Heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:50:36 (3131)

1999-02-02 13:50:36# 123. lþ. 57.96 fundur 221#B heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:50]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. málshefjanda er ekki annað hægt en að spyrja: Hverju er hv. þm. á móti? Hvað kom hv. þm. á óvart?

Það hafa verið vandamál í heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði og lausna á þeim vanda hefur verið leitað. Einn þáttur í lausnum á þeim vanda hefur verið frumkvæði bæjarins til að leggja fram hugmyndir um að Hafnarfjörður yrði reynslusveitarfélag á heilbrigðissviðinu. Eins og nú hefur komið fram hefur verið undirrituð viljayfirlýsing. Þar er um betri leið að ræða til að finna hagkvæma lausn á málefnum heilbrigðisþjónustunnar í Hafnarfirði en þá að gerast reynslusveitarfélag.

Ég verð eiginlega að spyrja hv. þm.: Hverju er hann á móti? Er hann á móti því að Hafnarfjörður hafi ríkari áhrif á stjórn heilbrigðismála í bænum? Er hann á móti því að Hafnfirðingar hafi meira um stjórn Sólvangs, stjórn heilsugæslunnar og stjórn St. Jósefsspítala að segja? Er hann á móti því að þeir sem eiga að njóta þjónustunnar hafi meiri áhrif á það hvernig henni er stýrt og hvernig hún er veitt en þeir hafa í dag? Um það snýst þetta mál. Það snýst ekki um það að hv. þm. er í prófkjöri, ég ætla að biðja ykkur að muna það. Það snýst um að heilsugæslan og heilbrigðisþjónustan í Hafnarfirði skiptir máli.

Varðandi það að bæjarstjórinn hafi verið umboðslaus þegar hann skrifaði undir viljayfirlýsingu --- ja, það má sjálfsagt deila um allt og toga allt saman. Ég ætla að minna hv. þingheim á það að samningur um yfirfærslu Sjúkrahúss Reykjavíkur frá Reykjavíkurborg til ríkisins, sem borgarstjórinn í Reykjavík undirritaði, hefur ekki enn þá verið tekinn fyrir í borgarráði eða borgarstjórn. (GÁS: Er það betra?)