Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:40:18 (3210)

1999-02-03 13:40:18# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til þess að hefja umræðu um ástandið í málefnum aldraðra, þ.e. hjúkrunarrýmin, nú á ári aldraðra. Það hefur auðvitað oft verið rætt í þinginu og vissulega hefur verið reynt að bæta úr ástandinu en því miður eru 177 í mjög brýnni þörf í Reykjavík og bíða eftir hjúkrunarrýmum. Miðað við að þeir séu 222 á öllu landinu þá er þetta mjög stór vandi bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Það að komin séu rými í Ási í Hveragerði, þ.e. 26 ný rúm, tel ég ekki leysa vandann í Reykjavík því að ég tel óeðlilegt að Reykvíkingar séu fluttir hreppaflutningum í hjúkrunarrými til sveita. Ég vil því leggja áherslu á að við leysum þennan vanda innan Reykjavíkur og í nágrannabyggðum Reykjavíkur en flytjum ekki fólk þetta langt. Við þekkjum það að margir eiga erfitt með að heimsækja sína nánustu langar leiðir og þess vegna vil ég leggja áherslu á að þessi vandi verði leystur á höfuðborgarsvæðinu.