Heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:59:04 (3135)

1999-02-02 13:59:04# 123. lþ. 57.96 fundur 221#B heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er ákaflega merkilegt að heyra viðbrögð hv. þingmanna stjórnarliða úr Reykjaneskjördæmi, þingmannsins Sivjar Friðleifsdóttur, Kristjáns Pálssonar og Árna Mathiesens. Þeim finnst það augljóslega óþarft mál og fyrir neðan virðingu Alþingis að ræða um framtíðarskipan heilsugæslumála í Hafnarfirði. Það er bara smámál sem kemur okkur ekkert við og til komið vegna prófkjörs einhvers staðar.

Það skiptir engu þó 400 manns heyri í útvarpi að þeir eigi að vinna hjá annarri stofnun innan tíðar. Það skiptir engu máli þó ábyrgir aðilar ræði að hugsanlega eigi að einkavæða hluta stofnunarinnar, það eigi hugsanlega að breyta eðli hennar. Nei, þetta er bara smámál sem kemur okkur ekki við. Þetta segir margt, herra forseti, um þá ágætu stjórnarliða og segir margt um stöðu kjördæmisins, Reykjaneskjördæmis í heild, að þessi mál skuli vera í þeirra höndum.

[14:00]

Ég vind mér að kjarna málsins sem er þessi: Er það framtíðarstefna heilbrrn. og heilbrrh. að fara þá leið að slá saman stórum stofnunum, eðlisólíkum, eins og hér um ræðir, og gera við þær opna þjónustusamninga þannig að sveitarfélög eða hugsanlega aðrir aðilar geti farið með þann rekstur eins og þeir vilja? Ég hef dálitlar efasemdir um það og vil hafa frekari tryggingar í hendi. Og ég árétta að þótt sumpart hafi verið illa að málum staðið af hálfu heilbrrn. gagnvart þessum sjúkrastofnunum í Hafnarfirði og víðar vegna fjárskorts þá er rekstur þar og hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Hafnfirðingar hafa kallað eftir friði. Þeir vilja frið um þessar góðu stofnanir sínar, og það árétta ég, en vilja ræða nýjar leiðir fyrir opnum tjöldum en ekki bak við luktar dyr. Það er kjarni málsins. Því segi ég, virðulegi forseti, og það skulu verða mín lokaorð: Ég skil þessa umræðu þannig að hæstv. heilbrrh. hafi gefið vilyrði og fyrirheit um að þessar breytingar, þessi þjónustusamningur, þýði aukið fjármagn í þessa þjónustu á þessu tiltekna svæði, Hafnarfjarðarsvæðinu. Hafi ég skilið það rangt þá verð ég leiðréttur. En meðan svo er ekki þá er það minn skilningur og niðurstaða þessarar umræðu. Og fyrir það er ég þakklátur.