Ferill 603. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1055 – 603. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um kjaramál fiskimanna.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá utanríkisráðuneyti Jóhann Sigur jónsson, frá sjávarútvegsráðuneyti Árna Kolbeinsson og frá forsætisráðuneyti Ólaf Davíðs son. Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson komu frá Sjómannasambandi Íslands og Benedikt Valsson, Guðjón Ármann Einarsson og Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiski mannasambandi Íslands. Frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna kom Kristján Ragnars son og Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Frá Verkamannasam bandi Íslands komu Kristján Bragason, Snær Karlsson, Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður fiskvinnsludeildar Verkamannasambands Íslands, og Elínbjörg Magnúsdóttir, varaformaður fiskvinnsludeildar. Einar Svansson, Ágúst Elíasson og Arnar Sigmundsson komu frá Samtök um fiskvinnslustöðva. Óskar Þór Karlsson, Sæmundur Hinriksson, Kristján Guðmundsson, Sturla Erlendsson og Jón Steinn Elíasson komu frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands og Arthúr Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda. Að lokum kom á fundinn Þórir Einarsson ríkissáttasemjari.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Fiskifélagi Íslands og félagsmálanefnd Alþingis.
    Frumvarpi þessu er ætlað að lögfesta efnisákvæði miðlunartillögu ríkissáttasemjara frá 16. mars sl. þannig að þau gildi að meginstefnu til um kjör fiskimanna fram til 15. febrúar árið 2000. Á þessu tímabili eru vinnustöðvanir deiluaðila sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið gerir ráð fyrir óheimilar. Hins vegar er deiluaðilum heimilt að semja um aðra skipan kjaramála á tímabilinu. Rétt er að taka fram að skv. 1. gr. frum varpsins er fylgiskjölum I-IV ætlað að hafa lagagildi. Í uppsetningu frumvarpsins eru þau hins vegar sett sem fylgiskjöl með greinargerð frumvarpsins en ekki sem fylgiskjöl með laga textanum sjálfum. Verður þetta atriði leiðrétt við endanlegan frágang laganna þar sem skýr lega kemur fram í lagatextanum að þessi fylgiskjöl eiga að fylgja lögunum og hafa lagagildi. Síðasta fylgiskjalið fylgir hins vegar greinargerð frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að veiðiferðir á fjarlægari miðum skuli teljast sérstakt kauptryggingartímabil og er ekki lögð til breyting á því ákvæði. Hins vegar er lagt til að sú breyting verði gerð á 1. mgr. greinarinnar að reglan um að fækkun í áhöfn leiði ekki til sérstaks kostnaðarauka útgerðar nái eingöngu til áhafna skipa sem stunda rækjuveiðar og landa daglega eða ísa afla um borð. Er þessi breyting í samræmi við ummæli sjávarútvegs ráðherra við atkvæðagreiðslu um hvort afbrigði yrðu veitt fyrir því að málið mætti koma til 1. umr. Ráðherrann tók fram að við nánari athugun hefði komið í ljós að kjaraáhrif 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins væru nokkuð víðtækari en að hafði verið stefnt og beindi þeim tilmælum til sjávarútvegsnefndar að efnisákvæðinu yrði breytt þannig að það tæki einungis til rækju veiða. Lagt er til að þetta ákvæði frumvarpsins öðlist lagagildi 1. júní 1998.
    Þá er lögð til sú breyting á viðurlagaákvæði frumvarpsins að það nái einungis til brota gegn 3. gr. þess. Ekki er ástæða til að láta viðurlagaákvæðið ná til annarra efnisgreina enda eru brot gegn þeim brot gegn kjarasamningum.
    Sjávarútvegsnefnd óskaði eftir áliti félagsmálanefndar á frumvarpinu og er það birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu.
    Eins og rakið er ítarlega í greinargerð með frumvarpinu hefur kjaradeila sjómanna og út vegsmanna staðið frá því í árslok 1996. Þrátt fyrir margvíslegar tilraunir stjórnvalda til þess að stuðla að lausn deilunnar og milligöngu ríkissáttasemjara hafa samningar ekki tekist og engin lausn á deilunni virðist vera í sjónmáli. Verði ekkert að gert mun yfirstandandi verkfall sjómanna geta staðið í langan tíma en það hefði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir einstak linga, fyrirtæki og sveitarfélög, sem og þjóðarbúið í heild. Meiri hlutinn telur að við svo búið megi ekki standa og þótt lagasetning til lausnar vinnudeilum sé almennt óheppileg kann hún engu að síður að vera nauðsynleg vegna þeirra miklu almannahagsmuna sem í húfi eru. Því leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. mars 1998.



Árni R. Árnason,


varaform., frsm.


Vilhjálmur Egilsson.



Hjálmar Árnason.




Einar Oddur Kristjánsson.



Valgerður Sverrisdóttir.





Fylgiskjal I.


Álit félagsmálanefndnar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þórarin V. Þórarinsson frá VSÍ, Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasam bandi Íslands, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og Helga Laxdal og Friðrik A. Hermannsson frá Vélstjórafélagi Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar (Siv Friðleifsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Pétur H. Blöndal, Kristján Pálsson og Arnbjörg Sveinsdóttir) telur að almennt sé óæskilegt að stjórnvöld grípi inn í kjaraviðræður. Frumvarp þetta er fram komið vegna þess mats stjórnvalda að deila aðila hafi verið komin í óleysanlegan hnút er leitt gæti af sér langvarandi verkfall sem skaða mundi þjóðarhag.
    Eftir viðræður við aðila deilunnar er meiri hlutinn sammála þessu mati ríkisstjórnarinnar og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Minni hluti félagsmálanefndar (Kristín Ástgeirsdóttir, Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir) mótmælir því að enn einu sinni séu sett lög á kjaradeilu sjómanna og útvegs manna. Minni hlutinn bendir á að báðir málsaðilar hafa mótmælt harðlega að lögum sé beitt til lausnar deilu þeirra og vilja fá að leysa sín deilumál með samningum. Með þessu frum varpi eru sjómenn sviptir verkfallsrétti og lög sett á útgerðarmenn algjörlega í blóra við vilja þeirra. Fram kom á fundi nefndarinnar að svo mikið lá á að binda enda á deiluna að ekki var kannað hvort þessi lagasetning stenst þá alþjóðasáttmála og samþykktir, m.a. samþykktir ILO, sem Íslendingar eru aðilar að. Fram kom að lögfræðingar Sjómannasambands Íslands telja að hún standist ekki þessar samþykktir og LÍÚ er að kanna lagalega stöðu málsins. Rétt er að minna á að ILO hefur gert athugasemdir við það hvernig íslensk stjórnvöld hafa beitt valdi sínu til að stöðva vinnudeilur á undanförnum árum. Nefndin hafði ekki tíma til að kalla sérfræðinga í vinnurétti á sinn fund til að kanna nánar hvort þessi lagasetning stenst, en hún orkar vægast sagt tvímælis. Það er álit minni hlutans að ekki hafi verið fullreynt hvort takast mætti að ná samningum og að samningsaðilum beri að vinna úr sínum málum án afskipta rík isvaldsins.
    Minni hlutinn vekur sérstaka athygli á því að nokkurt misræmi kom fram í túlkun þeirra aðila sem nefndin kallaði á sinn fund á gildi laganna sem kjarasamnings. Verður 2. gr. lag anna hluti af gildandi kjarasamningi eftir 15. febrúar árið 2000 eða fellur hún úr gildi? Er það þá aðeins miðlunartillaga sáttasemjara sem halda mun gildi sínu sem kjarasamningur, sbr. almennar reglur um launagreiðslur, þótt kjarasamningur sé fallinn úr gildi? Athuga þarf hvort rétt væri að bæta við 5. gr. ákvæði um að lögin gildi til 15. febrúar árið 2000 eða þar til nýir samningar hafa verið gerðir þannig að enginn vafi sé á því að 2. gr., sem er jú eitt af lykilatriðum þessa máls, haldi gildi sínu?

F.h. félagsmálanefndar


Kristín Ástgeirsdóttir formaður.