Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:28:43 (3299)

1999-02-04 11:28:43# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:28]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til útvarpslaga og ég vil fagna framlagningu þess og þeirri umræðu sem á sér stað um þessa mikilvægu rammalöggjöf á tímum mikillar fjölmiðlamenningar hér á landi sem annars staðar í nágrannaríkjum.

Ég vil einnig fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh., sem hann gaf í framsögu sinni, að með þessu frv. sé ekki hróflað við sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem og að ekki væri í bígerð að efna til sölu á Ríkisútvarpinu. Ég fagna því sérstaklega. Eins og bent var á er Ríkisútvarpið ekki sérstaklega til umræðu hér heldur er um rammalöggjöf að ræða en í tilefni af því að hv. þm. Pétur Blöndal gerði Ríkisútvarpið sérstaklega að umræðuefni leyfi ég mér þó að segja að aldrei hefur verið mikilvægara en nú, á tímum hinnar fjölþjóðlegu menningar sem streymir til okkar á öldum ljósvaknas, að ráða yfir öflugum íslenskum fjölmiðli sem þjónar íslenskri menningu að þeirri forsendu gefinni að við teljum íslenska menningu einhvers virði.

[11:30]

Að auki nefni ég öryggisþáttinn, sem var reyndar getið um í umræðunni, en þessir tveir þættir, menningarlegt hlutverk og öryggisþátturinn, eru í raun meginforsendan fyrir rekstri Ríkisútvarpsins sem samnefnara íslenskrar menningar. Það er sú stofnun sem getur sinnt ýmsum menningarlegum þáttum sem líklega verður aldrei markaðslegur grundvöllur fyrir en samanlagðir mynda þeir í íslensku Ríkisútvarpi, hvort heldur er hljóðvarpi eða sjónvarpi, eina samfellu sem kalla mætti íslenska menningu sem er mikilvæg á tímum fjölþjóðlegrar menningar. Þetta er sú leið sem Bretar hafa farið með BBC, þeir hafa slegið skjaldborg utan um þá stofnun með sömu rökum.

Hitt er annað mál að rekstrarskilyrði og ekki síður stjórnunarvandi Ríkisútvarpsins hefur verið töluvert til umræðu. Ég tel afskaplega brýnt að skerpa á stjórnunarstrúktúr Ríkisútvarpsins svo það fái að starfa eftir eðlilegum stjórnunarleiðum og hafi eðlilegan rekstrargrundvöll. Ég tek undir þau sjónarmið að innheimtukerfið, sem notað hefur verið, megi gagnrýna. Bæði er það dýrt og að sumu leyti óskilvirkt. Ég teldi t.d. koma vel til greina að setja upp sérstakan nefskatt á Íslendinga 18 ára og eldri. Hann þyrfti að mér skilst ekki að vera hærri og jafnvel innan við 1.000 kr. á ári til að tryggja eðlilega starfsemi þessa merka miðils.

Þetta var útúrdúr um Ríkisútvarpið sérstaklega. Hér er til umræðu rammalöggjöf um útvarp almennt. Ég fagna þessari yfirlýsingu um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það er mikilvægt að hafa hér öflugt ríkisútvarp en jafnmikilvægt að Ríkisútvarpið fái harða og eðlilega samkeppni frá öðrum útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Ég hygg að tilkoma t.d. Hins íslenska útvarpsfélags og síðar annarra útvarpsstöða hafi haft mjög jákvæð áhrif á starfsemi Ríkisútvarpsins. Sú samkeppni hefur verið til góðs og með þessari rammalöggjöf er leitast við að treysta samkeppnisgrundvöll ólíkra útvarps- og sjónvarpsstöðva.

Ég hlýt að taka undir þau sjónarmið sem hafa verið kynnt varðandi stafrænt útvarp og öll þau gífurlegu sóknarfæri sem því fylgja fyrir áhorfendur og hlustendur einstakra útvarpsstöðva. Í stafrænu útvarpi felast gífurlegir möguleikar til fræðslu, skemmtunar og upplýsingar, að ekki sé talað um gæðin.

Í þriðja lagi vil ég sérstaklega fagna þeim vopnum sem í þessu frv. eru til varnar börnum, þ.e. heimild til að grípa í taumana ef í óefni er komið með útvarps- eða sjónvarpsefni sem kann að skaða börn. Það hefur komið til umræðu á þessum vettvangi sem og í fjölmiðlum að á stundum hefur keyrt úr hófi hvernig sjónvarpsefni, jafnvel á daginn, á því sem kalla má eðlilegum vökutíma barna hefur verið uppfullt af ofbeldi. Ýmsir hafa haft af því miklar áhyggjur. Með 14. gr. og 20. gr. er möguleiki á að verja börnin, má segja, þar sem hægt á að vera að grípa inn í, þá væntanlega útvarpsréttarnefnd, ef einhver brýtur gegn þessu ákvæði. Þá er sérstaklega átt við ofbeldi, klámfengnar myndir og ekki síður ofbeldisfull atriði í auglýsingum á besta áhorfstíma fyrir börn. Ég fagna því sérstaklega 14. og 20. gr.

Í fjórða lagi hlýt ég að fagna almennu ákvæði til allra útvarpsstöðva sem eru skyldur vegna almannaheilla, að vera skylt að kostnaðarlausu að birta auglýsingar sem snerta almannaheill. Þar eru öryggismál þjóðarinnar lögð til grundvallar og er í raun sjálfsagt.

Ég tek undir sjónarmið sem hér hafa verið nefnd, bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem til máls hafa tekið, um að Menningarsjóður útvarpsstöðva hafi verið úr sér genginn en jafnframt er mikilvægt að fjármögnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands verði tryggð á annan hátt. Ég efast um að sambýlið við útvarpið sé rétt og tel að tryggja þurfi fjármögnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands öðruvísi. Ég þykist vita að hæstv. ráðherra sé áhugamaður um slíkt enda mikill menningarsinni.

Í sjötta lagi fagna ég ákvæðum 7. og 8. gr. þar sem sérstaklega er fjallað um íslenskt menningarefni og framleiðslu í sjónvarps- og útvarpsstöðvunum. Þau eru ekki síður um skyldurnar til að setja tal og texta á íslensku. Væntanlega hefur fátt jafnmikil áhrif á málvitund og málmótun ungra barna og sjónvarp, þar sem þau virðast horfa afskaplega mikið á sjónvarp. Talsetning á barnamyndum er afskaplega mikilvæg sem og textun, eins og m.a. hefur verið gert í Þýskalandi og Frakklandi með menningarlegum rökum. Ég fagna þessu ákvæði sérstaklega. Líkt og með ákvæðið um verndun barna er þarna ákveðið vopn fyrir útvarpsréttarnefnd til þess að grípa til ef á þarf að halda vegna íslenskrar menningar og íslenskrar tungu.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni 9. gr. þar sem er talað um lýðræðislegar grundvallarreglur. Það er mjög vandmeðfarið efni og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum`` o.s.frv.

Herra forseti. Ég er mikill unnandi frjálsrar fjölmiðlunar og frelsis orðsins. En frelsinu fylgir líka ábyrgð. Hafandi í huga t.d. nýafstaðið prófkjör hér á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík sérstaklega, finnst mér fjölmiðlar margir hverjir hafa brugðist þessari skyldu sinni og þeirri ábyrgð sem fylgir frelsinu með því að gæta lýðræðislegra grundvallarreglna þar sem óneitanlega, hugsanlega í gegnum kunningjatengsl í litlu samfélagi, einstökum frambjóðendum er hampað sérstaklega en öðrum sjónarmiðum er ekki gefinn jafn möguleiki. Þetta finnst mér gilda nánast um flesta fjölmiðla og er mikið áhyggjuefni, einfaldlega út frá lýðræðissjónarmiðum. Hinu frjálsa orði og frjálsri fjölmiðlun hlýtur að fylgja einmitt sú ábyrgð að tryggja að ólík sjónarmið skuli komast að. Það tel ég að hafi almennt ekki gerst. Nú segi ég ekki að það sé meðvituð stefna einstakra útvarpsstöðva að hampa einum frekar en öðrum, t.d. í prófkjöri. Hins vegar virðast einstakir dagskrárgerðarmenn, líklega vegna kunningjatengsla eða vegna pólitískra skoðana, falla í þessa gryfju. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að hafa slíkt atriði eins og er hér í 9. gr. en það er vandmeðfarið og fæ ég raunar ekki séð hvernig útvarpsréttarnefnd getur tekið á slíku. Ég tel hins vegar ástæðu til að nefna þetta. Málið snýst um lýðræðisleg grundvallarréttindi og það að ábyrgð fylgi frelsi í fjölmiðlun.

Herra forseti. Hér eru þrjú atriði sem ég vil nefna sérstaklega til viðbótar. Fyrst er að nefna 21. gr., um kostun. Ég hef rætt nokkuð ítarlega við nokkra lögmenn um ástæður þeirra ákvæða sem um er getið bæði í 21. og 23. gr., m.a. lögmenn sem tengst hafa Brussel vegna EES-ákvæða. Þeir fræða mig m.a. á því varðandi 2. tölul. 21. gr., þar sem segir að óheimilt sé að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni, svo sem veðurfréttir og íþróttafréttir, að fyrir þessu sé engin stoð hjá ESB-verkinu enda fær maður ekki séð hvaða rök geta verið fyrir því að banna kostun á íþróttaþáttum og veðurfréttum. Ég veit ekki betur en alls staðar í Evrópu, þar sem maður hefur séð sjónvarp, kosti ýmsir veðurfréttir eða íþróttafréttir, líkt og við þekkjum hér, eins og hjá Stöð 2 þar sem Tal kostar veðurfréttir. Við þekkjum Nissan-deildina í handbolta og þannig má áfram telja. Ég sé ekki hvaða hagsmunir eru í hættu með þessu. Þar sem lögmenn segja mér að fyrir þessu sé ekki fótur þá lýsi ég mjög miklum efasemdum um þetta ákvæði og mun beita mér fyrir því að því verði breytt í meðförum hv. menntmn.

Svipað er mér sagt af mætum lögmönnum varðandi 23. gr. Þar er kveðið á um skyldu allra sjónvarpsstöðva til að opna dagskrá við sérstök skilyrði. Þar eru nefndir sérstaklega mikilvægir atburðir sem kunna að snerta þjóðarheill svo sem ýmsir íþróttaatburðir. Þarna mun vera byggt á 3. gr. í tilskipun Evrópusambandsins nr. 36 frá 1997 þar sem kveðið er á um heimild einstakra stjórnvalda innan ríkja EES eða ESB til þess að beita þessu ákvæði. Mér er sagt að þar sé aðeins um heimildarákvæði að ræða en ekki skyldu. Spurningin er hvort við séum ekki að ganga mun lengra en tíðkast hjá öðrum þjóðum, hvort við séum ekki í þessu tilviki, eins og stundum vill brenna við þegar við túlkum ákvæði ESB-reglna, að túlka þau of þröngt. Þetta vekur líka spurningar um eignarrétt. Þegar sjónvarpsstöð hefur keypt sér eignarrétt, t.d. Íslenska útvarpsfélagið sem hefur keypt sér eignarréttinn að ensku knattspyrnunni, sem margir eru áhugasamir um, og sinnir því með miklum sóma. Hver á að túlka hvort um almannaheill eða þjóðarhagsmuni sé að ræða eða ekki? Ég hef miklar efasemdir um það og tel jafnframt mjög varhugavert að leggja þær skyldur á einstaka ráðherra, óháð því hverjir skipa þá stöðu, að skipa sjónvarpsstöð að opna dagskrá sína samkvæmt reglugerð. Ef menn ætla að túlka þetta svona teldi ég skynsamlegra að beina því til útvarpsréttarnefndar en lýsi fyrirvara við að ganga jafnlangt í að túlka þetta og gert er í 23. gr. frv.

Í framhaldinu vakna spurningar um rekstrargrundvöll fyrir þær sjónvarpsstöðvar sem vilja veita ríkissjónvarpinu eðlilega og nauðsynlega samkeppni.

Að lokum vil ég nefna ákvæði sem varða stafrænt útvarp og stafrænar útsendingar, sem er gífurlega dýrt fyrirbrigði. Ég teldi mjög eðlilegt að hagsmunaaðilar, þ.e. fulltrúar þeirra fyrirtækja sem standa í útvarps- og sjónvarpsreksti á Íslandi, kæmu að undirbúningi þess, m.a. til þess að tryggja að ákvörðun um að leggja út í slíkt af hálfu ríkisins leiddi ekki til að einkastöðvarnar drægjust aftur úr. Ég trúi því að hæstv. ráðherra vilji tryggja eðlilega samkeppni á sjónvarpsmarkaði en ekki láta Ríkisútvarpið eitt sigla fram úr, sem fræðilega væri hægt samkvæmt þessu frv. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki sé eðlilegt að fulltrúar sjónvarpsstöðva, bæði Ríkissjónvarps og þá einkastöðvanna, komi að útfærslu á slíku til að tryggja samkeppni stöðvanna.

Ég læt þetta nægja, herra forseti. Ég tel að þetta frv. sé á heildina litið afskaplega nauðsynlegt og muni bæta möguleika og skilyrði sjónvarps- og útvarpsstöðva á Íslandi, jafnt Ríkisútvarpsins og einkarekinna stöðva.