Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:01:39 (3294)

1999-02-04 11:01:39# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þeir aðilar sem starfa á þessum markaði eða þessu sviði, þ.e. í því að útvarpa menningu til þjóðarinnar, starfa við vonlaus samkeppnisskilyrði. Einn aðili á markaðnum getur skuldbundið alla til að greiða til sín afnotagjöld, þ.e. Ríkisútvarpið og ríkissjónvarpið, á meðan aðrir aðilar njóta ekki þessa forgangs. Það er meira að segja svo að vilji einhver kaupa sér sjónvarpstæki til þess að horfa á einhverjar þessara einkastöðva, þá verður hann að greiða til Ríkisútvarpsins jafnframt. Svona einokun gengur náttúrlega ekki upp í samkeppnisþjóðfélagi eða hjá þeim sem vilja frjálsa samkeppni og frjálst framtak, fyrir utan það að þetta slævir að sjálfsögðu aðhald að rekstri sjónvarpsins þannig að það sé rekið eins vel og unnt er. Það þarf þess ekki. Það fær sína peninga á silfurfati hvernig sem rekstrinum er hagað. Ég spyr því hæstv. ráðherra enn einu sinni: Telur hann eðlilegt að á þessum samkeppnismarkaði njóti einn aðilinn slíks forgangs?