstraraðila vegna notkunar viðskiptavina þeirra á farsímakerfum fyrirtækisins. Nú er erlendum aðila sem staddur er hér á landi og notar erlendan farsíma (NMT) eða farsíma kort (GSM), sem gefið er út af erlendum rekstraraðila, gert að greiða samkvæmt gildandi gjaldskrá Pósts og síma hf. ásamt virðisaukaskatti. Erlendi rekstraraðilinn er ábyrgur gagnvart Pósti og síma hf. og er reikningur fyrir þjónustuna sendur til hans. Meiri hluti erlendra rekstraraðila GSM-farsímakerfa sem Póstur og sími hf. hefur viðskipti við fellir hins vegar niður virðisaukaskatt í viðkomandi landi þegar íslenskt farsímakort á í hlut. Loks er lögð til breyting á síðari efnislið 1. gr. í samræmi við breytingar sem fram koma í 3. gr. frumvarpsins. Í 3. gr. er gert ráð fyrir að rýmkuð verði heimild laganna til endur greiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á vörum hér á landi og hún nái til allra aðila sem búsettir eru erlendis en ekki einungis erlendra ferðamanna.
2.      Lagt er til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt. Með lögum nr. 55/1997, sem breyttu lögum um virðisaukaskatt og tóku gildi 1. júlí sl., voru eins og að framan er greint settar nýjar og strangari reglur um sölu á þjónustu til erlendra aðila. Nýju reglurnar fólu í sér afdráttarlausari ákvæði um skattskyldu og ákvörðun hennar en áður höfðu gilt. Þar sem reglur þessar er nú endurskoðaðar og ljóst að það mundi valda ruglingi bæði fyrir innlenda og erlenda aðila ef núgildandi reglur yrðu látnar gilda í örfáa mánuði er lagt til að ákvæði fyrri efnisliðar 1. gr. frumvarpsins um sölu á þjónustu til erlendra aðila verði afturvirkt og gildi frá og með 1. júlí 1997.

Alþingi, 2. des. 1997.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.



Pétur H. Blöndal.




Sólveig Pétursdóttir.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Valgerður Sverrisdóttir.



Einar Oddur Kristjánsson.



Jón Baldvin Hannibalsson.



Steingrímur J. Sigfússon.