Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1415 – 376. mál.



Breytingartillögur



við till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Frá félagsmálanefnd.



    Eftirfarandi breytingar verði á III. kafla framkvæmdaáætlunarinnar:
     a.      Við lið 1.1. Endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum. Á eftir orðinu „kosningakerfa“ í fyrri málslið komi: þar á meðal.
     b.      Við lið 1. Forsætisráðuneyti bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
                    Staða kvenna á landsbyggðinni.
                  Ráðuneytið mun kanna sérstaklega hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni og þar með á möguleika þeirra til náms og atvinnu. Könnuninni ljúki fyrir árslok 1998. Á grundvelli niðurstaðna verði lagðar fram tillögur til úrbóta sem miði að því að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni.
     c.      Við lið 2.6. Staða þolenda afbrota. Í stað orðsins „fórnarlömb“ í 2. málsl. komi: þolendur.
     d.      Við lið 4. Fjármálaráðuneyti. Liðurinn orðist svo:
                    4.1. Feðraorlof.
                  Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi reglur fjármálaráðherra um sjálfstætt fæðingarorlof feðra í þjónustu ríkisins. Í reglunum er feðrum í þjónustu ríkisins tryggður réttur til launa í tvær vikur vegna fæðingar barns. Í byrjun árs 1999 verður reynslan af þessari nýbreytni skoðuð með viðtölum og spurningum til þeirra sem þessa orlofs nutu.

                    4.2. Úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna.
                  Með meiri hluta kjarasamninga, sem fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs gerði við stéttarfélög innan BSRB og BHM og gilda eiga til ársins 2000, fylgdi yfirlýsing þar sem áréttuð er stefna ríkisins að jafna þann launamun karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra nema á grundvelli kyns og bent á að með nýju launakerfi gefist tækifæri til þess. Til þess að meta áhrif nýs launakerfis á launamun karla og kvenna skuldbatt fjármála ráðuneytið sig til þess að gera sérstaka úttekt á þeim áhrifum á samningstímabilinu. Stefnt er að gerð slíkrar úttektar á árinu 1999.

                    4.3. Reglur um starfslýsingar.
                  Í bæklingi fjármálaráðherra um jafnréttismál frá febrúar 1996 er hvatning til vinnu veitenda um að „starfslýsingar séu skilmerkilegar og frammistöðumat sé lagt til grund vallar starfsframa“. Einnig segir í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að setja skuli starfsmanni erindisbréf ef hann óskar þess. Með til liti til þess og nýrra kjarasamninga mun fjármálaráðuneytið minna á þetta ákvæði þar sem því verður við komið.

                    4.4. Fræðsla til yfirmanna stofnana ráðuneytisins.
                  Fjármálaráðuneytið mun skipuleggja fræðslu um jafnréttismál fyrir yfirmenn stofn ana þess í anda þeirra hugmynda sem komu fram í jafnréttisriti ráðuneytisins frá febrúar 1996 og í samræmi við niðurstöðu jafnréttiskönnunar sem gerð var í janúar 1998 á veg um starfshóps fjármálaráðuneytisins um jafnréttismál.

                   4.5. Hlutur kvenna í starfi ráðuneytisins aukinn.
                  Fjöldi kvenna í nefndum á vegum fjármálaráðuneytisins hefur aukist á undanförnum árum í samræmi við stefnu ráðherra þar að lútandi. Áfram verður unnið að fjölgun kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og hugað sérstak lega að kynjaskiptingu við val á yfirmönnum.

                    4.6. Endurskoðun á eyðublöðum.
                  Fjármálaráðuneytið mun sjá til þess að öll eyðublöð frá stofnunum sem heyra undir fjármálaráðuneytið og þar sem einstaklingar þurfa að gefa upplýsingar um tekjur og eignir verði endurskoðuð og metin út frá jafnréttissjónarmiðum.
     e.      Við liði 1. Forsætisráðuneyti, 6. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, 10. Samgönguráðuneyti, 11. Sjávarútvegsráðuneyti og 13. Utanríkisráðuneyti bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
                    Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
                  Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttis sjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.
     f.      Við liði 1. Forsætisráðuneyti, 2. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, 3. Félagsmálaráðuneyti, 4. Fjármálaráðuneyti, 5. Hagstofa Íslands, 6. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðu neyti, 7. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, 8. Landbúnaðarráðuneyti, 9. Menntamálaráðu neyti, 10. Samgönguráðuneyti, 11. Sjávarútvegsráðuneyti og 13. Utanríkisráðuneyti bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
                    Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
                  Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu til yfir manna og annarra starfsmanna.
     g.      Við lið 13. Utanríkisráðuneyti bætist nýr liður með viðeigandi númeri ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
                    Jafnréttisnámskeið.
                  Ráðuneytið mun standa fyrir jafnréttisnámskeiðum fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum eða vinna að slíkum verkefnum.