Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 15:12:34 (3080)

1999-01-13 15:12:34# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[15:12]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hér hafa farið fram ágætar umræður í dag um þetta efni. Eftir að hv. formaður sjútvn. hafði gert grein fyrir viðbótarbrtt. nefndarinnar hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar lýst í ítarlegu máli og málefnalega þeim sjónarmiðum sem þeir hafa viljað koma fram í umræðunni. Ég ætla að víkja að örfáum atriðum sem mér finnst að þessi umræða gefi tilefni til.

Í fyrsta lagi er rétt að minna á að það frv. sem hér liggur fyrir og er til umfjöllunar felur ekki í sér afrakstur af heildarendurskoðun á löggjöf um stjórn fiskveiða. Það felur í sér afmörkuð viðbrögð við dómi Hæstaréttar sem hér hefur verið til umfjöllunar. En það er mikill misskilningur að það hafi verið tilgangur eða markmið með þessu frv. að ljúka einhverri heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Það er verkefni sem stöðugt þarf að vinna að. Löggjöf af þessu tagi verður aldrei alfullkomin. Það þarf stöðugt að laga hana að nýjum og breyttum aðstæðum þannig að það er verkefni er stöðugt og verður ævarandi. Því verður aldrei lokið í eitt skipti fyrir öll. En það er mjög mikilvægt fyrir atvinnugreinina og efnahagslíf landsins að um þessi efni gildi skýrar leikreglur og að þeir sem í atvinnugreininni starfa geti treyst því að ekki sé verið að breyta þeim í grundvallaratriðum frá einu ári til annars og geti til lengri tíma skipulagt atvinnustarfsemina, ekki bara út frá eigin hagsmunum heldur fyrst og fremst út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar sem byggir verðmætasköpunina á starfsemi sjávarútvegsins.

Það má segja að það hafi verið rauði þráðurinn í ræðum talsmanna stjórnarandstöðuflokkanna að a.m.k. á þessu stigi væri óþarfi að bregðast við dómi Hæstaréttar. Ég trúi því ekki að þeir talsmenn sem hér hafa talað misskilji niðurstöðu dóms Hæstaréttar eins og má ætla af slíkum ummælum. Ég hygg að þeir geri sér fulla grein fyrir niðurstöðu dómsins en kjósi að segja þetta vegna þess að það er forsenda fyrir öðrum málflutningi af þeirra hálfu.

[15:15]

En hvað felur dómur Hæstaréttar í sér? Það er rétt sem hér hefur komið fram að sérfræðingar í lögvísindum hafa sett fram mismunandi skoðanir í þeim efnum. Það er alveg rétt og getur enginn á móti mælt, það liggur fyrir í álitum þeirra. Allir eru þó sammála um að greina á milli niðurstöðunnar í dómnum og almennra hugleiðinga sem menn skilja svo á mismunandi veg. Niðurstaðan er alveg í samræmi við þá málsástæðu og kröfu sem höfð var uppi í málinu sem snerist bara um það hvort 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna stæðist stjórnarskrána eða ekki. Það var kröfugerðin í málinu og niðurstaðan í dómi Hæstaréttar snýst um hana og ekki annað. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að þessi grein samræmdist ekki lengur jafnréttisákvæði í stjórnarskrá landsins. Nú ætla ég ekki að ræða á þessu stigi um lögfræðilegan rökstuðning í dómi Hæstaréttar, þetta er alveg klár og skýr niðurstaða sem ég hef ekki orðið var við að menn greini á um.

Nú geta aðstæður verið mismunandi þegar Hæstiréttur kemst að niðurstöðu um að tiltekin lagagrein stangist á við stjórnarskrá. Í sumum tilvikum þarf ekki að bregðast við. Réttarregla hefur verið felld úr gildi og ekki er þörf á að setja nýja í staðinn. En hér eru aðstæður þannig að óhjákvæmilegt er að skipa málum á nýjan veg með nýrri réttarreglu. Ekki er hægt að skilja mál eftir í lausu lofti án þess að setja nýjar réttarreglur í staðinn fyrir þau ákvæði í 5. gr. sem hafa verið felld úr gildi.

Ég minni á þær þrjú þúsund umsóknir frá aðilum sem vilja gerast nýir þátttakendur í sjávarútvegi. Þeim þarf að svara á grundvelli laga og Hæstiréttur hefur ekki sett nein lög enda er það ekki hlutverkhans. Það er Alþingi sem þarf að setja þau. Það eru ekki bara nýir aðilar sem bíða eftir því, það eru líka aðilar sem hafa lengi tekið þátt í útgerð, hafa til að mynda verið að skipta um skip, höfðu ekki fengið veiðileyfi á nýtt skip áður en dómur Hæstaréttar féll. Þeir bíða líka eftir nýrri niðurstöðu. Komi ekki ný réttarregla er verið að stöðva alla framþróun og framrás í atvinnugreininni þangað til slík réttarregla er sett. Ég trúi því ekki að það sé ætlan talsmanna stjórnarandstöðunnar að stöðva slíka framþróun. Ég ætla ekki að halda því fram að þeir viti ekki að þetta er veruleikinn sem þarf að bregðast við. Þeir kjósa hins vegar að segja: Það þarf ekkert að gera. Það þarf ekki að setja nýja réttarreglu og við getum tekið okkur öll þau ár sem við þurfum til þess að bregðast við Hæstarétti. Af hverju segja þeir þetta? Jú, vegna þess að þeir vilja ekki á þessu stigi, svo skömmu fyrir kosningar, segja fólkinu í landinu hvað þeir ætla að gera vegna þess að þeir óttast að ekki verði hrópað húrra fyrir þeim úti um byggðir landsins þegar þar að kemur.

Þeir fluttu við 2. umr. einhverja makalausustu tillögu sem ég hef séð flutta í þinginu. Hún gekk út á að gefa Hæstarétti langt nef, svo langt nef að Alþingi ætlaði að ákveða með lögum að það þyrfti ekki að bregðast við dómi Hæstaréttar fyrr en eftir fjögur ár. Þeir ætluðu að lögfesta það. Það átti að lögfesta það að Alþingi þyrfti ekki að hafa skoðun á málinu í fjögur ár. Auðvitað var hlegið að þessu úti um allt land að stjórnarandstaðan treysti sér ekki til þess að lýsa skoðunum sínum fyrr en eftir fjögur ár. Þeir lýstu því yfir í seinni hluta tillögunnar að það ætti að taka forræði þessara mála úr höndum sjútvrh. og fela Alþingi, flytja framkvæmdarvaldið til Alþingis með beinu fyrirmælavaldi Alþingis varðandi sjútvrn.

Þegar þeim var bent á að í tillögunni væri gert ráð fyrir því að þetta kæmi til framkvæmda eftir næstu kosningar og það mundi lúta að nýjum ráðherra og að þeir væru varla að lýsa fyrir fram yfir vantrausti á ráðherra úr eigin röðum segði þetta lítið annað en þeir væru fyrir fram að gefast upp og ætluðu ekki einu sinni að hafa það markmið í kosningum að komast til valda að þeim loknum.

Nú heyri ég, eftir að hafa hlýtt á mál hv. 8. þm. Reykv., að þeir hafa tekið þau rök góð og gild gegn tillögunni sem ég setti fram við 2. umr. málsins og hef farið yfir að nýju. Þeir hafa heyrt að úti í þjóðfélaginu var hlegið að því að þeir treystu sér ekki til þess að hafa skoðun á slíkum málum í fjögur ár. Mér finnst þeir vera menn að meiri, herra forseti, að bregðast þannig við málefnalegri gagnrýni, taka málefnalegum rökum og ákveða að draga tillöguna til baka. Það var til þess vitnað sérstaklega í ræðu hv. 8. þm. Reykv. að viðbrögð mín við tillögunni hafi leitt til þess að hún var kölluð til baka og viðbrögð mín voru rökstudd með þeim hætti sem ég hef nú farið yfir, og mér finnst fulltrúar stjórnarandstöðunnar vera menn að meiri fyrir það að hafa tekið mark á þeim málefnalegu röksemdum.

En aðstaðan er sú, og menn verða að gera sér grein fyrir því og það er ekkert hægt að breiða yfir það, að það verður að setja nýjar efnisreglur í staðinn fyrir þá efnisreglu sem verið hefur í 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna ef hér á ekki að vera stöðvun á framþróun í atvinnugreininni. Þó að menn treysti sér ekki til að hafa skoðanir á málinu er alveg ástæðulaust að breiða yfir þá staðreynd að þetta verður að gera. Það er miklu einfaldara og heiðarlegra að segja við fólkið í landinu: ,,Við þurfum lengri tíma til að hugsa þetta mál.`` Það hefði mér fundist að talsmenn stjórnarandstöðunnar hefðu getað gert og segja það bara satt. En að vera að halda því fram að dómurinn kalli ekki á tafarlaus viðbrögð að þessu leyti er auðvitað rangt og ég veit að þeim er það ljóst, þeir hafa ekki staðið í misskilningi um þetta efni.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru einfaldlega þau að bregðast við því að setja þarna ný efnisákvæði. Þau hafa óveruleg áhrif á langsamlega stærsta hluta fiskiskipaflotans. Eftir þessa breytingu geta allir fengið veiðileyfi og það felur í sér þau réttindi að þeir geta keypt til sín aflahlutdeild frá öðrum og þeir geta veitt í tegundum sem eru ókvótabundnar.

Hins vegar lá ljóst fyrir að málið var flóknara varðandi smábátana vegna þess að báðir flokkar smábátanna voru að fiska í opnum kerfum. Ef ekkert hefði frekar verið að gert í þeim efnum hefðu nýir aðilar getað lagt í rúst þann veiðirétt sem þeir hafa haft sem þar hafa verið fyrir og eyðilagt lífsafkomu þeirra í einu auga lifandi bragði. Þess vegna fór stærri hluti frv. í að finna lausnir gagnvart þessum aðilum þar sem brottfall 5. gr. með dómi Hæstaréttar hafði meiri áhrif á þennan hluta fiskiskipaflotans.

Í frv. ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir tiltölulega einfaldri breytingu í þessu efni sem hefði einfaldað það skipulag sem verið hefur á veiðum krókabátanna. Hins vegar þótti meiri hluta sjútvn. eðlilegra að viðhalda þeirri skiptingu sem verið hefur í þessum efnum en þó með þeirri breytingu að öll réttindin yrðu einstaklingsbundin þannig að sóknardagarnir yrðu einstaklingsbundnir en ekki hópveiðikerfi eins og verið hefur. Þar á er ekki grundvallarmunur í þessu efni en það gerir útfærsluna flóknari og skýrir að það hefur tekið aðeins lengri tíma í hv. sjútvn. að fjalla um málið en ella hefði þurft að vera.

Hér hefur svo verið á það minnst að ekki gangi að ætla að setja takmörk á stærð fiskiskipastólsins í siglingalögum. Út af fyrir sig er ég alveg sammála því. Ég held að dómur Hæstaréttar feli það skýrt í sér að ekki er hægt að takmarka stærð fiskiskipastólsins, hvorki í lögum um stjórn fiskveiða né öðrum lögum. Dómur Hæstaréttar kann að fela það í sér að atvinnuréttindi á ýmsum öðrum sviðum verði ekki takmörkuð, ég nefni leigubíla og fjöldamörg önnur atriði, ef samræmi á að vera í dómsniðurstöðum Hæstaréttar. En ég hygg að það sem verið er að vísa til í þessu efni lúti að hinu sem var regla áður fyrr að í lögum um skrásetningu skipa var að ég hygg tekið fram að ekki væri hægt að flytja inn til landsins skip sem voru yfir ákveðnum aldri. Ég tel vel koma til álita að einhver slík almenn regla sé sett í löggjöf á því sviði. Hún getur hins vegar ekki falið í sér reglu sem halda má fram að feli í sér takmörkun á aðgangi að flotanum. En á sínum tíma voru slíkar reglur fyrst og fremst vegna þess að menn vildu tryggja að ný skip sem kæmu til landsins væru ekki það gömul að þau fullnægðu ekki nútímakröfum og öryggi og aðbúnað sjómanna og þar fram eftir götunum. Síðan ákváðu menn að fella slíkt niður fyrst og fremst til þess að auðvelda útgerðum að kaupa eldri skip á hagkvæmara verði. En alltaf var umdeilt hvort réttlætanlegt væri að stíga slík skref með hliðsjón af þeim markmiðum sem lágu að baki gömlu reglunni, þ.e. öryggishagsmunir og aðbúnaður sjómanna. Því tel ég fullkomlega eðlilegt að menn hugi að einhverju slíku en tek alveg undir þau sjónarmið að ekki er hægt að setja þar neinar reglur sem takmarka aðganginn.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði á nokkuð annan veg en talsmenn samfylkingarinnar, sem ekki er óeðlilegt, og taldi að það væri hægt, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar, að takmarka fjölda fiskiskipa og setja fiskiskip í fleiri flokka og hópa og miðstýra kerfinu og þróuninni, ef ég hef skilið hugleiðingar hans rétt. Ég held að það sé ljóst og menn verði að gera sér grein fyrir því að það er enginn vegur eftir dóm Hæstaréttar að takmarka fjölda fiskiskipa. Ekki er hægt að hafa almenn lokuð kerfi sem ákveðinn tiltekinn hópur á rétt á að veiða í og aðrir komast ekki inn í eins og ýmsar þjóðir hafa. Það er útilokað að minni hyggju eftir þennan dóm.

Mér finnst nokkuð hafa á það skort í þessari umræðu --- af því að ýmsir hafa beint umræðunni í víðari farveg af því að þeir hafa litið svo á að dómur Hæstaréttar hafi sett fram kröfu um meiri uppstokkun á þessu stigi á löggjöfinni um stjórn fiskveiða --- mér finnst menn gleyma í því sambandi að ræða það af hverju við erum með fiskveiðistjórn. Hver eru markmiðin með því að stjórna fiskveiðum hér við land? Lítillega var komið inn á þetta í ræðum hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Vestf.

[15:30]

Að minni hyggju eru tvö höfuðmarkmið sem við þurfum að hafa. Þau eru annars vegar að fiskveiðistjórnarkerfið sé nógu sterkt til þess að við náum þeim líffræðilegu markmiðum sem við setjum okkur. Hins vegar að það stuðli að því að við náum þeim efnahagslegu markmiðum sem við viljum ná. Þegar við horfum á þessi tvenns konar markmið þá verður ekki á móti því mælt að við höfum á grundvelli aflahlutdeildarkerfisins náð mjög góðum líffræðilegum árangri og við höfum náð mjög góðum efnahagslegum árangri. Okkar kerfi hefur til að mynda á vettvangi OECD verið borið saman að þessu leyti við önnur fiskveiðistjórnarkerfi. Og ýmiss konar athuganir sem hafa verið gerðar víðs vegar af fræðimönnum benda allar í þá átt að önnur kerfi hafi ekki skilað betri árangri varðandi þessi tvö atriði.

Okkur hefur tekist að byggja upp verðmætasta fiskstofninn, sem er þorskstofninn, með því að beita þessu kerfi. Allir aðrir stofnar sem eru í kerfinu og lúta okkar eigin stjórn eru í allgóðu ástandi. Það var vitað að rækjustofninn mundi minnka þegar þorskstofninn yxi. Það hefur oft verið bent á það í umræðum að við stöndum frammi fyrir erfiðleikum varðandi grálúðu og djúpkarfa. Það eru þau dæmi sem gjarnan eru tekin. Og þau eru einmitt mjög góð og mjög gott að taka þau inn í umræðuna vegna þess að þar er um að ræða stofna sem eru sameiginlegir með öðrum þjóðum og við ráðum því miður ekki yfir. Við höfum verið að vinna að því á undanförnum árum að ná samkomulagi við nágrannaþjóðir okkar um heildarstjórn á þessum stofnum en það hefur því miður ekki tekist. Ég tel að þetta sé mjög gott dæmi um að þarna eru stofnar þar sem þarf að beita virkri veiðistýringu og þar sem henni hefur ekki verið beitt, þar stöndum við frammi fyrir erfiðleikum.

Hvaða árangri höfum við náð efnahagslega? Ég veit að ég þarf ekki að rifja hér upp það ástand sem var áður en menn tóku upp markvissa stjórn í þessum efnum. Þegar nánast hvert einasta fyrirtæki í landinu stóð á brauðfótum. Það þurfti að gera ráðstafanir á þriggja mánaða fresti til að halda fyrirtækjunum gangandi. Það þurfti að taka peningana frá almenningi með gengislækkun og gengissigi á hverjum einasta degi. Það þurfti að flytja peninga frá almenningi yfir til útgerðarinnar. Síðan þurfti að koma upp ýmiss konar ríkisábyrgðum til þess að niðurgreiða vaxtakjör á lánum. Öllu þessu hefur verið breytt með þessu kerfi. Við höfum í dag sjávarútveg sem stendur á eigin fótum. Á síðustu átta árum hefur sóknin minnkað um 50% þó að við séum að veiða jafnmikið magn í heild og þá. Og veiði á sóknareiningu hefur aukist um 70% í netaveiðum og línuveiðum og um 40% í togveiðum. Við höfum með öðrum orðum verið að draga úr kostnaðinum við veiðarnar og með því móti skapað fjárhagslega sterka undirstöðu undir rekstri fyrirtækjanna. Aðrar þjóðir hafa verið með mikil styrkjakerfi ekki bara í rekstri heldur líka til þess að ná tökum á því vandamáli sem er talið vera stærsta vandamál í sjávarútveginum í dag, sem er of stór fiskiskipafloti. Þar er verið að leggja skatta á almenning til þess að kaupa skip af útgerðarmönnum í þeim tilgangi að fækka skipunum.

Við höfum notað markaðslögmálið til að ná þessum árangri og við höfum náð betri árangri að þessu leyti en flestar aðrar þjóðir sem hafa verið að styðjast við miðstýringarsjóði og fyrirgreiðslusjóði af ýmsu tagi til að ná árangri.

Efnahagslega hefur þetta þýtt að við búum við stöðugt gengi. Okkur hefur tekist að auka kaupmátt launa í landinu hraðar en aðrar þjóðir hafa gert á undanförnum árum. Og þegar menn koma hér og segja: Við viljum fara allt aðrar leiðir við að stjórna fiskveiðum, þá hljóta þeir að þurfa að svara þeirri spurningu: Eru menn tilbúnir til þess að fórna þessum efnahagslega árangri á kostnað þeirra óska? Og menn þurfa að fara yfir það og meta hvort þær leiðir skili sama efnahagslega árangri.

En enginn hefur komið hér upp og sýnt fram á það að aðrar leiðir skili meiri og betri efnahagslegum árangri en sú sem við höfum verið að fara. Og það er kannski einmitt þess vegna sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hika við það að leggja fram útfærðar tillögur en vísa bara í óljósar hugmyndir vegna þess að þeir vita að þegar búið er að leggja fram útfærðar hugmyndir þá er hægt að fara að bera efnahagslegan árangur af því saman við það sem við höfum verið að gera á undanförnum árum. Og það vilja þeir ekki að þjóðin sjái af því að þeir ætla auðvitað ekki að gerast boðberar þess að þeirra stefna leiði til lakari lífskjara í landinu. Ég ætla þeim ekki að vilja það. Þeir gera sér grein fyrir þessari hættu og þess vegna vilja þeir ekki setja fram útfærðar tillögur sem leggja má fyrir Þjóðhagsstofnun eða aðra aðila og fá fram mat á því hver efnahagslegur árangur yrði.

Það hefur verið minnst á það hér í umræðunni að nokkuð hafi skort á að menn hafi fengist til að ræða aðrar leiðir eftir dóm Hæstaréttar. Það er alrangt. Við 1. umr. málsins var öðrum kostum velt upp. Ég gerði það í ræðu minni við 1. umr. að velta upp öðrum kostum sem mögulegir eru eftir að dómur Hæstaréttar liggur fyrir. Dómur Hæstaréttar hefur útilokað ýmsar leiðir við stjórn fiskveiða sem sumir hafa haft áhuga á, sem sumar aðrar þjóðir fara þar sem sjávarútvegur er ekki uppistaða í efnahagslífi heldur aukabúgrein þjóða sem búa við ríkidæmi af öðrum ástæðum og geta leyft sér að styrkja sjávarútveg. En eftir dóm Hæstaréttar eru leiðirnar ekkert mjög margar. Það var farið yfir þær í umræðunni. Ein er sú að hafa frjálsa sókn í opnu kerfi því að nú er ekki hægt að hafa sóknarkerfi í lokuðum klúbbi. Það er fræðilega hægt að segja: Við setjum heildaraflamark. Það er öllum heimilt að koma inn sem nýir þátttakendur og svo stoppum við veiðarnar þegar heildaraflanum er náð. --- Allir vita að þetta gengur ekki upp efnahagslega enda hefur enginn lagt það til. Önnur leið væri sú að setja allar aflaheimildir á uppboð annaðhvort í einu lagi eða kannski fimm ára tímabili eins og sumir hafa nefnt hér, án þess að vilja útfæra það nákvæmlega hvernig þeir vilja gera það. Og þriðja leiðin er heimsendingarkerfið, að deila veiðiheimildunum upp á hverju ári og senda hverjum Íslendingi sinn skerf og leyfa svo mönnum að veiða eða selja eftir atvikum. Þetta eru þær þrjár leiðir. Ég hef lagt í það talsverða hugsun að reyna að finna það út en ég hef ekki heyrt menn nefna fleiri grundvallarleiðir í þessu efni. Ég hefði talið það mjög áhugavert að menn ræddu þessar mismunandi leiðir og afleiðingar af þeim samanborið við þann kost við höfum í dag.

Ég geri ráð fyrir því að menn vilji ekki eyða miklu púðri í frjálsa sókn í opnu kerfi af því að það þýðir bara efnahagslegt hrun. Uppboð á veiðiheimildum gæti í sjálfu sér gengið efnahagslega. Ég held að það sé alveg ljóst, a.m.k. ef menn væru að byrja alveg frá grunni, engin byggðasaga eða fjárfestingarsaga að baki. Þá væri það alveg hægt. Munurinn þar á er sá að úthlutun heimilda í núverandi kerfi byggðist á aflareynslu, sögulegum grunni í myndun byggða í landinu og fjárfestingar. Hinn kosturinn felst í því að segja: Þeir sem eiga mesta peninga, þeir fá aflaheimildirnar. Það er út af fyrir sig mjög athyglivert að það eru talsmenn jafnaðarmanna sem segja: Burt með hinn sögulega þátt, burt með byggðaþróunarbakgrunninn. Bara þeir sem eiga mesta peninga fá veiðiheimildirnar í sínar hendur.

Ég er hins vegar ansi smeykur um það að ef við færum þessa leið þá mundu ýmsir kippast við. Hvernig ætli samkeppnisstaða trillukarlsins yrði til að halda veiðiheimildum sínum þegar hann þyrfti að fara að bjóða í þær á móti Samherja, Eimskipafélaginu eða Íslenskri erfðagreiningu eða hverjum sem er sem dytti í hug að bjóða í fiskveiðiheimildirnar? Hvernig halda hv. þm. að aðstaðan yrði á mörgu sjómannsheimilinu sem átt hefur lífsafkomu sína undir trilluútgerðunni þegar trillukarlinn kæmi heim og segði: Það var uppboð fyrir þetta árið. Eimskip keypti aflaheimildirnar. Nú skulum við bara bíða róleg, það getur vel verið að ég nái aflaheimildunum frá Eimskip á næsta ári.

Þetta er það sem jafnaðarmenn segja að sé hið nýja réttlæti. Má vel vera að einhverjum sýnist að svo sé. Ég dreg hins vegar í efa að í þessu felist mikið réttlæti. (Gripið fram í.) Ég segi líka að þetta mun ekki bara hafa áhrif á aðstöðu trillukarla. Þetta mun hafa áhrif á stöðu ýmissa minni fyrirtækja í sjávarútvegi. Í minni sjávarplássum eru víða fyrirtæki sem í dag byggja ekki á mjög sterkum fjárhagslegum grunni. Þetta veikir samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja og þessara byggða. Ef við værum að byrja alveg frá grunni og hefðum enga slíka fortíð, þá væri þetta vissulega hægt efnahagslega. En ég er alveg kristalklár á því að ástæðan fyrir því að jafnaðarmenn leggja ekki fram útfærðar tillögur um þetta efni er sú að um leið og það væri gert og þær væru sendar til umsagnar út um þjóðfélagið þá fengju þeir mjög heiftarleg viðbrögð einmitt af því tagi sem ég er að lýsa hér. Það vilja þeir auðvitað ekki og þess vegna hlaupa þeir undan í felur og segja: Það er óþarfi að gera nokkurn skapaðan hlut fyrr en eftir fjögur ár. Þetta er það sem þeir ætla að segja fólkinu í kosningunum í vor: Við erum klárir á því að þetta þarf allt saman að vera öðruvísi. Við erum alveg klárir á því að þetta þarf að byggjast á réttlæti. En við ætlum að geyma það í fjögur ár að segja ykkur hvernig það á að útfærast. Það er boðskapurinn sem þessir hv. þm. ætla að fara með í kosningarnar og verði þeim svo sem að góðu, ég er ekki að gráta það.

Vissulega er það kerfi sem við búum við í dag markaðskerfi og það hefur haft ákveðin áhrif í þá veru að aflaheimildir hafa færst saman. Það eru færri aðilar sem gera út og þar fram eftir götunum. En lykilatriðið er hitt að ef menn tækju ákvörðun um það í dag að taka veiðiréttinn af þeim sem eru að veiða núna og fara að bjóða hann upp þá mundu menn skilja mörg fyrirtæki eftir í rústum, mörg byggðarlög eftir í rústum og kollvarpa hér félagslegri og byggðalegri þróun í landinu. Þetta vita talsmenn jafnaðarmanna og þess vegna vilja þeir ekki setja fram útfærðar tillögur af þessu tagi sem kláran valkost.

[15:45]

Hitt er svo allt annað mál hvaða gjöld eigi að leggja á sjávarútveginn. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að sjávarútvegurinn, eftir því sem þetta kerfi skilaði betri árangri, greiddi fyrir kostnað sem ríkisvaldið hefur af stjórn og ýmsum öðrum þáttum. Þannig var það að þegar kerfið fór af stað á sínum tíma var ákveðið að leggja gjald á aflaheimildirnar sem stóðu undir helmingnum af eftirlitskostnaðinum. Þetta hefur svo smám saman verið aukið eftir því sem kerfið hefur leitt til meiri og betri efnahagslegs árangurs. Núna hefur það til að mynda verið svo í nokkur ár að lagt er gjald á aflaheimildirnar sem stendur undir öllum eftirlitskostnaði og síðan kostnaðinum við Þróunarsjóðinn. Þetta jafngildir því að verið sé að greiða fyrir eftirlit og vísindarannsóknir. Ég tel þetta vera mjög eðlilega skipan og þegar verið er að ræða um gjaldtöku af sjávarútveginum að þá sé rétt og eðlilegt að horfa á þennan kostnað og að útgerðin greiði hann.

Enn sem komið er eru aðstæður þó slíkar í íslenskum sjávarútvegi að hagnaður greinarinnar er minni en í öðrum atvinnugreinum. Þó setja menn á þessar stóru tölur um mestu eignatilfærslu aldarinnar og ég veit ekki hvað og hvað. Enn er það samt svo, þrátt fyrir þessi verulegu efnahagslegu umskipti, að hagnaðurinn er minni. Og þó að eiginfjárstaða fyrirtækja í sjávarútvegi hafi batnað til mikilla muna þá er hún enn lægri að meðaltali en í öðrum atvinnugreinum.

Er nú ekki mjög mikilvægt að menn hugsi svolítið um samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs áður en þeir setja fram hugmyndir af því tagi að henda hér öllu á uppboð eða að leggja á nýja og mikla skatta? Ég held að full ástæða sé til að gera það því að efnahagur þjóðarinnar er undir því kominn að sjávarútvegurinn hafi sterka samkeppnisstöðu.

Herra forseti. Þessar leiðir eru fyrir hendi og það hefur ekki staðið á nokkrum manni að taka þátt í umræðum um þessa mismunandi kosti. Ég gerði það í ræðu minni við 1. umr. og ég er að benda á þessa kosti hér og nú. En ég vek athygli á því að þeir sem tala utan að því að fara þessar leiðir vilja ekki útfæra þær, þeir vilja ekki leggja þær fram, af augljósum ástæðum sem ég skil og ég veit að almenningur í landinu skilur einnig.

Herra forseti. Ég held að ég hafi þá farið yfir þau atriði sem mér finnst að umræðan hér í dag hafi gefið tilefni til. Frv., eins og það er lagt fram, er viðbrögð við dómi Hæstaréttar. Það felur ekki í sér heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Þau þurfa að vera í stöðugri endurskoðun, aðlögun að nýjum aðstæðum. Við erum að fást við duttlungafulla náttúru og löggjöfin hlýtur alltaf að taka mið af því. Löggjöfin hefur verið í stöðugri endurskoðun og við höfum verið að bæta hana eftir því sem hlutunum hefur undið fram. Ég vona að á komandi árum muni það einnig gerast með ábyrgum og markvissum hætti.

Það er mjög mikilvægt og þýðingarmikið fyrir þjóðarbúskapinn á Íslandi að við höfum meginmarkmiðin í huga, að við verðum að standa skynsamlega og með ábyrgð að vernd og uppbyggingu fiskstofnanna. Við verðum að nota kerfi sem tryggir það að við náum þeim markmiðum sem við setjum okkur í þeim efnum og við verðum að nota skipulag sem gerir það að verkum að við njótum trúnaðar og trausts í alþjóðlegu samfélagi að þessu leyti vegna þess að við erum skuldbundin til þess og markaðirnir eru í auknum mæli að gera kröfur til þess að við sýnum fram á það, eins og aðrar fiskveiðiþjóðir, að við stöndum með ábyrgum hætti að okkar fiskveiðum.

Að hinu leytinu verður kerfið að skila þeim efnahagslegu markmiðum sem við setjum okkur. Við þurfum um langa framtíð að byggja afkomu okkar að langmestum hluta til á sjávarútvegi og þess vegna verðum við að minni hyggju að styðja við markaðskerfi sem skilar hámarksafrakstri til þjóðarbúsins eins og gerst hefur á undanförnum árum. Ef við getum þróað stjórn fiskveiðanna og þessi mál á komandi árum á þann hátt mun okkur vel farnast.

En hitt er alveg ljóst að við erum að fjalla um takmarkaða auðlind og það verður alltaf mikil hagsmunatogstreita um málefni sjávarútvegsins. Menn munu aldrei setja löggjöf þannig að menn geti sagt að þeir hafi leyst málefni sjávarútvegsins í eitt skipti fyrir öll eða gert alla sátta í eitt skipti fyrir öll af því að hér eru miklir hagsmunir, af því að hér er takmörkuð auðlind og það verður aldrei þannig að allir geti nýtt hana á sama tíma. Þann aðgang verður að takmarka af náttúrulegum ástæðum. En ég tel að við höfum verið að þróa skynsamlegt kerfi í þessu efni og er sannfærður um að okkur muni takast það á komandi árum.