Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1194 – 346. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlitsstarfsemi hins opinbera.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Orra Hauksson og Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti. Þá komu til fundar Kristín Guðmundsdóttir frá Granda hf., og Ingimar Sigurðsson frá Nýju bílahöllinni.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Kvikmyndaskoðun, Ferðamálaráði, yfirdýra-lækni, Siglingastofnun Íslands, Lyfjaeftirliti ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Flugmálastjórn, Samtökum iðnaðarins, Löggildingarstofu, Vinnueftirliti ríkisins, Vátryggingaeftirlitinu, Alþýðusambandi Íslands, Iðntæknistofnun og Sýslumannafélagi Íslands.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að skapa fastan grundvöll fyrir samhæfingu opin berrar eftirlitsstarfsemi og tryggja vönduð vinnubrögð við undirbúning og setningu eftirlits-reglna, sem og við endurskoðun þeirra. Eftirlitsstarfsemi á vegum hins opinbera eru sett ákveðin markmið og lagt til að metið verði á markvissan hátt eftir hlutlægum mælikvarða hvort reglur þar að lútandi nái þessum markmiðum. Slík eftirlitsstarfsemi á bæði við um setningu þeirra reglna sem efni frumvarpsins tekur til og framkvæmd þeirra. Forsætisráðu neyti er falið að gegna ákveðnu samhæfingarhlutverki í þessu skyni og skal fylgjast með því að farið sé að ákvæðum laganna. Ráðuneytið skal hafa yfirsýn yfir eftirlitsstarfsemi og annast heildarmat á áhrifum hennar, tryggja nauðsynlega samhæfingu og hagkvæmni og móta aðferðir við mat á eftirlitsstarfsemi.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt um heiti frumvarpsins. Meiri hlutinn telur eðlilegt og til skýringar að í stað þess að tala um eftirlitsstarfsemi hins opinbera verði fyrirsögn frumvarps ins breytt í frumvarp til laga um eftirlitsstarfsemi í skjóli opinbers valds. Með því móti skír skotar heiti frumvarpsins með skýrari hætti jafnt til þeirrar eftirlitsstarfsemi sem stjórnvöld annast sjálf og til þess þegar einkaaðilum hefur með lögum eða heimild í lögum verið falið að hafa slíkt stjórnsýsluhlutverk með höndum. Þá var einnig rætt um þau skilyrði sem leggja ber til grundvallar við mat á því hvort eftirlitsreglur teljist ná þeim markmiðum sem frum varpið stefnir að og felast í því að hið opinbera skuli því aðeins standa fyrir eftirlitsstarfsemi að kostnaður sé eins takmarkaður og unnt er, að ávinningur þjóðfélagsins sé meiri en kostn aðurinn, að sama árangri verði ekki náð með öðrum aðferðum, að eftirlitsstarfsemi leiði ekki til mismununar og takmarki ekki athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist þess. Meiri hlutinn leggur áherslu á að túlka beri þau orð 2. gr. að ávinningur þjóðfélagsins sé meiri en kostnaðurinn á þann veg að ávinningur sé talinn það mikill að hann réttlæti kostnaðinn. Víða hefur hins vegar verið tilhneiging til að meta ávinning nýrra reglna of mikinn. Greining á kostnaði og ábata hefur því veitt of mörgum nýjum reglusetningum gæðastimpil og ekki skilað því aðhaldi sem ákvæði frumvarpsins stefna að.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
1.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 1., 4., 5. og 6. gr., meðal annars með hliðsjón af tillögu um breytingu á fyrirsögn frumvarpsins sem lagt er til að verði frumvarp til laga um eftirlitsstarfsemi í skjóli opinbers valds.
2.      Lagðar eru til tvær breytingar á 3. mgr. 3. gr. Annars vegar er lögð til orðalagsbreyting og hins vegar er lagt til að forsætisráðherra skuli setja nánari reglur um mat á eftirlitsregl um og þær aðferðir við eftirlit sem leitast skal við að fylgja við undirbúning að setningu laga og reglna í stað þess að einungis sé kveðið á um þær aðferðir við eftirlit sem leitast skal við að fylgja í lögum og reglugerðum. Með þessu er lögð áhersla á að eftirlitið eigi ekki að koma eftir á.
3.      Loks er lagt til að við bætist ný grein, er verði 8. gr., þar sem kveðið verði á um að forsætisráðherra skuli að jafnaði á þriggja ára fresti gefa Alþingi skýrslu um áhrif laganna, störf ráðgjafarnefndar skv. 6. gr. og önnur tengd atriði. Þá er lagt til að við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein sem segi að forsætisráðherra skuli fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils Alþingis skila slíkri skýrslu.
         Sólveig Pétursdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. apríl 1998.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Pétur H. Blöndal.



Einar Oddur Kristjánsson.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.