Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 17:03:03 (3399)

1999-02-09 17:03:03# 123. lþ. 61.14 fundur 160. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[17:03]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram um þakklæti til flutningsmanna tillögunnar og minni á að fyrir tæpu ári fluttu sömu hv. þingmenn tillögu um þetta sama efni sem var ekki síður jákvæð í garð sauðfjárræktarinnar en þessi. Þessi tillöguflutningur er afskaplega mikilvægur og fari svo að þessi tillaga fái sams konar stuðning og sú hin fyrri er nokkurt blað brotið í sögu þessarar búgreinar í landi okkar.

Mér finnst mikil ástæða til þess, og á nú reyndar auðvelt með að koma því á framfæri við hv. formann landbn., að við meðferð málsins verði leitað eftir umsögn frá Byggðastofnun og þá á ég við sérstaklega þróunarsviðinu, eða jafnvel leitað eftir því að fá sérfræðinga þaðan til viðtals við nefndina, því að nú hefur verið unnið mikið starf í því að greina gildi sauðfjárræktarinnar og gildi landbúnaðarins fyrir búsetuna í landinu. Ég hygg að núna séu fyrir hendi skýrari niðurstöður um þau efni en áður hafa legið fyrir. Ég hygg að mörgum muni hnykkja nokkuð við þegar þær upplýsingar verða lagðar á borðið, hugmyndir um það hverju þurfi að breyta og hverju sé hægt að breyta til þess að líf geti þróast eðlilega áfram á stórum hlutum landsins og að menn sjái þá nokkuð skýrt hvaða áhrif það hefur á búskaparhætti og dreifingu byggðar í landinu að hægt sé að stunda þar landbúnað áfram.

Ég hygg líka að þá muni margur sjá að gengið hefur verið háskalega fram í því að þrengja kosti bænda landsins á undanförnum árum. Þessar tillögur báðar eru að þessu leyti afar jákvæðar og ekki vafi á því að í þeim efnum fylgir hugur máli enda báðir flutningsmenn vel að sér í búskaparháttum þjóðarinnar og vita mætavel hvaða gildi landbúnaðurinn hefur.

Hins vegar liggur miklu skýrar fyrir um þessar mundir en áður hvern hlut landbúnaðurinn á í byggðinni og búsetunni og er miklu auðveldara núna en áður hefur verið að gera upp við sig hvort landbúnaðurinn á að hafa möguleika til þess að rækja bærilega hlut sinn í þeim efnum eða þá að öðrum kosti að byggðirnar á stórum svæðum muni halda áfram að veikjast og kannski að lokum yrði niðurstaðan sú að búsetan mundi halda áfram að færast saman enn meira en verið hefur.

Ég held að þessar tillögur báðar, og þá sérstaklega með tilliti til þess sem ég hef nú nokkuð rakið hvað þessi mál liggja núna miklu greinilegar fyrir en áður hefur verið, gætu orðið til þess að hér yrði breyting á og þær ásamt öðrum nauðsynlegum aðgerðum gætu þannig orðið til þess að leggja einhverja lífsþræði inn í sveitir landsins frá því sem nú er.