Námskrárgerð

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:54:36 (3242)

1999-02-03 14:54:36# 123. lþ. 58.9 fundur 318. mál: #A námskrárgerð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Endurskoðun aðalnámskráa er nú á síðasta verkþrepi. Ritun námskráa fyrir einstakar greinar grunn- og framhaldsskóla lauk í byrjun desember en nú er unnið að samræmingu, frágangi, hönnun og prentun á námskrám beggja skólastiga. Formlegt útgáfuferli námskránna beggja hófst í raun 1. janúar sl. Um 35 vinnuhópar, um 70 einstaklingar, störfuðu að námskrárrituninni á síðustu stigum hennar og hafa nær allir lokið störfum. Samtök kennara gengust fyrir tilnefningum í vinnuhópana í vor og gekk vel að leysa það umfangsmikla og flókna verkefni. Formlegir umsagnaraðilar í námskrárvinnunni hafa sent inn viðbrögð sín við nýrri skólastefnu sem ég kynnti síðasta vor en á henni byggir endanlegur frágangur námskránna.

Óhætt er að segja að hinni nýju stefnu hafi verið jafn vel tekið af umsagnaraðilum og flestum öðrum. Í grundvallaratriðum lýsa umsagnaraðilar yfir stuðningi við skólastefnuna en leggja jafnframt fram ábendingar um einstök atriði stefnunnar eða gera tillögur um nánari útfærslu hennar. Í þessu sambandi má m.a. nefna ábendingar um viðmiðunarskrá og valfrelsi nemenda í grunnskóla; aðlögun náms að lokatakmarki; skipulag á kjörsviðum bóknámsbrauta, einkum vegna fjölda eininga í stærðfræði; inntökuskilyrði í framhaldsskóla og skipulag starfsnáms.

Sérstök samráðsnefnd sem skipuð var til að fylgja námskrárvinnunni til verkloka hefur tekið þátt í lokafrágangi verksins og hefur hún lokið störfum en í henni sátu fulltrúar Hins íslenska kennarafélags, Kennarasambands Íslands, Skólastjórafélags Íslands, Skólameistarafélags Íslands auk fulltrúa sveitarfélaga, foreldra og nemenda. Ætlunin er að námskrár beggja skólastiga taki formlega gildi fyrir upphaf næsta skólaárs, 1999--2000, en komi til fullra framkvæmda á þriggja til fjögurra ára tímabili.

Varðandi aðra spurningu hv. þm. vil ég segja að í nýrri námskrá framhaldsskóla miðast kennslumagn og uppbygging bóknámsbrauta við fjögurra ára nám eins og áður. Á hinn bóginn opnar ný skólastefna fyrir möguleika einstakra framhaldsskóla til að bjóða upp á sama nám á þremur árum. Þegar hafa nokkrir skólar lýst áhuga á að taka upp slíka námsskipan.

Að því er þriðju spurninguna varðar er ljóst að stytting á námi til stúdentsprófs er afar flókið viðfangsefni sem getur haft mikil áhrif á inntak og rekstur skólakerfisins. Þar sem ekki liggur fyrir að nám á bóknámsbrautum verði almennt stytt í þrjú ár, hefur menntmrn. enn sem komið er ekki rannsakað til hlítar mögulegar breytingar á rekstrarkostnaði framhaldsskóla. Taki einstakir skólar upp þriggja ára nám til stúdentsprófs, en á því eru líkur eins og fram hefur komið, mun ráðuneytið óska eftir að fá að fylgjast grannt með framvindu mála, bæði með tilliti til faglegra þátta, gæða kennslunnar og reksturs viðkomandi skóla. Þegar hin nýja skólastefna var kynnt á sl. vori var tekið fram að ekki væri ætlunin að hrinda samtímis í framkvæmd nýjum námskrám fyrir grunnskólann og framhaldsskólann og stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú ár, heldur ættu menn fyrst að ljúka námskrárgerðinni, taka mið af því stefnumarki við gerð hennar að framhaldsskólinn yrði þrjú ár þegar fram liðu stundir. Ætlunin var ekki að gera þessar breytingar samtímis, þ.e. að hrinda nýjum námskrám í framkvæmd og stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú.