Ferill 604. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1067 – 604. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.

    
    Minni hluti sjávarútvegsnefndar átelur harðlega að ríkisstjórnin skuli, í krafti meiri hluta síns á Alþingi, lögbinda kjör sjómanna næstu tvö árin.     
    Þegar sjómenn greiddu atkvæði um miðlunartillögu sáttasemjara var forsenda samþykkis þeirra að frumvarpaþrenna embættismannanefndar ríkisstjórnarinnar yrði lögfest efnislega óbreytt, enda hafði sjávarútvegsráðherra heitið þeim að það yrði gert.
    Stjórnarandstaðan hefur lagt áherslu á að sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin standi við loforð sín gagnvart sjómönnum.
    Breytingartillaga meiri hluta sjávarútvegsnefndar, sem gerir ráð fyrir minni veiðiskyldu og þar með minna atvinnuöryggi sjómanna en frumvarpið gerir ráð fyrir, er veruleg efnisbreyt ing frá þeirri tillögu sem sjómenn voru að taka afstöðu til þegar þeir greiddu atkvæði um miðlunartillögu sáttasemjara. Með því að hverfa frá veiðiskyldu yfir í framsalstakmarkanir er verið að leggja minni áherslu á veiði aflaheimildanna en meiri á ráðstöfun þeirra óháð hags munum áhafnar. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða. Það er því ljóst að með sam þykkt þessarar breytingar er sjávarútvegsráðherra að ganga á bak orða sinn gagnvart sjómönnum.
    Með vísan til þessa mun minni hluti sjávarútvegsnefndar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Guðný Guðbjörnsdóttir hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 27. mars 1998.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.



Kristinn H. Gunnarsson.