Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 10:38:08 (3291)

1999-02-04 10:38:08# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 582 frv. til útvarpslaga. Frumvarp þetta er samið á vegum menntmrn. Drög að því voru send 30 aðilum til umsagnar. Umsagnir bárust frá sex aðilum og gerðu umsagnaraðilar allmargar athugasemdir við frumvarpsdrögin í umsögnum sínum, og hefur við endanlega samningu frumvarpsins verið höfð hliðsjón af mörgum ábendingum þeirra um atriði sem betur máttu fara.

Í frv. er sú leið farin að leggja fram frumvarp til nýrra útvarpslaga í stað breytinga á einstökum ákvæðum. Þykir það skýrara af ýmsum ástæðum. Um er að ræða nokkuð margar breytingar, þótt misþýðingarmiklar séu, lagðar eru til breytingar á lagagreinum sem áður hefur verið breytt og gert er ráð fyrir nokkurri breytingu á tæknilegri skipulagningu laganna.

Að stofni til byggist frumvarp þetta á núgildandi útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.

Með frv. er ætlunin að mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði hljóðvarp og sjónvarp. Ekki er gert ráð fyrir að í rammalöggjöf um útvarpsstarfsemi verði að finna sérákvæði um Ríkisútvarpið heldur er miðað við að um Ríkisútvarpið gildi sérlög og það er ekki hróflað við þeim ákvæðum í núgildandi útvarpslögum sem snerta Ríkisútvarpið sérstaklega. En almenn ákvæði í þessari nýju rammalöggjöf um útvarpsstarfsemi munu þó gilda um Ríkisútvarpið nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum um Ríkisútvarpið.

Með endurskoðun útvarpslaganna sem fram fór síðast á árinu 1993 var að mestu leyti tekið tillit til fyrirmæla í tilskipun Evrópusambandsins um samræmdar reglur um sjónvarpsþjónustu samkvæmt tilskipun frá árinu 1989. Nú hefur verið gerð breyting á þeirri tilskipun með samþykkt sérstakrar tilskipunar á árinu 1997.

Einn megintilgangur frv. er að færa íslenska löggjöf til samræmis við hinar nýju reglur Evrópusambandsins og var hin nýja breytingatilskipun birt hinn 30. júlí 1997 í stjórnartíðindum Evrópusambandsins og átti að koma til framkvæmda í öllum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 30. desember sl. Þegar síðast var spurst fyrir um það var þó ekki búið að samþykkja tilskipunina í sameiginlegu EES-nefndinni en gert er ráð fyrir að það verði gert á næstunni.

Framangreindar tilskipanir taka samkvæmt efni sínu aðeins til sjónvarpsmála en ekki þeirra þátta sem varða hljóðvarp. Í frv. því sem hér er mælt fyrir er þó gert ráð fyrir að það gildi um sjónvarp og hljóðvarp eftir því sem það á við. Vegna aðlögunar íslenskrar útvarpslöggjafar að reglum Evrópusambandsins eru í frv. þessu lagðar til eftirtaldar breytingar á einstökum ákvæðum útvarpslaga.

Í fyrsta lagi er um að ræða skýrari ákvæði um lögsögu íslenskra útvarpslaga. Í frv. er lagt til að sett verði skýr ákvæði um það til hvaða sjónvarpssendinga íslensk lögsaga nær samanber 2. gr. frv. Ákvæði um þetta efni eru ekki í núgildandi útvarpslögum. Við gerð lögsögureglnanna hefur verið tekið mið af niðurstöðum dómsmála sem risið hafa innan ESB um túlkun lögsögu og reglna ESB. Byggt er á tveimur grundvallarsjónarmiðum:

1. Sjónvarpsstöðvar innan hvers aðildarríkis EES eigi að hafa frelsi til þess að sjónvarpa til allra annarra aðildarríkja.

2. Sjónvarpsútsendingar skulu vera heimilar um allt Evrópska efnahagssvæðið svo framarlega sem útsendingar eru í samræmi við löggjöf útsendingar ríkisins.

Í öðru lagi er almenningi tryggður aðgangur að dagskrá um þýðingarmikla atburði. Það nýmæli breytingartilskipunar ESB frá árinu 1997 sem hvað mesta athygli hefur vakið er ákvæði er veitir heimild fyrir hvert aðildarríki EES til þess að gera skrá um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda skuli út í dagskrá sem meginhluti almennings hefur aðgang að þrátt fyrir að sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum. Í reynd mun heimild þessi a.m.k. að sinni fyrst og fremst geta átt við meiri háttar íþróttaviðburði, innlenda og fjölþjóðlega, svo sem landskeppni, Ólympíuleika, heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu og handknattleik.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir að ákveðið verði með lögum til hvaða viðburða heimild þessi tekur heldur er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um þetta efni samanber 23. gr. frv. Rétt er að árétta það sem kemur fram í athugasemdum við frv. að gert er ráð fyrir því að sjónvarpsstöð uppfylli það skilyrði að hún nái til meginhluta þjóðarinnar ef hin tiltekna útsending nær til a.m.k. 90% allra landsmanna. Gerir þetta að verkum að allar þrjár helstu sjónvarpsstöðvar landsins uppfylla þetta skilyrði, svo framarlega sem útsendingar þeirra eru opnar. Með þessu móti eru afskipti af samkeppni á sjónvarpsmarkaði í lágmarki. Auk þess verða það tiltölulega fáir viðburðir sem skráin um viðburðina getur náð til. Íslenska ríkinu er ekki skylt samkvæmt tilskipuninni að nýta þessa heimild, en rétt þykir að tryggður sé í lögum möguleikinn á að gera það vegna hins mikla áhuga sem ríkir hér á landi á sjónvarpsefni frá meiri háttar íþróttaviðburðum.

Í þriðja lagi er markmiðið að efla framleiðslu evrópsks dagskrárefnis. Lagt er til að tekin verði upp regla þess efnis að sjónvarpsstöðvar skuli eftir því sem unnt er sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til gerðar evrópskra verka, þar á meðal íslenskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Þetta ákvæði er fyrst um sinn aðallega stefnuyfirlýsing en með því að Menningarsjóður útvarpsstöðva verður lagður niður samkvæmt frv. verður sjónvarpsstöðvum gert auðveldara að fara eftir þessu ákvæði.

[10:45]

Þá eru settar skýrari reglur um auglýsingar og kostun. Lagt er til að reglur um auglýsingar og kostun verði gerðar nokkru skýrari en verið hefur. Auk þess er bætt inn ákvæðum um fjarsölu og fjarsöluinnskot, og gilda í meginatriðum sömu reglur um þessi efni og gilda um auglýsingar.

Loks er tekið inn í frv. samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins ákvæði um vernd barna. Lagt er til að tekin verði upp ákvæði um vernd barna gegn óheimilu efni. Eiga ákvæðin að styrkja gildandi íslensk lög um það efni, sem og um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum, og er þeim ákvæðum ætlað að vera til fyllingar ákvæðum samkeppnislaga.

Þetta eru þau ákvæði, herra forseti, sem sérstaklega lúta að tilskipun Evrópusambandsins og taka mið af henni og ég sé ástæðu til að tíunda hér. Í frv. er einnig að finna önnur atriði sem ég nefni ekki í þessari framsöguræðu minni en snerta þennan þátt málsins einnig.

Þá ætla ég að rekja nokkur atriði sem eru í útvarpslagafrv. án þess að þau séu í sjálfu sér hluti af hinum evrópska rétti sem okkur ber að taka tillit til við setningu laga af þessum toga.

Það er í fyrsta lagi undirbúningur að stafrænu útvarpi. Það nýmæli er í frv. að lagt er til að menntmrh. verði heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi. Stafrænt útvarp, sjónvarp og hljóðvarp, er nú hafið í nágrannalöndunum eða er u.þ.b. að hefjast, a.m.k. á tilraunastigi. Hin stafræna tækni gefur mikla möguleika til betri nýtingar tíðnisviðsins en nú og er þannig m.a. meginforsenda þess að fleiri eigi þess kost að hefja raunverulega samkeppni, sérstaklega í sjónvarpi, auk víðtækari nota af tíðnisviðinu. Þar sem öll nýting VHF-tíðnisviðsins er nú í raun og veru aðeins í höndum tveggja aðila, Ríkisútvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins hf., komast fleiri aðilar ekki að þar. Auk betri nýtingar á tíðnisviðinu mun sá kostur fylgja stafrænu útvarpi að gæði útsendinga aukast til mikilla muna auk fjölmargra annarra kosta, svo sem að skapa möguleika á þáttasölusjónvarpi og kvikmyndapöntun. Hin stafræna tækni er forsenda hins svokallaða samruna sjónvarps, fjarskipta og tölvutækni í eitt svið með óljósum landamærum eða án landamæra. Þessi þróun er ekki aðeins tæknilegs eðlis heldur snertir hún alla þætti sjónvarpsþjónustu, þar með talin ný efnistök við gerð dagskrárefnis, innra skipulag stofnana eða fyrirtækja sem framleiða og dreifa sjónvarpsefni og breytt áhorf sjónvarpsnotenda með möguleikum á gagnvirkum samskiptum. Þannig snertir þróunin bæði menningarlega og iðnaðarlega hagsmuni. Gera verður ráð fyrir að það taki nokkurn tíma að taka hina stafrænu tækni í notkun, a.m.k. nokkur ár og hafi í för með sér verulegan stofnkostnað.

Þá eru í frv. einnig fyllri ákvæði en áður um útgáfu útvarpsleyfa til einkaaðila. Í frv. er gert ráð fyrir að ákvæðin um leyfi til útvarps séu gerð fyllri í lögunum en þau hafa verið. Eru tekin upp í frv. ýmis ákvæði um þetta efni sem verið hafa í reglugerð en réttara þykir að mæla fyrir um í lögum. Jafnframt er lagt til að hlutverk útvarpsréttarnefndar verði aukið frá því sem verið hefur. Skal útvarpsréttarnefnd fylgjast með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt, eins og verið hefur, og hafa að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu, þar með talið Ríkisútvarpsins. Er það breyting frá því sem verið hefur.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir að leyfi útvarpsréttarnefndar þurfi til endurvarps frá erlendum sjónvarpsstöðvum, heldur verði það Póst- og fjarskiptastofnun sem úthlutar rásum fyrir endurvarp. Er þetta enn fremur breyting frá því sem gilt hefur.

Þá er fjallað um aðgang útvarpsstöðva að fjarskiptanetum. Lagt er til að tekið verði upp ákvæði í útvarpslög sem tryggir útvarpsstöðvum aðgang að almennum fjarskiptanetum sem hagnýtt eru til útvarpssendinga. Hefur þótt skorta ákvæði í útvarpslög um rétt útvarpsstöðva til aðgangs að kapalkerfum, og er úr því bætt með þessu ákvæði. Meðal annars er ætlunin að tryggja útvarpsstöðvum aðgang að breiðbandi Landssímans. Með þessu ákvæði er útvarpsstöðvum veitt sama staða og rekstrarleyfishöfum samkvæmt fjarskiptalögum. Um aðgang útvarpsstöðva að fjarskiptanetum fer að öðru leyti samkvæmt fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, þar á meðal um ákvörðun endurgjalds fyrir aðganginn.

Þá er í frv. lagt til að það verði gerð skýrari skil milli útvarpslaga og fjarskiptalaga. Lagt er til að felld verði brott úr útvarpslögum nokkur ákvæði er varða tengsl útvarpslaga og fjarskiptalaga. Er hér m.a. um að ræða ákvæði er varðar lagningu og not þráðar til útvarps, móttöku útvarpsdagskrár um gervitungl og heimild útvarpsstöðva til að reisa sendistöðvar o.fl. Með hliðsjón af fjarskiptalögum frá 1996 þykja þessi ákvæði nú óþörf í útvarpslögum, enda fjalla þau fyrst og fremst um málefni sem heyra undir fjarskiptayfirvöld.

Loks er lagt til, herra forseti, að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður. Sjóðurinn hefur verið mjög umdeildur, sérstaklega fjármögnun sjóðsins og ráðstöfun á fé hans, en hún hefur í raun og veru aðeins falist í því að færa fé á milli útvarpsstöðva. Þar sem í gildandi ákvæðum um Menningarsjóðinn er gert ráð fyrir að hlutur Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands greiðist af framlagi Ríkisútvarpsins til sjóðsins þarf að huga sérstaklega að fjáröflun til rekstrar hljómsveitarinnar í tengslum við rekstur Ríkisútvarpsins og hafa þegar farið fram umræður og viðræður á milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins um það málefni.

Varðandi stuðning við kvikmyndagerð og þá þætti sem Menningarsjóður útvarpsstöðva hefur sinnt þá minni ég á að hinn 19. des. sl. rituðum við fjmrh. undir tvíþættan samning við samtök kvikmyndagerðarmanna. Annars vegar er hann um að efla hina almennu deild Kvikmyndasjóðs, ef ég má orða það svo, og koma á laggirnar sérstakri deild innan sjóðsins til að styrkja gerð heimildarmynda og stuttmynda og að taka að sér það verkefni sem nú er í höndum Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Ég tel að þannig hafi verið búið um hnúta að með niðurlagningu Menningarsjóðs útvarpsstöðva verði ekki stefnt í voða þeirri starfsemi sem hann hefur styrkt. Auk þess fá sjónvarps- og útvarpsstöðvar aukið fé til ráðstöfunar þegar hætt verður að taka af þeim það 10% gjald sem runnið hefur til Menningarsjóðs útvarpsstöðva.

Þetta eru, herra forseti, helstu atriðin sem ég vildi rekja við upphaf umræðunnar. Ég vil ítreka það sem ég sagði að með þessu frv. er ekki hróflað við stöðu Ríkisútvarpsins, skipulagi þess er ekki breytt með nokkru móti með frv. Það verður að taka til sjálfstæðrar athugunar hvernig staða þess verði þegar fram líða stundir og hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera til að laga þá stofnun að nýjum kröfum á sviði útvarpsrekstrar.

Það er ástæða til þess, herra forseti, að vekja athygli á og skýra hv. þingmönnum frá því að samkeppnismáladeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sendi sl. haust frá sér svokallað umræðuskjal um beitingu ákvæða í sáttmálanum um stofnun Evrópubandalagsins um samkeppni og ríkisstuðning í útvarpsgeiranum, eins og það er orðað. Ljóst er að samkeppnismáladeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur hafið afskipti af ríkisrekstri á sviði sjónvarps og útvarps.

Á undanförnum árum hafa framkvæmdastjórn Evrópusambandsins borist margar kærur frá einkareknum sjónvarpsstöðvum í ríkjum sambandsins um óréttmæta samkeppni af hálfu ríkisrekinna sjónvarpsstöðva og óhæfilegan stuðning ríkjanna við slíkar stöðvar sem geri einkareknum sjónvarpsstöðvum erfitt fyrir. Svo virðist sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sé að búa sig undir að taka á þessum málum en í framangreindu umræðuskjali samkeppnismáladeildar sambandsins er viðurkennt, fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar, að ríkjunum sé heimilt að reka útvarpsstöðvar í almannaþágu og heimilt að ákvarða slíkri starfsemi eðlilegar tekjur. Hins vegar er ljóst að samkeppnismáladeildin hneigist að því að skilgreina almannaþáguhlutverk slíkra fjölmiðla innan nokkuð þröngra marka og gera strangar kröfur um að fjárframlög til þeirra séu hæfileg miðað við tilgang þeirra þannig að þau hafi sem minnst áhrif á samkeppnisstöðu á markaði. Samkeppnismáladeildin virðist þess jafnvel hvetjandi að útvarpsstöðvar, sem reknar eru í almannaþágu, taki þátt í samkeppni á markaði en samkeppnisþátturinn sé þá aðskilinn frá almannaþágurekstrinum.

Þessu vildi ég skýra frá. Eins og fram kom í máli mínu er í frv. tekið mið af því sem gerst hefur í Evrópuréttinum á undanförnum árum og útvarpsstarfsemi hér á landi skilgreind í samræmi við hann. Auk þess er tekið á málum sem hafa verið til umræðu frá því að útvarpslögin voru sett 1985.

Ég tel, herra forseti, að huga beri að stöðu Ríkisútvarpsins í ljósi þeirra krafna sem fram koma og eru sífellt að verða háværari, um að ríkisvaldið skilgreini að nýju hlut sinn á þessu sviði. Ég vil geta þess að í byrjun desember sl. var efnt til fundar menningarmálaráðherra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn. Þangað komu útvarpsstjórar ríkisstöðvanna á öllum Norðurlöndunum og gerðu ráðherrunum grein fyrir því að þeir teldu að starfsumhverfi stöðvanna væri að taka miklum breytingum, svo miklum breytingum að menn yrðu að finna út hvernig best yrði staðið að því að þær héldu sinni stöðu ef menn vildu það á annað borð.

Ég vil einnig vekja athygli á því að annars staðar á Norðurlöndunum hafa verið stigin skref í þessa átt, til þess að styrkja stöðu hinna ríkisreknu fjölmiðla með breytingum á skipulagi þeirra. Þeim hefur verið breytt í hlutafélög eða aðrar ráðstafanir gerðar til að þessar stöðvar væru betur í stakk búnar til þess að takast á við verkefni sín við nýjar aðstæður.

Í þessu frv. er engum slíkum ákvæðum til að dreifa og ekki hróflað við stöðu Ríkisútvarpsins nema að því leyti að eftirlitshlutverk útvarpsréttarnefndar nær til þess eins og allra annarra útvarpsstöðva. Ég tel að ekki sé unnt að skilgreina útvarpsrekstur af hálfu ríkisins þannig að hann eigi ekki að lúta almennum leikreglum eins og þeim sem mælt er fyrir um í þessu frv. Að öðru leyti er ekki fjallað um Ríkisútvarpið.

Herra forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.