Útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:03:41 (3421)

1999-02-10 14:03:41# 123. lþ. 63.1 fundur 313. mál: #A útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég neyðist til þess að mótmæla því og bera af mér þær sakir að ég hafi verið með hrakspár í garð nýrra rekstraraðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég tel það sakaráburð að tala um að maður hafi haft uppi hrakspár, samanber hið fornkveðna að falin sé í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri. Það er ekki þannig að ég óski þeim sem þarna eru að reyna fyrir sér með rekstur ekki alls góðs. Ég hef verið talsmaður þess og hvatt til þess að menn nýttu þá tekjumöguleika sem flugstöðin gæfi og hafa reyndar ekki gert það á undanförnum árum.

Við skulum hafa hitt í huga að þarna eru menn að borga einhverja hæstu húsaleigu á landinu og þarna er nýtingartími húsnæðisins afar stuttur. Það þarf því mjög miklar tekjur sem verða að koma til á afar skömmum tíma sólarhringsins til að standa undir því dýra rekstrarumhverfi sem þarna er. Ég hvet þá þingmenn sem vilja kynna sér málin að ræða t.d. við einstaka rekstraraðila og ég spái því að þá fái þeir að heyra áhyggjur af því að þessi dýra húsaleiga, þetta dýra starfsumhverfi og stutti nýtingartími muni reynast mönnum erfiður þannig að það eru raunverulegar áhyggjur uppi hjá þessum aðilum gagnvart því hvort þeir geti skilað þessu.

Ég neyddist, herra forseti, að biðja um orðið undir þessum lið til að skýra afstöðu mína því að ég sæti því ekki þegjandi að á mig sé borið að ég sé með hrakspár í garð þessara aðila af þessu tagi.

(Forseti (ÓE): Efnisumræðunni um fyrirspurnina er lokið.)

Já, en er það ekki sakaráburður að kalla að maður sé uppi með hrakspár að órökstuddu máli?

(Forseti (ÓE): Jú, jú. Það má til sanns vegar færa.)