Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:59:21 (3218)

1999-02-03 13:59:21# 123. lþ. 58.2 fundur 175. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vekur hér máls á ferðakostnaðarreglum almannatrygginga sem er full ástæða til að vekja athygli á. Þær koma mjög illa niður á mörgum fjölskyldum sem eiga við þann vanda að etja að eiga börn sem eru sjúk eða hafa lent í vímuefnavanda eins og hv. þm. benti á. Og ég vil, herra forseti, spyrja hæstv. ráðherra: Hyggst hún breyta þessum reglum? Þær eru mjög ósanngjarnar og þetta er mjög þungur baggi á þeim sem þurfa að fara á milli landshluta til að fá þjónustu fyrir þessi börn eða unglinga. Vitjun einu sinni í viku er auðvitað fyrir neðan allar hellur og að greitt sé fyrir vitjun einu sinni í viku, eins og kom fram í umræðunni t.d. bara um fæðingarorlofsgreiðslurnar og fyrirburana, er ekki forsvaranlegt. Að greiða foreldri einu sinni í viku fyrir að vitja barns á spítala ef það þarf að fara lengri leið en fimmtán kílómetra er náttúrlega ekki forsvaranlegt og fyllilega komin ástæða til að endurskoða þessar reglur.

Og ég spyr, herra forseti, hæstv. ráðherra: Hyggst hún ekki taka þessar reglur til endurskoðunar og breyta þeim í réttlætisátt?