Rannsóknir Margrétar Guðnadóttur

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:24:52 (3229)

1999-02-03 14:24:52# 123. lþ. 58.5 fundur 312. mál: #A rannsóknir Margrétar Guðnadóttur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:24]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir það að þær merkilegu rannsóknir sem prófessor Margrét hefur gert á dýrum munu án efa eftir eiga eftir að gagnast mannkyninu líka. Það er ekki nokkur spurning. Spurningin er bara hvenær. Því er mikilvægt að þannig sé búið að slíkum vísindamönnum að þeir geti haldið áfram að þróa starfsemi sína. Ég er alveg viss um að vísindasjóðir munu taka myndarlega til hendinni eins og þeir hafa oft gert áður. Það snýr ekki beint að heilbrrn. en við höfum þó fylgst með af mikilli athygli. Eins og fram kom í fyrra svari mínu, þá tel ég mjög mikilvægt, þrátt fyrir það að hún fylli nú 70 ára aldurinn mjög bráðlega, að hún haldi áfram vinnu sinni. Þess vegna tókum við það sérstaklega upp að styrkja störf hennar fjárhagslega þó ekki væri til visnurannsókna heldur til rannsókna á rauðum hundum.