Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:00:09 (3088)

1999-01-13 16:00:09# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Það er alveg kórrétt og ég tók það fram í ræðu minni að það kerfi sem við búum við í dag er markaðskerfi. Það hefur leitt til þess að breytingar hafa orðið á eignaraðild. Það eru færri fyrirtæki sem starfa í dag. Það eru hins vegar mörgum sinnum, þúsund sinnum fleiri eigendur að þeim fyrirtækjum en áður. Miklar og ánægjulegar breytingar. En það sem ég var að benda á var hitt að ef setja á veiðiheimildirnar á uppboð, taka veiðiréttinn af þeim sem eru með hann í dag, þarf að taka hann af trillukörlunum, þá þarf að setja hann á uppboð og þá geta þessir stóru aðilar náð þessum veiðirétti til sín. Ákveðin vörn er í því í dag fyrir þá sem fengu þennan veiðirétt á grundvelli reynslu að þeir geta haldið honum áfram. Þeir þurfa ekki að sækja hann á uppboði gagnvart fjársterkustu aðilunum á hverju einasta ári. Mér finnst svolítið réttlæti í því að setja lífsafkomu þeirra ekki á uppboð á hverju einasta ári. Mér finnst vera svolítið réttlæti í því, a.m.k. pínulítið.