Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 10:32:18 (3021)

1999-01-12 10:32:18# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, MagnM
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[10:32]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Ætli það sé ekki vel við hæfi að nýr þingmaður hefji upp raust sína í fyrsta sinn í þessum sal í umræðum um sjávarútvegsmál miðað við fyrirferð þeirrar atvinnugreinar í sögu þessa unga lýðveldis. Ég vona þó að hv. þingmenn fyrirgefi að ég mun ekki tala klukkutímum saman í fyrstu atrennu.

Það verða að teljast grafalvarleg tíðindi þegar Hæstiréttur landsins úrskurðar að lög um jafnmikilvægan hlut og stjórn sóknar í okkar helstu auðlind stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er því eðlilegt að þingið hafi brugðist skjótt við þessum dómi. Á hinn bóginn vil ég draga í efa að sú lausn sem hér stefnir í sé fullnægjandi.

Að baki þessari umræðu er í sjálfu sér afar einfalt mál. Það er hvort stjórnvöld á hverjum tíma eigi að hafa rétt til þess að gefa lögbundnar sameignir þjóðarinnar og hennar helstu auðlindir fáeinum einstaklingum sem voru á réttum stað á réttum tíma. Það má auðvitað færa fyrir því rök að í krafti meiri hluta á Alþingi hafi þjóðin með lýðræðislegum hætti fengið stjórnvöldum þetta vald en þá er líka mikilvægt að hún geri sér grein fyrir afleiðingum gerða meiri hlutans. Og hlutverk þeirra sem eru á öndverðri skoðun við hann er að benda á það sem betur mætti fara.

Þetta er og hlutverk dómstóla og hefur það nú gerst að Hæstiréttur Íslands hefur dæmt að ákvæði laga um fiskveiðistjórn brjóti í bága við stjórnarskrá. Fyrstu viðbrögð framkvæmdarvaldsins voru því miður þau að gera lítið úr þessum úrskurði æðsta dómstóls Íslendinga og önnur viðbrögðin virðast vera þau að reyna með bellibrögðum að komast hjá því að framfylgja úrskurðinum. Lagatextanum sem slíkum skal breytt til að gerningurinn geti haldið áfram óbreyttur. Anda dómsins er hafnað. Áfram skal haldið að hygla fáum á kostnað margra.

Í skjóli ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. er því fram haldið af kappi að ákveðnum mönnum hafi endurgjaldslaust verið fengin auðlind sem í orði kveðnu er sameign íslensku þjóðarinnar til eigin nota. Þeir ráðstafa henni svo að vild og framleigja nytjaréttinn til annarra sem greiða hinum heppnu lénsherrum kvótans fyrir hann miklar fjárhæðir. Úthlutun ókeypis aflaheimilda er í raun niðurgreiðslur til einnar atvinnugreinar á kostnað annarrar. Þar er haldið áfram á þeirri braut að gera sjávarútvegi hærra undir höfði en öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem það er gert. Strax upp úr seinna stríði tókst okkur að eyða gjaldeyrisforða sem nam um helmingi þjóðarframleiðslunnar í fjárfestingu í sjávarútvegi og það á tveimur árum. Á sjötta áratugnum var sérstök gengisskráning fyrir sjávarútveginn þar sem hann átti kost á ódýrari gjaldeyri en aðrar atvinnugreinar. Svokallað fjárhagsráð sá um að ekki væru veitt lán til fjárfestinga í öðrum atvinnugreinum en í sjávarútvegi.

Á áttunda áratugnum í olíukreppunni svokölluðu var olía til sjávarútvegs niðurgreidd. Gengisfellingar til að rétta hag sjávarútvegsins voru nánast daglegt brauð. Hið íslenska ríkisvald hefur litið á það sem heilaga skyldu sína að hafa full afskipti af íslensku atvinnulífi. Hefur það í því skyni beitt fjármálastofnunum sínum, ríkisbönkum og sjóðakerfi og lánað myndarlega til vonlausra fyrirtækja. Þannig hafa þeir sem einhvern dug hafa haft verið skattlagðir sérstaklega svo skussarnir gætu haldið áfram taprekstri, oft í nafni byggðastefnu.

Stjórnmálamönnum hættir til að líta á þjóðir eins og fyrirtæki í samkeppni við aðrar þjóðir á einhvers konar alheimsmarkaði. Í stórum dráttum hafa þeir þar rangt fyrir sér. Eina raunverulega samkeppnin á markaði er á milli einstakra fyrirtækja og þegar ríkisvaldið velur að styðja eina atvinnugrein umfram aðrar og þar með ákveðin fyrirtæki umfram önnur, þá er það að koma í veg fyrir hagkvæmustu dreifingu fjármagns í þjóðfélaginu og sóa fjármunum sem annars hefðu án nokkurs minnsta efa nýst betur annars staðar.

Í raun standa hægri menn á Íslandi nú eins og alltaf fyrir þá meginstefnu að hygla vinum sínum og skjólstæðingum á kostnað viðskiptafrelsis, hagkvæmni og hagsmuna þorra Íslendinga. Það er von mín, herra forseti, að einhvern tíma takist okkur að opna augu þeirra landsmanna sem í blindni ljá hægri mönnum atkvæði sitt í þeirri trú að þar sé að finna málsvara frelsisins, fyrir þessari staðreynd.

Ég hef ekki í hyggju um að tjá mig í smáatriðum um þær brtt. á lögum um stjórn fiskveiða sem liggja fyrir í dag. Þær eru fyrst og fremst til að slá ryki í augu fólks, til að tefja málið fram yfir kosningar í vor. Mesta athygli fjölmiðla undanfarna daga hafa vakið ákvæði sem snerta útgerðir smábáta. Þar sýnist sitt hverjum og svo virðist sem tekist hafi að drekkja umræðunni í umfjöllun um einstakar útfærslur og þar með týndist skógurinn í trjánum.

Sagt hefur verið um Íslendinga að þeir hafi gaman af að karpa um lögfræðileg álitamál en vilji týna sér í því og missa sjónar á aðalatriðinu. Þetta sýnist mér því miður muni verða helsta hættan í þessari umræðu þar sem dansað er á barmi hins siðferðilega vafasama og óhagkvæma og augunum er lokað fyrir því að við búum í dag í flestum atvinnugreinum við markaðsbúskap þar sem framboð og eftirspurn ræður verði á aðföngum sem fullunninni vöru.

Þegar aðföng einnar atvinnugreinar, verðmæti upp á hundruð milljóna, eru gefin fáeinum einstaklingum er ríkisvaldið að skekkja allan aðbúnað atvinnulífsins í landinu og bjóða heim spillingu og rentusækni eins og verst þekkist í þeim löndum sem við viljum síður bera okkur saman við. Brýnt er að þeir sem aðgang hafa að helstu auðlind Íslendinga kaupi þann aðgang af eigendunum, þjóðinni sjálfri.

Skelfilegast þykir mér þó að sjá í þessum brtt. gert ráð fyrir svokölluðum byggðakvóta. Það er auðvelt að sjá fyrir sér kjördæmapotið og spillinguna sem gæti viðgengist í tengslum við hann. Hann einn ætti að nægja til þess að allar viðvörunarbjöllur ættu að fara af stað gagnvart þessum brtt. En þarna sjá eflaust ýmsir sér leik á borði þar sem sé tækifærið til að útdeila jólagjöfum í skiptum fyrir stuðning á þing.

Herra forseti. Þjóðin bíður. Þjóðin bíður eftir réttlæti í þessu máli. Þjóðin bíður eftir því að geðþóttaákvörðunum og rentusókn linni. Þjóðin bíður eftir því að allir sitji við sama borð þegar kemur að sókn í sameiginlega auðlind hennar, að sumir geti ekki fengið ókeypis það sem aðrir þurfa að greiða fyrir fullu verði. Ef sömu menn halda um stjórnartaumana eftir kosningarnar í vor gæti hún þurft að bíða lengi enn.