Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 12:16:03 (3304)

1999-02-04 12:16:03# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[12:16]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Mér láðist að spyrja um eitt atriði sem snertir 23. gr. en hún fjallar um hugsanlega heimild, eins og skilja má textann, til að opna dagskrárefni ef þjóðarheill er í húfi. Það má skilja textann þannig að í vissum tilvikum, svo sem eins og við Ólympíuleika, sé skylt að opna læsta sjónvarpsdagskrá, eins og t.d. hjá Íslenska útvarpsfélaginu. Þannig skil ég a.m.k. textann. En hins vegar finnst mér málið túlkað með öðrum hætti í greinargerð sem fylgir þessari grein, og mér finnst frumvarpstextinn í rauninni að nokkru leyti á skjön við greinargerðina en í henni segir, með leyfi forseta, en þar er verið að skilgreina hugtakið ,,free television``:

,,Í fyrrnefndri skýringargrein er hugtakið ,,free television`` skýrt á þá leið að með því sé átt við sjónvarp á opnum (,,public``) eða læstum (,,commercial``) sjónvarpsrásum, sem eru aðgengilegar fyrir almenning án greiðslu umfram þá gjaldtöku fyrir sjónvarp sem almennt er beitt í sérhverju aðildarríki (svo sem afnotagjald og/eða áskriftargjald fyrir kapalsjónvarp). Þær sjónvarpsstöðvar, sem nú eru reknar hér á landi, falla undir þessa skilgreiningu.``

Þarna finnst mér greinargerðin segja að þær sjónvarpsstöðvar, Sýn, Stöð 2 og ríkissjónvarpið, geti starfað óbreytt verði þetta að lögum. Opnunarákvæðið í frumvarpstextanum stangast því að nokkru leyti á við þetta. Er hæstv. ráðherra sammála þessari skýringu?