Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:02:44 (3090)

1999-01-13 16:02:44# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Veiðirétturinn er takmarkaður og það var alltaf ljóst varðandi þetta sóknardagakerfi þar sem menn voru að veiða í sameiningu og einn gat aukið veiði sína á kostnað annars að það mundi leiða til fækkunar daga. Við höfum átt í löngum viðræðum í vetur um að lengja aðlögun smábátaflotans að þessari bitru staðreynd. Þeir sem velja þessa leið inn í sóknardagakerfið eftir nýju reglunum sem verið er að fjalla um munu lenda í sömu gildrunni. En hitt er aðalatriðið að ég tel að svolítið sé réttlæti í því að þessi réttur sé ekki tekinn af mönnum og settur á uppboð. Ég er ekkert að segja að þetta sé óskaplega mikið réttlæti en mér finnst þetta vera svona pínulítið réttlæti og ég á óskaplega erfitt með að skilja hvernig talsmenn jafnaðarmanna henda því algjörlega út um gluggann og halda því fram að trillukarlarnir verði að sækja rétt sinn á móti stórfyrirtækjunum í uppboði á hverju einasta ári.