Sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:54:06 (3324)

1999-02-04 15:54:06# 123. lþ. 59.11 fundur 140. mál: #A sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:54]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski einkennilegt að kalla þetta andsvar. Ég ætla í raun ekki að andmæla heldur að nota þennan stutta tíma til þess að lýsa því yfir að ég tel að hér sé velt upp máli sem nauðsynlegt sé að taka á. Eins og reyndar er vikið að í tillögugreininni sjálfri þá er þetta mál sem varðar umhverfissjónarmið og náttúruverndarsjónarmið. Þó að við höfum hingað til fjallað mest um umhverfismál og náttúruvernd á landi, þá held ég að fyllilega sé tímabært að menn hugi að því að það getur líka verið að með ýmsum mannanna verkum og manngerðum tækjabúnaði séum við að skemma eða vinna tjón á náttúruverðmætum í hafi eða á hafsbotni og það þarf vissulega að huga að því.

Þó að tillögunni sé fyrst og fremst beint til hæstv. sjútvrh. og Hafrannsóknastofnunar þá vildi ég láta þetta sjónarmið mitt koma hér fram og geta þess að ég tel bæði rétt og eðlilegt að taka einnig á þessum málum í lögum um náttúruvernd og að lög um náttúruvernd nái a.m.k. að einhverju leyti til þessara þátta og þar með þá til íslenskrar efnahagslögsögu en ekki bara til umhverfismála og náttúruverndar á landi. Það er sjálfsagt að þetta sé allt saman unnið í samráði við hæstv. sjútvrh. en ég vildi láta viðhorf mitt koma fram og nota andsvararétt minn til þess.