Útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 13:58:45 (3419)

1999-02-10 13:58:45# 123. lþ. 63.1 fundur 313. mál: #A útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. 5. þm. Reykn. vil ég að sjálfsögðu taka fram að ekkert var undarlegt við ræðu mína annað en að ég hafði fyrir því að rifja aðeins upp orð þingmanna Alþfl. frá umræðunni sem fram fór fyrir einu eða tveimur árum. Þá var mikið rætt um vanda flugstöðvarinnar og þær tillögur sem þá voru á borðinu. Ég skil út af fyrir sig að ákveðinnar viðkvæmni skuli gæta fyrir þeirri upprifjun og mun því ekki gera það aftur hér í ræðustólnum. Þeim sem hafa áhuga á að lesa þetta í þingtíðindum bendi ég hins vegar á að gera það og eins er hægt að nálgast þetta á netinu. Þar kemur þetta allt fram og er til vitnis um að menn hafa stundum rangt fyrir sér og þannig er lífið.

Aðalatriðið varðandi þetta mál er að rekstrarformi hefur verið breytt í talsverðu af starfseminni innan veggja Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Sú breyting hefur tekist mjög vel. Hún hefur leitt til þess að störfum hefur fjölgað, tekjugrundvöllur flugstöðvarinnar batnað og fjárhagsleg staða einnig.

Hvað lærum við af því, hvaða lærdóm drögum við af þessu? Auðvitað að reyna að halda áfram á sömu braut til að bæta enn reksturinn, fjölga störfum og tryggja fjárhagslega stöðu stöðvarinnar. Ég var sérstaklega að leita eftir því í máli mínu áðan, með fyrirspurninni til hæstv. ráðherra. Þess vegna fagna ég þeim orðum hæstv. ráðherra að hann teldi ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram á sömu braut.

Hér hefur komið fram að flugstöðin er nú í þeirri stöðu að geta greitt upp eldri vanskilavexti og staðið skil á gjaldföllnum vöxtum. Öll lán flugstöðvarinnar eru í skilum. Vandi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefur falist í að hún fékk ekki að njóta þeirra tekna sem hún aflaði. Í því lá vandinn. Það var hin pólitíska ákvörðun fyrri tíma. Nú er staða hennar hins vegar góð, ekki síst vegna þess að pólitísk samstaða hefur tekist um að breyta rekstrarforminu, nýta kostina sem felast í einkavæðingu starfseminnar. Það var sjálfsögð ráðstöfun sem hefur sannarlega haft gott í för með sér.