Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 15:54:39 (3083)

1999-01-13 15:54:39# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[15:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Tillögumaður er reyndar á mælendaskrá og er fullfær um að verja sig sjálfur, eins og menn þekkja sem kunna af hans störfum að segja hér á þinginu. En ég hygg að þetta sé útúrsnúningur og heldur ómerkilegur útúrsnúningur og jafnvel ekki samboðinn hæstv. sjútvrh. og er hann þó þaulvanur Heimdellingur, eins og kunnugt er. Þessi tillaga var að sjálfsögðu í samhengi við endurskoðun og mögulegar miklu víðtækari breytingar á lögunum beint í kjölfarið, e.t.v. strax í vor eða næsta haust, heldur en þessi lágmarksviðbrögð ríkisstjórnarinnar. Það stendur síst á hæstv. sjútvrh. að vera með þessa útúrsnúninga, sem er að reyna að taka þátt í því að læða hér lágmarksviðbrögðum í gegn, þannig að menn sleppi fyrir horn með dóm Hæstaréttar. Það er jú það sem ríkisstjórnin er að reyna.

Að vera svo að ráðast á stjórnarandstöðuna úr þessari átt og setja þar alla undir sömu sök, það er enginn málflutningur. Auðvitað kallar þessi ræða hæstv. sjútvrh., eða hefði getað gert það, á miklar umræður, herra forseti. Ég veit að hæstv. forseta er það ljóst, því hæstv. ráðherra gaf heldur betur upp boltann.