Starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:59:55 (3355)

1999-02-08 17:59:55# 123. lþ. 60.17 fundur 179. mál: #A starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:59]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni tillögunnar. Mér finnst þetta mjög gott mál. Mig langar til að fara nokkrum orðum um efni hennar og það sem tengist henni.

Fyrir það fyrsta hefði ég kosið og hefði frekar farið þá leið að tala um kvennahreyfingar í fleirtölu því að þó að segja megi sem svo að til sé fyrirbæri sem heiti kvennahreyfing, ekki síst í sögulegum skilningi ef umræður og barátta kvenna er skoðuð í ljósi sögunnar, hefur mér sýnst að á seinni árum séu bæði fræðimenn og aðrir sem fjalla um kvennabaráttu farnir að nota fleirtöluna miklu meira til að undirstrika að þessar hreyfingar eru af ýmsum toga og með ýmsar stefnur og ýmsar hugmyndir. Það að nota fleirtöluna undirstrikar það. Stundum eiga þessar hreyfingar eða félög nánast ekkert sameiginlegt annað en að þar eru konur í meiri hluta meðal félagsmanna eða þetta eru félög kvenna.

[18:00]

Ef við lítum yfir vettvanginn á Íslandi þá höfum við stórt samband eins og Kvenfélagasamband Íslands sem er samsett af tugum kvenfélaga úr ýmsum áttum, kirkjufélögum og hefðbundnum kvennafélögum og fleiri slíkum, verkakvennafélögum. Hinum síðastnefndu hefur reyndar fækka mjög verulega ef nokkurt er orðið eftir. Síðan eru hreyfingar eins og Bandalag kvenna í Reykjavík, sem reyndar er hluti af Kvenfélagasambandinu, Kvenréttindafélag Íslands o.s.frv., fyrir utan ýmsa hópa sem minnst er á í greinargerð þessarar tillögu. Sem betur fer hafa sprottið upp nýir og nýir hópar sem síðan hafa lognast út af eftir því sem málefnunum vindur fram eða þeir detta upp fyrir af einhverjum ástæðum. Þetta er síbreytileg flóra.

Ég hef orðið vör við það í starfi mínu á Alþingi að ásókn félagasamtaka í styrki frá Alþingi er gríðarleg. Því miður hefur ekki með nokkru móti verið unnt að koma til móts við allar þær beiðnir. Mér finnst það mjög slæmt því að alls staðar þar sem ég þekki til, m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum, er það yfirlýst stefna að styðja við félagasamtök. Þar er reynt að draga hvers kyns félagasamtök inn í umræðuna og gefa þeim kost á að fylgjast með, þannig að umræðan berist sem víðast og almenningur og þeir sem vinna að ákveðnum málefnum eigi kost á að taka þátt og koma skoðunum sínum á framfæri.

Af því að hv. 1. flm. nefndi fund sem haldinn var um Peking-áætlunina vil ég benda á að slíkir fundir eru haldnir reglulega. Sameinuðu þjóðirnar reyna að fylgjast með því hvernig sáttmálum þeirra er fylgt eftir. Ekki alls fyrir löngu var haldinn stór fundur í Argentínu til að fara yfir samþykktir Ríó-ráðstefnunnar, eða hvort ráðstefnan var í Brasilíu eða einhvers staðar á þeim slóðum. Næsta sumar er einmitt fyrirhuguð ráðstefna í tilefni af því að þá verða fimm ár liðin frá samþykkt Kaíró-ráðstefnunnar. Það er mál sem kemur konum ekki lítið við. Mér hefur gefist kostur á að fylgjast aðeins með því. Stjórnvöld hér voru steinsofandi yfir bæði undirbúningsfundi sem fram fer í þessum mánuði og síðan þessari ráðstefnu í sumar. Ýmsum þeim sem unnið hafa að málefnum sem snerta takmörkun barneigna og slíkt var gert viðvart. Eftir því sem ég best veit fara nokkrar konur á þennan undirbúningsfund nú í febrúar. Það er auðvitað afar brýnt að stjórnvöld styðji starfsemi af þessu tagi.

Félagastarfsemi er gríðarlega mikil hér á landi og ekki síst meðal kvenna. Þar er vettvangur fyrir þjóðfélagsumræðuna og fyrir ýmiss konar velferðar- og áhugamál.

Horfi ég á kvennabaráttuna sérstaklega þá er skoðun mín sú að nú sé afar brýnt að reyna að ýta undir öflugar kvennahreyfingar, þ.e. að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að auðvelda slíkt starf. Þegar litið er til baráttu kvenna hér á landi þá hefur hún beint sjónum að fulltrúahlutverki kvenna, beinst að því að fjölga konum á Alþingi, í sveitarstjórnum, í nefndum og ráðum og víðar þar sem ákvarðanir eru teknar. Það hefur allt verið nauðsynlegt. En þegar ég horfi yfir sviðið nú finnst mér að sú hugsun hafi skilað sér að konur eigi að vera alls staðar sem fulltrúar. Það litla sem við heyrum og sjáum af umræðum er nánast allt komið inn á hinn opinbera vettvang, í sölum Alþingis, eitthvað aðeins í sveitarstjórnum, hjá Jafnréttisráði og félmrn. Hin lifandi umræða og hin lifandi baráttuhreyfing kvenna sem hér starfaði fyrir nokkrum árum, liggur í roti. Umræðan er sáralítil og þá er ég að tala um lifandi umræðu í þjóðfélaginu.

Því miður finnst mér að þau átök sem áttu sér stað í hinni merku kvennahreyfingu, Kvennalistanum, með þeim ömurlega eftirleik sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum og mánuðum, hafi haft mjög slæm áhrif á kvennabaráttuna hér á landi. Það mun taka langan tíma fyrir hana að jafna sig og finna sér nýjan farveg. Ef ekki er lifandi umræða um kvennabaráttu og lifandi hreyfing í samfélaginu þá hafa þeir fulltrúar sem konur velja sér, og ýta á að komist að, ekkert bakland. Þeir hafa engan stuðning og það held ég að skipti mjög miklu máli. Þó að fulltrúarnir séu til staðar og sinni pólitísku starfi þá þarf samt lifandi hreyfingu og lifandi umræðu. Ég vona sannarlega að hún líti dagsins ljós á næstu mánuðum eða árum. Það hefur nú verið eðli kvennahreyfingarinnar eða kvennahreyfinga að rísa upp aftur og aftur. Mér er eins og 1. flm. mjög tamt að tala um kvennahreyfinguna og er að reyna að breyta þessu.

Erindi mitt hingað í ræðustól var að taka undir efni tillögunnar. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að styðja við félagasamtök, það er yfirlýst stefna Sameinuðu þjóðanna. Svo er gert í öllum þeim lýðræðisríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Þar þurfum við að taka okkur verulegt tak, hæstv. forseti.