Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1321 – 546. mál.
                        


Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skipulag ferðamála, nr. 117/1994.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Birgi Jónsson, Ragnhildi Hjaltadóttur og Ólöfu Nordal frá samgönguráðuneyti, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Björn Ingólfsson og Ernu Hauksdóttur frá Félagi íslenskra ferðaskrifstofa.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Austfjarðaleið ehf., Ferðamálaráði, Ferðamálasamtökum Austurlands, Ferðaþjónustu bænda, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Íslenskum fjallaleið sögumönnum og Sambandi íslenskra tryggingafélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrari reglur um rekstur ferðaskrifstofa hér á landi, svo sem um ferðaskrifstofuleyfi og fjárhæð tryggingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að a-liður a-liðar 1. gr. falli brott og er skilgreiningu á hugtakinu ferðaskrifstofa þar með breytt. Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á sviði upplýsingamiðlunar leggur nefndin til að ekki þurfi ferðaskrifstofuleyfi til að gefa upplýsingar um ferðir innan lands og erlendis. Samhliða þessu er b-lið a-liðar 1. gr. breytt á þann veg að ef upplýsingagjöfinni fylgir umboðssala með farmiða sé um ferðaskrifstofu að ræða.
     2.      Lagt er til að felld verði brott orðin „a- og b-lið“ úr h- og i-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem ætlunin er að vísa einnig til c-liðar 19. gr. á báðum stöðum og því nægjanlegt að vísa einungis til 19. gr.
     3.      Þá er lagt til að lágmark tryggingar skv. h-lið 1. gr. verði lækkað í 1 millj. kr. Nefndin telur að með því sé komið til móts við sjónarmið ýmissa smærri aðila sem standa í ferðaskrifstofurekstri. Í dag er lágmarkstrygging smærri aðila 1 millj. kr. þannig að með því að breyta lágmarkinu eins og samgöngunefnd leggur til verður ekki um röskun að ræða hjá neinum aðilum.
     4.      Þá er lögð til orðalagsbreyting á c-lið k-liðar 1. gr. svo að skýrar komi fram að um ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátryggingu hjá vátryggingafélagi er að ræða.

Alþingi, 27. apríl 1998.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.



Guðmundur Árni Stefánsson.




Egill Jónsson.     


Árni Johnsen.     


Ragnar Arnalds.     


                                  

Ásta R. Jóhannesdóttir.



Kristján Pálsson.



Stefán Guðmundsson.