Útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 13:54:37 (3416)

1999-02-10 13:54:37# 123. lþ. 63.1 fundur 313. mál: #A útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst það stór spurning hvort ástæða sé til að hæla sér af því, eftir um tíu ára hrakfallasögu, að loks hafi verið reynt að taka fjármálunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þau vanskil og sá langi hali sem þar hefur myndast og verið dreginn er ekki til eftirbreytni. Mér finnst það í sjálfu sér ekki tilefni til sérstakra gleðifunda að loksins skuli tekið á þeim málum. Auðvitað má segja að betra sé seint en ekki og hæstv. utanrrh. eigi nokkurt hrós skilið, borið saman við það sem á undan var gengið. Til dæmis komust þessi mál hvorki lönd né strönd í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Hitt verð ég að segja, herra forseti, að ég held að hér eigi við eins og stundum áður, að skynsamlegra sé að lofa ekki dag fyrr en að kveldi. Eigum við ekki að láta nokkra reynslu komast á reksturinn sem þarna er að komast af stað? Leigutekjurnar líta vel út á pappírnum svona á fyrsta árinu. Ég hef áhyggjur af því að veikar forsendur séu fyrir sumum af rekstrinum sem þarna er. Þó maður óski því alls góðs er ótímabært að gefa sér að menn hafi hér höndlað hamingjuna um ókomin ár og enginn skuggi muni þar á falla. Við skulum ræða þessi mál og skoða stöðuna eftir svona tvö til þrjú ár.