Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:27:10 (3429)

1999-02-10 14:27:10# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég tel algerlega út í hött að saka kennara um eða gefa í skyn að kennarar séu að setja sveitarfélög á hausinn. Ég tel það út í hött í fyrsta lagi vegna þess að menn hafa verið og eru vonandi enn sammála um að menntun skiptir máli fyrir framfarir í landinu. Það er í öðru lagi út í hött vegna þess að eftir að sveitarfélög tóku við grunnskólunum fengu þau uppsafnaðan launavanda þar sem ríkið hafði í áratugi lítið sinnt launamálum kennara og skilið þá eftir sem láglaunastétt. Ég tel það í þriðja lagi út í hött vegna þess að þó að prósenta sé há gefur há prósenta af litlu lága upphæð. Á sama tíma hafa sveitarfélög fjárfest í steinsteypu. Á sama tíma hafa aðrir hópar siglt fram úr og þannig má áfram telja. Spurningin er því einfaldlega sú hvort menn meina eitthvað með því að menntun eigi að skipa fyrirrúm og hafa forgang, hvort menn meina eitthvað með því. Ef menn meina eitthvað með því á ekki að veitast að kennurum heldur að styðja við þá vegna sveitarfélaga, vegna fjölskyldna og vegna barna okkar.