Ferill 653. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1126 – 653. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson.



1. gr.

    1. mgr. B-liðar 69. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 30/1995, orðast svo:
    Maður sem skattskyldur er skv. 1. gr. og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa, byggingar eða til að viðhalda eignarhaldi á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993, á rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

2. gr.

    1. málsl. 2. mgr. B-liðar 69. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 122/1993, orðast svo: Vaxta gjöld, sem mynda rétt til vaxtabóta, eru vaxtagjöld vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega til öflunar eða til að viðhalda eignarhaldi á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

3. gr.

    Við 5. mgr. B-liðar 69. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 122/1993, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Réttur til vaxtabóta getur einnig stofnast vegna lána sem tekin eru til að við halda eignarhaldi á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að rýmkaður verði sá réttur sem lántakendur hafa til vaxtabóta. Verði við það miðað að réttur til vaxtabóta myndist einnig vegna lána sem tekin eru til að viðhalda eignarhaldi á eigin íbúðarhúsnæði. Fram til þessa hafa úrskurðir yfir skattanefndar verið í þá veru að réttur til vaxtabóta hefur verið býsna þröngt skilgreindur. Með þessu frumvarpi eru hins vegar tekin af öll tvímæli um að skuldbindingar sem fólk tekst á hendur til að tryggja áframhaldandi eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota myndi rétt til vaxtabóta, þar á meðal þegar fólk þarf að forða eignum sínum frá nauðungarsölu meðal annars vegna skuldbindinga sem það hefur tekist á hendur, hugsanlega gagnvart þriðja aðila. Nú er ekki óalgengt að fólk verði að grípa til lántöku vegna þess að ábyrgðarskuldbinding sem það hefur tekist á hendur fyrir börn sín eða ættmenni, meðal annars við húsnæðisöflun, hafi fallið á viðkomandi. Slík ný lán eru þá gjarnan veðbundin í eigin íbúðum. Í þeim tilfellum hefur réttur til vaxtabóta ekki verið viðurkenndur og hann fallið niður.
    Ljóst er að eftir sem áður verður réttur til vaxtabóta bundinn því að viðkomandi geti sýnt fram á að lánið hafi verið tekið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði og nú einnig til að viðhalda eignarhaldi á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þannig að ekki er ástæða til að ætla að tilhneiging til misnotkunar á rétti til vaxtabóta aukist frá því sem verið hefur.
    Ýmis markatilfelli hafa komið upp varðandi rétt til vaxtabóta og munu sennilega koma upp áfram. Með samþykki þessa frumvarps er gert ráð fyrir hér eftir sem hingað til að sönn unarbyrðin sé á hendi skattgreiðanda og hann þurfi að gera glögga grein fyrir því að við komandi fjárskuldbindingar séu til öflunar eða til að viðhalda eignarhaldi á íbúðarhúsnæði til eigin nota.