Ættleiðingar

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:17:02 (3312)

1999-02-04 14:17:02# 123. lþ. 59.6 fundur 433. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri fagna þessu nýja frv. um ættleiðingar sem vissulega er mjög tímabært þar sem eldri löggjöf er frá árinu 1978. Ég vil taka undir orð hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur áðan um að frv. sé verulega til bóta og ég treysti því að það fái vandlega meðferð í allshn. og verði jafnvel samþykkt á þessu ári. En ástæðan fyrir því að ég stíg í pontu er fyrst og fremst sú að ég vil láta í ljósi vonbrigði mín yfir því að ekki er tekið á mikilvægum mannréttindamálum sem hér hafa komið fram í máli fleiri aðila, þ.e. ættleiðingarmöguleikum para í staðfestri samvist.

Ég er meðflutningsmaður frv. hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar um breytingu á lögum um staðfesta samvist þar sem lagt er til að samkynhneigðir í staðfestri samvist fái að ættleiða börn maka síns en ég tel það mjög miður að svo virðist sem slíkt eigi ekki að heimila samkvæmt þessu þó ágæta frv. Þetta er mjög mikilvægt mannréttindamál fyrir börn sem búa í slíkri samvist og ég hef kynnt mér sérstaklega rannsóknir á börnum sem búa við þessar aðstæður og það er ekkert sem bendir til að það sé skaðlegt fyrir börn að alast upp við þessar aðstæður og ástæðan virðist fyrst og fremst vera sú að þar eru samskipti yfirleitt mjög opin og börnin eru mjög vel undir það búin að takast á við hugsanlegt einelti eða áreiti utan frá.

Það er auðvitað mjög mikilvægt réttindamál, t.d. ef viðkomandi foreldri fellur frá, að þarna sé um ættleiðingarmöguleika að ræða. Á nýlegum fundi í Háskóla Íslands voru þessi mál sérstaklega til umræðu og þar var einmitt rætt um möguleika þess að heimila almennt í lögum að pör í staðfestri samvist fengju að ættleiða börn en færu svo nákvæmlega undir sama stranga eftirlit og mat eins og allir aðrir sem ættleiða börn. Ég velti því fyrir mér hvort taka eigi þetta skref í einum eða tveimur áföngum, þ.e. byrja á að heimila stjúpættleiðingar eins og frv. Ólafs Arnar Haraldssonar leggur til eða bara almennt að heimila þetta í lögum og síðan verði hvert tilvik metið fyrir sig. Ég tel að það sé álitamál hvor aðferðin eða hvor leiðin er farin en mæli alveg eindregið með því að þetta atriði verði sérstaklega athugað og skoðað fordómalaust í allshn. og það komi breyting á frv. áður en það kemur til 2. umr. Þetta er mjög mikilvægt mannréttindamál fyrir þennan hóp sem auðvitað gengur misvel í veröldinni að ná fram, en ég er alveg sannfærð um að það er bara tímaspursmál hvenær en ekki hvort samfélagið er tilbúið að heimila þetta og að mínu mati er ekki eftir neinu að bíða.