Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:40:28 (3437)

1999-02-10 14:40:28# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það vill svo til að grunnskólinn er einn stærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir upplýsti um skoðanir sveitarstjórnarmanna sem komu rækilega fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Það er ekki ég sem finn það upp að sveitarfélögin eigi erfitt með launakröfur kennara. Það eru sveitarstjórnarmennirnir sem kvarta við mig og þeir kvarta við hv. þm. Þær áhyggjur sem sveitarstjórnarmenn hafa af þessum samskiptum komu greinilega fram, eins og hún réttilega sagði frá.

Byrjendalaun í kennslu eru 110 þús. ef ég veit rétt, ef það eru margir sem ekkert hafa annað en það, þá eru sumir sem hafa töluvert meira þegar meðaltekjur meðalkennarans á landinu eru um 2 millj. Þá eru ýmsir sem eru töluvert hátt yfir 110 þús. Ég sagði í þessum sjónvarpsþætti, og var þá ekki bara að tala um kennara, fjarri því, ég var að tala um aðra útgjaldapósta líka og framkvæmdagleði sveitarfélaga, að menn yrðu að bíta á jaxlinn og harka af sér kröfur um launahækkanir, um framkvæmdir og útgjöld. Það er rangt að standa ekki við gerða kjarasamninga og það er ekki hægt að bera á móti því að hér hefur verið um skipulagðar hópuppsagnir að ræða í ýmsum tilvikum. Það eru reyndar fleiri en kennarar sem hafa beitt því. Það eru meira að segja virðulegar heilbrigðisstéttir sem líka hafa gert það.

Sveitarfélögin reka grunnskólann yfirleitt af miklum metnaði og ég tel að það hafi verið rétt skref að færa grunnskólann til sveitarfélaganna. Sum þeirra hafa efni á því. Sum þeirra hafa möguleika á að auka tekjur sínar, eins og þau sem ekki hafa útsvar í toppi og það er allt í lagi með það meðan þau hafa efni á því. En þegar sveitarfélög eru komin í fjárþröng, þá verða þau að gæta sín og af þeim ber okkur að hafa áhyggjur.