Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 763 – 437. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum.

Flm.: Guðrún Helgadóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Guðný Guðbjörnsdóttir, Ögmundur Jónasson.



1. gr.

    Við 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. laganna bætist: þó ekki greiðslur vegna látins maka eða barna lífeyrir vegna látins foreldris.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þegar ný lög um atvinnuleysistryggingar voru sett á síðasta ári varð 4. mgr. 7. gr. laganna nr. 12/1997 svohljóðandi:
    „Elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins, skal koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Sama gildir um greiðslur úr almennum og frjálsum lífeyrissjóðum. Nú fær hinn atvinnulausi ekki fullar atvinnuleysisbætur og skal þá eingöngu skerða bæturnar hlutfallslega.“
    Skáletraða ákvæðið hafði ekki verið í lögum um atvinnuleysistryggingar sem áður giltu. Þess vegna höfðu greiðslur úr lífeyrissjóðum ekki haft áhrif á atvinnuleysisbætur.
    Í framkvæmd er það nú þannig að eigi umsækjandi um atvinnuleysisbætur rétt á bótunum en sé jafnframt ellilífeyris-, örorkulífeyris- eða örorkustyrksþegi hjá Tryggingastofnun ríkis ins skerða þær bætur greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Eigi umsækjandi rétt á hluta atvinnuleysisbóta (t.d. vegna niðurfallinnar hálfs dags vinnu eða af öðrum ástæðum) skerða bætur almannatrygginga atvinnuleysisbætur í sama hlutfalli og rétturinn til þeirra er.
    Þegar lögleitt var að hið sama gilti um greiðslur úr lífeyrissjóðum, en lögin tóku gildi 1. júlí 1997, brá mörgum í brún. Engar undanþágur voru frá greiðslum úr lífeyrissjóðunum þannig að greiðslur vegna látins maka og barnalífeyrir skertu einnig atvinnuleysisbætur. Get ur hver sagt sér sjálfur hver áhrif þetta ákvæði hefur haft á fjárhag ekkna (og ekkla) sem misst hafa atvinnu sína og hafa fyrir börnum að sjá. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs mun hafa tekið þá ákvörðun þegar þetta varð ljóst að barnalífeyrir úr lífeyrissjóðum skuli ekki skerða atvinnuleysisbætur, en til þess að það eigi stoð í lögunum er það sett hér í lagatexta.
    Hitt er óbætt. Bætur vegna látins maka skerða atvinnuleysisbætur hins sem eftir lifir, en tekjur lifandi maka hafa engin áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta.
    Flutningsmenn telja þetta ekki rétt og nauðsyn bera til að það sé leiðrétt og því er frum varpið flutt.