Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 942 – 553. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
a.     Á eftir orðunum „eða teljast hafa af tekjur“ í 5. tölul. kemur: þar með talinn söluhagnað.
b.     Á eftir orðinu „sérþekkingu“ í 6. tölul. kemur: svo og af söluhagnaði vegna slíkra eigna.
c.     Á eftir orðinu „tekjur“ í 7. tölul. kemur: þar með talinn söluhagnað.


2. gr.

    2. mgr. 3. tölul. 2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 3. mgr. 17. gr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Hlutafélög og önnur félög og samlög sem falla undir 1., 2. og 4. tölul. 2. gr. geta farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa í öðrum hlutafélögum eða einkahluta félögum um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist. Þegar skattskyldur söluhagnaður er ekki tekju færður á söluári samkvæmt heimild í þessari málsgrein skal hann hækkaður eða lækkaður samkvæmt verðbreytingastuðli eftir ákvæðum 26. gr. fram til þess árs þegar hann er tekju færður.

4. gr.

    8. tölul. 31. gr. laganna orðast svo:
    Þá fjárhæð, sem hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og félög og samlög sem falla undir 2. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. hafa fengið greidda í arð skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. af hlutum og hlutabréfum í félögum er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. Ákvæði þetta skal einnig taka til arðs frá hlutafélögum, sem skráð eru erlendis, ef það félag, sem arðinn fær, sýnir fram á að hagn aður hins erlenda félags hefur verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.

5. gr.

    Við 52. gr. bætist nýr tölul.sem orðast svo: Kostnað vegna greiðslna, gjafa eða annars, sem ólögmætt er samkvæmt 109. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, til manna sem ráðnir eru eða kjörnir til opinberra starfa á sviði löggjafarvalds, dómsvalds eða stjórnsýslu, hvort heldur er á Íslandi eða í öðrum ríkjum eða hjá alþjóðasamtökum og stofnunum sem þjóðríki, ríkisstjórnir eða alþjóðastofnanir eru aðilar að.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
a.     Í stað hlutfallstölunnar „33%“ í 1. mgr. kemur: 30%.
b.     Í stað hlutfallstölunnar „41%“ í 2. mgr. kemur: 38%.
c.     Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:
          Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skal tekjuskattur þeirra lögaðila er greinir í 3. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. af fengnum arði skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. vera 10% af þessum tekjum.
d.     Í stað orðanna „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 4. mgr.

7. gr.

    Orðið „innlendum“ í 1. mgr. 78. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað og koma til framkvæmda við álagingu á árinu 1999 vegna tekna á árinu 1998 og eigna í lok þess.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

     Inngangur.

    Í frumvarpi þessu er að finna nokkrar mikilvægar breytingar á þeim reglum sem gilda um skattlagningu atvinnurekstrar o.fl. Auk þessara breytinga er gert ráð fyrir að fram komi á þessu þingi skattafrumvörp sem fjalla um málsmeðferð í skattkerfinu og samskipti skattkerfis ins og skattborgaranna. Þau mál hafa verið til sérstakrar athugunar í ráðuneytinu um nokkurt skeið. Frumvörp þau sem um ræðir eru annars vegar um bindandi álit ríkisskattstjóra og hins vegar frumvarp sem gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á þeim reglum sem gilda um yfir skattanefnd.
    Auk þeirra frumvarpa sem að framan getur eru önnur mál enn í vinnslu í fjármálaráðu neytinu með það fyrir augum að verða lögð fram síðar á þessu þingi eða á því næsta. Má þar t.d. nefna viðurlagaákvæði skattalaga og réttaráhrif úrskurða í skattkerfinu og frekari breyt ingar á skattlagningarreglum, m.a. með tilliti til ýmissa tillagna sem kynntar hafa verið að undanförnu af hagsmunaaðilum, svo sem samsköttun móður- og dótturfyrirtækja og skattaleg atriði varðandi starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis.
    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að gerðar verði umtalsverðar breytingar á skattlagningu á arðgreiðslum milli fyrirtækja og lækkun á skatthlutfalli þeirra, í öðru lagi að bætt verði inn í lögin ákvæði er banni fyrirtækjum með beinum hætti að gjaldfæra í rekstri sínum mútur eða sambærilegar greiðslur til opinberra aðila og í þriðja lagi að lagfærð verði ákvæði er snúa að framkvæmd og túlkun laganna.

Skattlagning hagnaðar og arðs.

    Efnahagsleg tvísköttun.

    Megintilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til á skattlagningu lögaðila með tilliti til arðs, er að koma hér á betra og markvissara fyrirkomulagi en nú er með það fyrir augum að koma í veg fyrir að hagnaður af atvinnurekstri verði skattlagður meira en aðrar tekjur vegna tvísköttunar, þ.e. skattlagningar hjá því fyrirtæki þar sem hagnaðurinn myndast og síðan aftur hjá eiganda hlutafjárins. Skattlagning hlutafélaga hefur verið með þeim hætti að heimilt er að draga frá skattskyldum tekjum útborgaðan arð að tilteknu hámarki, sem upphaflega var 15% en hefur nú verið lækkað í 7% af nafnverði hlutafjár, þar með talin útgefin jöfnunarhlutabréf. Skatthlutfall hlutafélaga síðustu árin var eins og nú er 33% af skattskyldum tekjum að frá dregnum útborguðum frádráttarbærum arði.
    Skattlagning arðs hjá hluthöfum hér á landi hefur verið með ýmsum hætti. Ef hluthafinn er innlendur lögaðili er arðurinn skattlagður með öðrum skattskyldum tekjum hans, þ.e. hann ber 33% skatt. Ef hluthafi er einstaklingur var arðurinn skattlagður með öðrum skattskyldum tekjum, þó var heimill frádráttur að hámarki 10% af nafnverði hlutafjár allt að tilteknu hámarki sem síðast var rúmlega 130 þús. kr. á hvern einstakling. Með breyttri skattlagningu fjármagnstekna einstaklinga, sem gildir frá og með árinu 1997, var þessu breytt á þann veg að á arð af hlutabréfum er nú lagður 10% skattur.
    Á arð, sem greiddur var til hluthafa sem búsettur var erlendis, var lagður 20% afdráttar skattur. Vegna ákvæða laga um skatt á fjármagnstekjur lækkaði þetta hlutfall í 10% hjá ein staklingum. Með tvísköttunarsamningum við einstök ríki er samið um að skattur þessi sé lækk aður í 0–15%, sem jafnframt kemur til frádráttar þeim skatti sem lagður er á þessar tekjur í búsetulandi hluthafans. Vegna arðsfrádráttarreglunnar hér á landi hefur Ísland í samningum sínum við önnur ríki áskilið sér rétt til að leggja 15% afdráttarskatt á þann arð, sem ekki hefur verið skattlagður hjá hlutafélaginu hérlendis.
    Til aðgreiningar frá þeirri tvísköttun, sem leiða kann af því að eigandi tekna er búsettur og skattskyldur í öðru landi en þar sem þær myndast, er talað um efnahagslega tvísköttun þegar tekjur eða eignir verða tvisvar andlag skattlagningar innan sömu skattalögsögu eins og t.d. þegar um er að ræða annars vegar hagnað hlutafélags og hins vegar arð hluthafa, sem greiddur er af þeim hagnaði. Það hefur lengi verið viðfangsefni í mörgum ríkjum að draga úr eða afnema efnahagslega tvísköttun. Reynt hefur verið að leysa það með mismunandi hætti og mis jöfnum árangri. Skoðanir fræðimanna og stjórnmálamanna um hversu langt skuli gengið í þessu efni og hvernig það verði best gert eru og mismunandi.
    Í þeim ríkjum sem ekki hafa gert neinar sérstakar ráðstafanir til að draga úr efnahagslegri tvísköttun er lagður fullur skattur á hagnað hlutafélagsins og einnig fullur skattur á arð í hendi hluthafa. Fyrirkomulag þetta var algengt á árum áður og er nú yfirleitt kallað sígilda skatt kerfið, þótt það hafi verið á undanhaldi og sé nú fremur undantekning en regla. Þær aðferðir sem notaðar eru til að létta eða afnema efnahagslega tvísköttun má annars vegar greina í tvennt eftir því hvort ívilnun er veitt hlutafélagi eða hluthafa. Hins vegar má greina þær í þrennt eftir megineinkennum þeirra. Í fyrsta lagi eru svokallaðar ígildisaðferðir. Í þeim felst að hluthafa eru reiknaðar tekjur eins og hann hefði fengið greiddan arðinn að viðbættum þeim skatti sem hlutafélagið greiddi af honum og honum reiknaður skattur af þeim tekjum. Frá þeim skatti má síðan draga þann skatt sem hlutafélagið hafði greitt og áður var reiknaður hlut hafanum til tekna. Með þessu móti næst það fram að hagnaðurinn ber sama skatt og hluthafinn greiðir af öðrum tekjum en skattgreiðslunni er skipt á milli hlutafélagsins og hluthafans.
    Í öðru lagi eru aðferðir sem byggja á því að heimila að draga greiddan arð frá skattskyldum tekjum. Yfirleitt er frádrátturinn heimilaður hjá hluthafanum en það þekktist einnig að svo væri gert hjá hlutafélaginu. Síðarnefnda fyrirkomulagið hefur nú verið lagt af í öllum löndum OECD nema hér á landi.
    Í þriðja lagi er að nefna lönd, sem ekki beita framangreindum aðferðum, en veita ívilnanir í formi frádráttar á hluta móttekins arðs frá skattskyldum tekjum eða nota lægra skatthlutfall á arð en aðrar tekjur í þeim tilgangi að vega upp áhrif tvísköttunar. Er þá gjarnan miðað við að samanlögð skattlagning á hagnað hlutafélags og arð hluthafa verði ekki hærri en skattur á aðrar tekjur hluthafans.
    Samkvæmt skýrslu OECD, „Taxation and household saving“, frá 1994 höfðu flest aðildar ríkjanna sem þá voru, þ.e. öll nema fimm af 25, tekið upp eitthvert kerfi til að létta eða aflétta efnahagslegri tvísköttun. Þau fimm sem ekki höfðu gert það, Bandaríkin, Benelux-löndin og Sviss, bjuggu þá enn við klassíska kerfið með fullri tvísköttun. Fimmtán ríki léttu tvísköttun af hluthafa megin, þar af sjö með fullri ígildisaðferð og hin með frádrætti hjá hluthöfum eða ígildisaðferð að hluta til. Tvö lönd veittu ívilnun beggja vegna, Ísland með arðsfrádrætti hjá hlutafélaginu og hjá hluthafa og Þýskaland með mismunandi skatthlutföllum eftir því hvort arði var útdeilt eða ekki og með ígildisreglum hjá hluthöfum. Einungis þrjú ríki veittu ívilnun eingöngu hjá hlutafélaginu. Þau hafa nú öll breytt reglum sínum. Svíþjóð breytti yfir í klassískt kerfi, þ.e. tvísköttun, en vinnur á móti áhrifum hennar með lægra skatthlutfalli á arð en launatekjur. Spánn fór yfir í ígildiskerfi og Grikkland afnam arðsfrádrátt hjá hlutafélagi en heimilar hann hjá hluthafa. Ísland er því eina ríkið í OECD sem enn veitir ívilnun hjá hluta félagi með því að heimila að arður sé dreginn frá skattskyldum tekjum.
    Sé litið til Norðurlandanna sérstaklega voru Finnland, Noregur og Svíþjóð áður fyrr með kerfi, sem heimilaði frádrátt hjá hlutafélagi vegna arðsúthlutunar svipað því sem Ísland hefur enn. Nú hafa tvö fyrstnefndu löndin farið yfir í ígildiskerfi og Svíþjóð í sígilt kerfi með íviln andi skatthlutfalli. Danmörk hefur hins vegar farið úr skattígildiskerfi yfir í sígilt kerfi með ívilnandi reglum.
    Margvísleg rök hafa verið færð fyrir þeirri meginreglu sem fram kemur hjá ríkjum OECD að veita ívilnun hluthafa megin en ekki hjá hlutafélaginu. Meðal þeirra má nefna að ívilnanir hlutafélags megin tengjast útborguðum arði og eru taldar hvetja hlutafélög til að borga út arð fremur en að byggja upp eigið fé. Enn fremur er það talin öruggari skattheimta að taka skattinn af í fyrsta lið en þeim síðasta og eins er talið að lágt skatthlutfall af arði í hendi hluthafa kunni að verka sem hvatning til fjárfestingar í hlutabréfum. Þá skiptir frelsi í fjárfestingum milli landa og fjölþjóðasamstarf í skattamálum miklu í þessu efni. Tvísköttunarsamningar OECD-landanna miðast við að full skattlagning hagnaðar hafi farið fram í hlutafélaginu. Þau ríki sem ekki skattleggja hlutafélög í eigu erlendra aðila framselja í reynd skattlagningarvald til þess ríkis þar sem hluthafinn hefur búsetu. Oftar en ekki nýtur ríkissjóður viðkomandi lands þeirrar ívilnunar sem veitt er en ekki hluthafinn. Gegn þessum áhrifum hafa íslensk stjórnvöld reynt að vinna í tvísköttunarsamningum sínum með sérákvæði sem veitir okkur rétt til að taka hærri afdráttarskatt af úthlutuðum hagnaði, sem ekki hefur verið skattlagður hjá hlutafélaginu. Sífellt reynist erfiðara að fá slíkt samþykkt.
    Rétt er að vekja athygli á því að á síðastnefnda atriðið reynir mjög í sambandi við þá samninga sem í gildi eru vegna stóriðju í eigu erlendra aðila hér á landi. Í samningum um stækkun álvers Ísals og um álver Norðuráls var samið um að arðsfrádráttarheimildin yrði ekki notuð. Var svo gert í þeim tilgangi að vernda skattalega hagsmuni íslenska ríkisins. Í báðum samningunum eru hins vegar ákvæði þess efnis að félögin geta innan fárra ára valið að starf semi þeirra falli að fullu undir íslensk skattalög. Geri þau það, sem allar líkur benda til, mun það að óbreyttum lögum hvað varðar frádrátt á úthlutuðum arði leiða til tekjutaps hjá ríkis sjóði, sem numið getur hundruðum milljóna króna á ári. Á hið sama einnig við um aðra starf semi annarra hlutafélaga sem eru í eigu erlendra aðila.
    Íslenska skattkerfið var, eins og að framan greinir, blandað kerfi með ívilnun að hluta til hjá hluthöfunum og að hluta til hjá hlutafélögunum. Með fjármagnstekjuskattinum var þeim hluta sem að hluthöfum snýr breytt þannig að í stað frádráttar að hluta og fullrar skattlagn ingar að hluta var tekin upp skattlagning með lágu hlutfalli. Hlutafélaga megin var gerð sú breyting að frádráttarheimildin var lækkuð úr 10% af nafnverði hlutafjár í 7% af nafnverði. Að því leyti stendur enn í grundvallaratriðum það kerfi að veitt er ívilnun hlutafélags megin með þeim annmörkum sem að framan greinir og flestöll ríki hafa horfið frá á undanförnum árum.

    Skattur á arðgreiðslur milli félaga.

    Hér að framan var fjallað um samhengi og áhrif af skattlagningu hlutafélags og hluthafa, sem skattlagður er samkvæmt þeim reglum sem gilda um skattlagningu einstaklinga. Afnám eða mildun tvísköttunar vegna arðgreiðslna þar á milli leysir þó ekki að fullu úr tvísköttun hagnaðar. Æ algengara er að hlutafélög eigi hlutabréf hvert í öðru og að arður sé greiddur úr einu hlutafélagi í annað. Eins og nú er háttað er tvísköttun eða margsköttun möguleg þegar arður er greiddur á milli hlutafélaga ef arðurinn er hærri en 7% af nafnverði hlutafjár. Getur þetta takmarkað fjármagnsflutninga á milli fyrirtækja og komið í veg fyrir hagræðingu og hagkvæma fjárfestingu.
    Í flestum löndum OECD hefur verið gripið til ráðstafana í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða að draga úr tvísköttun hagnaðar við greiðslu á arði á milli hlutafélaga. Í nær öllum til vikum er það gert með því að móttekinn arður er frádráttarbær frá skattskyldum tekjum að einhverju eða öllu leyti. Í mörgum tilvikum eru nokkrar takmarkanir á frádrættinum, einkum þannig að til þess að nýta heimildina er gerð krafa um að eignarhluti í hlutafélaginu, sem arðinn greiðir, sé að lágmarki 25%, en einnig eru dæmi þess að einungis tiltekinn hluti af arðinum sé frádráttarbær.
    Í flestum ríkjum OECD gilda þær reglur um arðgreiðslur frá erlendu hlutafélagi, sem inn lent félag á hlut í, að sá arður er frádráttarbær frá skattskyldum tekjum eða að greiddur af dráttarskattur er dreginn frá innlendum skatti. Í hvorugu tilvikinu er þó um það að ræða að með þessum hætti sé bættur sá skattur sem greiddur kann að hafa verið af hlutafélaginu sem slíku, reglan nær einungis til þess afdráttarskatts sem kann að hafa verið lagður á arðgreiðslu úr landi. Enn fremur eru þessar reglur oft skilyrtar með því að skattlagning hlutafélagsins hafi verið áþekk því sem er í heimalandi hluthafans. Með tvísköttunarsamningum er yfirleitt samið um að lækka afdráttarskatta á arð í 0 til 15% eftir eignaraðild.
    Frumvarpið þjónar m.a. þeim tilgangi að greiða því leið að unnt verði að flytja arð af starfsemi hlutafélaga í eigu íslenskra aðila inn í landið án þess að til tvísköttunar komi. Ekki er með íslenskum lögum unnt að aflétta þeim skatti sem lagður er erlendis á félög í íslenskri eigu, hvorki félagaskattinum né afdráttarskatti á þann arð sem greiddur er úr landi. Með þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér verður samningstaða Íslands hins vegar betri að því er það varðar að krefjast niðurfellingar eða lækkunar á afdráttarskattinum. Með því að fá hann felldan niður sitja innlend fyrirtæki skattalega við sama borð og erlend að því er varðar arð af hlutum í innlendum og erlendum félögum.

    Skattlagning söluhagnaðar í hendi hlutafélaga.

    Með frumvarpi þessu er ekki lögð til breyting á skattlagningu söluhagnaðar lögaðila af hlutabréfum. Um skattlagningu söluhagnaðar gegnir að ýmsu leyti öðru máli en um skatt lagningu arðs. Rökin fyrir því að gera arð frádráttarbæran hjá hluthafa eru þau að arðurinn sé greiddur af hagnaði ársins eða uppsöfnuðum hagnaði frá fyrri árum. Samkvæmt hlutafél agalögum er ekki heimilt að greiða út arð nema hagnaður hafi orðið af starfseminni á tekju árinu eða uppsafnaður hagnaður sé til staðar.
    Hagnaður af sölu hlutabréfa er annars eðlis. Að hluta til kann að vera um að ræða hagnað, sem ekki hefur verið greiddur út og safnast hefur upp, en oft er að stórum hluta um að ræða verðaukningu á hlutum umfram beina hækkun á eigin fé félagsins. Hækkunin stafar þá af öðru, svo sem mati á væntanlegum tekjum, réttindum, aðstöðu eða völdum. Til grundvallar söluhagnaðinum liggur þannig ekki rekstrarhagnaður sem þegar hefur verið skattlagður eins og um er að ræða þegar arður á í hlut. M.a. af þessum ástæðum hafa þau lönd, sem heimila að móttekinn arður sé dreginn frá skattskyldum tekjum, ekki látið þá reglu ná til söluhagnaðar. Þannig er söluhagnaður hlutabréfa í OECD-löndunum yfirleitt skattlagður með skatthlutfalli hlutafélagsins, sem í reynd er þyngri skattlagning en á aðrar tekjur þegar ekki er tekið tillit til verðbólgu við útreikning á söluhagnaði eins og gert er hér á landi.
    Í sumum löndum OECD er þó að finna einhverjar ráðstafanir til að lækka skattlagningu á söluhagnað frá því sem að framan greinir. Þannig tóku fjögur lönd, þar á meðal Ísland, tillit til verðbólgu við útreikning á söluhagnaði. Nokkur lönd beittu lægra skatthlutfalli á sölu hagnað, yfirleitt um 2/3 af fullu skatthlutfalli, ef eignarhaldið hafði varað tiltekinn lág markstíma. Þá þekkjast reglur um skattfrestun ef söluhagnaður er endurfjárfestur í hliðstæðum eignum innan tiltekinna tímamarka.
    Ekkert af löndum OECD skattleggur söluhagnað með sama hætti og arð. Sérstöðu í því efni hefur Noregur, sem hefur um nokkurt skeið beitt svokallaðri RISK-aðferð ( Regulering av aksjens Inngangsverdi med endring i selskapets Skattlagte Kapital) við skattlagningu á söluhagnaði af hlutabréfum. Stofnverð hlutabréfanna er þá leiðrétt með tilliti til breytinga á skattlögðu eigin fé hlutafélagsins. Við sölu á hlutabréfum dregst þannig leiðrétt stofnverð frá söluverðinu og mismunurinn telst skattskyldur söluhagnaður. Gallinn við þessa aðferð er hversu flókin hún er í framkvæmd. Á vegum norska fjármálaráðuneytisins er nú unnið að endurskoðun á þessari aðferð á grundvelli fenginnar reynslu í þeim tilgangi að gera hana auðveldari í notkun.
    Af framangreindum ástæðum er í frumvarpi þessu lagt til að hlutafélögum verði heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum ef þeir kaupa önnur slík innan tveggja ára frá sölunni. Með því er í senn komið í veg fyrir að fjármagn sé bundið í tilteknum hlutabréfum af skattalegum ástæðum, þ.e. til að forðast skattlagningu, og jafnframt hvatt til áframhaldandi hlutabréfaeignar. Að þessu sinni ekki lagt til að gerðar verði aðrar breytingar á skattlagningu söluhagnaðar hjá lögaðilum en fylgst verður með þróun í þeim málum með tilliti til breytinga síðar.

Breytingar á sköttum skv. frumvarpinu.

    Breyting á skattareglum.

    Í þeim tilgangi að samhæfa skattlagningu hagnaðar af rekstri hjá hlutafélagi og arðs í hendi hluthafa og til að koma í veg fyrir margsköttun við arðgreiðslur á milli hlutafélaga er í frumvarpinu gert ráð fyrir tiltölulega einföldu kerfi. Í grundvallaratriðum byggist það á því að hagnaður hlutafélags verði skattlagður í því hlutafélagi sem hann myndast upphaflega og síðan með 10% fjármagnsskatti þegar hann er greiddur út sem arður til hluthafa, sem er einstaklingur, sameignarfélag eða starfar í öðru félagsformi þar sem úttekt úr félaginu er skattfrjáls. Eftir upphaflegu skattlagninguna hjá hlutafélaginu getur arður gengið á milli hlutafélaga án þess að mynda skattstofn. Sama regla er látin gilda um arð sem kemur frá útlöndum, þó með því skilyrði að sá hagnaður sem að baki arðsúthlutunni stendur hafi fengið svipaða skattlagningu og hagnaður hlutafélaga hér á landi.
    Tilgangurinn með þessum breytingum er ekki að breyta skatttekjum ríkisins. Af þeim ástæðum er lagt til að samfara þessum breytingum verði skatthlutföll lækkuð nokkuð til þess að tryggja að með breytingunum verði skattbyrði atvinnurekstrar ekki aukin og til að skapa eðlilegt samræmi í skattlagningu einstaklinga og hagnaðar þeirra af mismunandi rekstrar formum.

    Áhrif á skattgreiðslur og tekjur ríkisjóðs.

    Tekjuskattur sem lagður var á lögaðila á árinu 1997 var um 5,3 milljarðar króna. Þar af er áætlað að á hlutafélög hafi verið lagðir um 4,7 milljarðar en um 600 m.kr. á sameignarfélög. Gerð var athugun á áhrifum þeirra breytinga, sem frumvarpið felur í sér, á úrtak um 100 hlutafélaga en í úrtakinu voru flest skattahæstu hlutafélög landsins. Af þeim sem í úrtakinu lentu greiddu 56 félög tekjuskatt, samtals um 1,1 milljarð króna, en það er um 25% af öllum tekjuskatti hlutafélaga. Má því ætla að úrtakið lýsi vel áhrifum væntanlegra breytinga.
    Skattskyldar tekjur þessara 56 hlutafélaga voru 3.942 m.kr. Með núverandi skattareglum yrðu helstu stærðir sem skipta máli við skattlagningu þessar:
    Skattskyldar tekjur          3.942 m.kr.
    Greiddur arður til frádráttar          481 m.kr.
    Skattstofn          3.461 m.kr.
    Tekjuskattur 33%          1.142 m.kr.
    Skatthlutfall miðað við skattskyldar tekjur fyrir frádrátt úthlutaðs arðs hefði því orðið 29,0% í stað álagningarhlutfallsins 33%. Áhrif arðsfrádráttarreglunnar eru þannig ígildi 4% í skattstiganum. Áhrif arðsfrádráttarreglunnar á einstök fyrirtæki er nokkuð mismunandi en oftast ekki mikil. Þannig var raunverulegt skatthlutfall hjá 44 af þessum 56 hlutafélögum 27% eða hærra. Ástæðan fyrir hinum tiltölulega litlu áhrifum er fyrst og fremst sú að mikill munur er á nafnverði hlutafjár og eigin fé fyrirtækjanna. Útborgaður arður, sem hjá framangreindum fyrirtækjum var yfirleitt 7% af nafnverði hlutafjár eða meira, var að jafnaði einungis 1,7% af eigin fé þeirra. Frádráttarbær arður sem hlutfall af eigin fé var á bilinu 0 til 8,5% en var í langflestum tilvikum innan við 2,5%.
    Með þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir yrði skattlagning þannig:
     Skattskyldar tekjur          3.942 m.kr.
    Móttekinn arður til frádráttar          254 m.kr.
    Skattstofn          3.688 m.kr.
    Tekjuskattur 30%          1.106 m.kr.
    Upplýsingar um móttekinn arð voru ekki fullkomnar og er hann eingöngu talinn þar sem upplýsingar voru fyrir hendi. Er hann því væntanlega vanáætlaður og áætlaður skattur því eitthvað hærri en rétt er. Miðað við þessar tölur mundu skattgreiðslur þessara hlutafélaga lækka um u.þ.b. 35 m.kr. sem er um 3% lækkun. Meðalskatthlutfallið yrði um 28,1% miðað við skattskyldar tekjur. Er það til samanburðar við 29% í núgildandi kerfi eins og að framan greinir.
    Séu þessar tölur yfirfærðar á öll hlutafélög má gera ráð fyrir að áhrifin yrðu þau að tekju skattur hlutafélaga lækkaði um nálægt 150 m.kr. Við það bætist að samkvæmt frumvarpinu mun tekjuskattur sameignarfélaga lækka úr 41% í 38%. Tekjuskattslækkun af þeim ástæðum er áætluð um 45 m.kr. þannig að í heild má gera ráð fyrir lækkun á tekjusköttum fyrirtækja sem nemur tæplega 200 m.kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Breytingin er til fyllingar og skýringar þeim reglum sem gilda um takmarkaða skattskyldu. Ótvíræðar reglur þurfa að gilda um skattskyldu söluhagnaðar hjá skattaðilum sem búsettir eru erlendis eins og hjá innlendum skattaðilum.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að felld verði niður sú regla að reikna beri álagsstuðul á vexti af verðbréfum þegar þau eru ekki með árlegri greiðslu. Útreikningum þessum var ætlað að jafna skattlagningu ávöxtunarforma sem bundin eru til lengri tíma og þeirra þar sem vextir eru greiddir árlega . Komið hefur í ljós að ýmsum vandkvæðum er bundið að ákvarða slíkan stuðul og að mjög flókið yrði að framkvæma þessa jöfnun. Þar sem hér er ekki um að ræða verulegar fjárhæðir né stórfelldan mismun á skattlagningu er lagt til að lögð verði niður skylda til útreiknings og útgáfu þessa sérstaka stuðuls.     

Um 3. gr.

    Í grein þessari felst að hlutafélögum og öðrum félögum með takmarkaða ábyrgð verður heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum með því að kaupa önnur innan tveggja ára frá því að hin fyrri voru seld. Skattgreiðslan frestast þannig þar til að hlutabréf eru seld án þess að önnur séu keypt í staðinn. Frestur til þess að kaupa ný bréf í stað hinna seldu er allt að tvö ár. Séu ný bréf ekki keypt er söluhagnaðurinn skattskyldur með áorðnum verðbreytingum.

Um 4. gr.

    Greinin fjallar um arð af hlutum og hlutabréfum í hlutafélögum. Ber að líta á greinina í samhengi við tillögur um lækkun skatthlutfalla í 6. gr. frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess ákvæðis laganna sem heimilar að hlutafélög dragi útborgaðan arð frá skattskyldum tekjum sínum komi ákvæði þess efnis að lögaðilum, öðrum en sameignarfélögum, sjóðum, sjálfseignarstofnunum o.þ.h., dánarbúum og þrotabúum, verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum móttekinn arð sem þau fá úthlutað frá hlutafélögum og einkahlutafélögum. Greinin kveður einnig á um að hið sama skuli gilda um arð sem móttekinn er frá útlöndum að uppfylltu því skilyrði að þar hafi hagnaður hlutafél agsins, sem verið er að úthluta, verið skattlagður með svipuðum hætti og gert er hér á landi. Tilgangurinn með því skilyrði er að koma í veg fyrir að þeir innlendir aðilar sem valið hafa að setja sig niður í erlendum skattavinjum búi við betri skattaskilyrði en aðrir. Rökin fyrir þessum tillögum eru ítarlega rædd í almennum athugasemdum hér að framan.
    Ástæðan fyrir því að heimild til frádráttar á mótteknum arði er takmörkuð við framan greind félagsform en nær t.d ekki til sameignarfélaga er sú að með innborgun arðs til þeirra er skattlagningu hans að fullu lokið þar sem úttekt úr sameignarfélagi er skattfrjáls en arð greiðsla úr hlutafélagi til einstaklinga ber fjármagnstekjuskatt. Með þessum reglum næst því sama skattlagning á arð óháð því hvort hann hefur gengið í gegn um fleiri eða færri lögaðila og óháð því hvers eðlis þeir eru.

Um 5. gr.

    Tilgangurinn með þessari grein er að uppfylla af Íslands hálfu tilmæli OECD frá 11. apríl 1996, þar sem aðildarríki OECD voru hvött til að haga skattalöggjöf sinni þannig að komið sé í veg fyrir að líta megi á mútugreiðslur sem eðlilegan rekstrarkostnað. Mútur eru ekki skilgreindar í þessum lögum en um þær er fjallað víða í lögum, m.a. í almennum hegningar lögum, og er vísað til þeirra laga hvað verknaðarlýsingu varðar. Mútur felast í því að manni eru boðnar eða færðar óhæfilegar gjafir, fjármunir eða annað, sem ætlað er honum eða þriðja aðila til þess að fá hann til að vinna eða láta ógert að vinna einhver þau verk sem tengjast opinberum skyldum hans með það í huga að ná eða að halda einhverjum ávinningi.
    Ýmis alþjóðasamtök og stofnanir, svo sem OECD, Evrópuráðið, Evrópubandalagið og Sameinuðu þjóðirnar, hafa á undanförnum árum hvatt ríki heims til að berjast gegn hvers konar spillingu, m.a. mútugreiðslum. Allur almenningur og stjórnkerfi ríkjanna eiga mikið undir því að réttra aðferða sé gætt í opinberri stjórnsýslu og að heiðarleiki ríki í opinberu lífi. Hægt þarf að vera að treysta opinberum starfsmönnum til að fjalla málefnalega og án annar legra sjónarmiða um hvert mál. Samkvæmt íslensku hegningarlögunum er refsivert að múta opinberum embættismönnum, sbr. 109. grein þeirra laga, og eins er það refsiverður verknaður af hálfu embættismanna ef þeir krefjast, taka við eða láta lofa sér ávinningi sem þeir eiga ekki tilkall til í sambandi við framkvæmd starfa síns.
    Þær alþjóðastofnanir sem barist hafa gegn spillingu í hinum opinbera geira hafa lagt á það áherslu að ríki heims víkki út gildandi reglur sem taka á þessu í hverju landi um sig þannig að þær nái einnig til sambærilegs verknaðar sem framin er í öðrum löndum. Liður í þessu er að koma í veg fyrir að innlend fyrirtæki fái frádrátt í skattalegu uppgjöri vegna mútugreiðslna til embættismanna í öðrum löndum.
    Þess skal og getið í þessu sambandi að á vettvangi OECD var gerður alþjóðasamningur gegn mútugreiðslum til opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Samningur þessi var undirritaður af hálfu Íslands 17. desember 1997.

Um 6. gr.

    Greinin varðar lækkun skatthlutfalla lögaðila. Í fyrsta lagi er lagt til að almennt skatthlut fall lögaðila annarra en sameignarfélaga, stofnana, sjóða o.þ.h. lækki úr 33% í 30%. Í öðru lagi er gerð tillaga um að skatthlutfall sameignarfélaga o.fl. verði 38% í stað 41% eins og verið hefur. Er það gert til samræmis við breytingar á skatthlutfalli einstaklinga. Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp sérstakt 10% skatthlutfall af mótteknum arði hjá þeim lögaðilum sem greiða eiga 38% skatt af öðrum tekjum sínum. Samkvæmt gildandi lögum skattleggjast arðstekjur með öðrum tekjum rekstrarins, þ.e. nú með 41% skatti. Í fjórða lagi er tilvísun leiðrétt til samræmis við þær breytingar sem gerðar eru á greininni.

Um 7. gr.

    Eftirlitsstofnun EFTA hefur í tilefni kvörtunar sem henni barst gert athugasemdir við 78. gr. tekjuskattslaga að því er varðar skattalega meðferð innstæðna í lánastofnunum. Telur stofnunin að um sé að ræða mismunun milli innlendra og erlendra fjármálastofnana að því er varðar eignarskattsfrelsi bankainnstæðna. Stangist það á við 4., 36., og 40. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem og ákvæði 1. gr. tilskipunar um frjálst streymi fjármagns innan Evrópska efnahagssvæðisins. Koma athugasemdir stofnunarinnar fram í bréfi hennar (letter of formal notice) frá 20. febrúar 1998.
    Er hér lögð til breyting í þá veru að afnema umrædda mismunun. Ekki er að vænta neinna umtalsverðra áhrifa af þessari breytingu.

Um 8. gr.

    Samkvæmt grein þessari öðlast lögin þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1999, þ.e. álagningu á tekjur ársins 1998. Samkvæmt því mun arður sem hlutafélag greiðir út af hagnaði ársins 1998 ekki koma til frádráttar. Arður sem það fær greiddan og er tekjufærður á þessu ári mun verða frádráttarbær og hin lækkuðu skatthlutföll munu gilda fyrir tekjur ársins 1998.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981,


um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


    Frumvarp þetta snýr að breytingum á nokkrum ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki er talið að þær hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.