Aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:47:20 (3439)

1999-02-10 14:47:20# 123. lþ. 63.4 fundur 461. mál: #A aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í lokaorðum hv. fyrirspyrjanda þá er fsp. nokkuð ítarleg og jafnvel margar spurningar undir hverjum tölulið.

Varðandi kveikjuna að fyrirspurninni sem hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir í upphafi síns máls, um aðstöðu Skógræktarinnar í Þjórsárdal, hef ég kannski ekki sérstök svör, heldur er þetta almennt svar við því sem hér er spurt um, um starfsemi og rekstur Skógræktarinnar og þjónustu við ferðamenn. Við komum að hinu aðeins síðar.

Fyrst er spurt um hvernig Skógræktinni gangi að standa við markmiðslýsingu sína um að auðvelda almenningi aðgang að skóglendum. Af hálfu Skógræktarinnar er þar einkum um að ræða gerð göngustíga í skógum, merkingar í skógum, við vegi og bílastæði. Starfsmenn Skógræktar ríkisins viðhalda stígum og merkingum en samstarf er við Vegagerðina um bílastæði.

Tjaldsvæði eru í fimm skóglendum ríkisins eða þjóðskógum, eins og við höfum kosið að kalla þessar skóglendur. Við erum að reyna að koma því nafni á. Það er í Selskógi í Skorradal, Vaglaskógi í Ásbyrgi, Hallormsstaðaskógi og í Þjórsárdal. Heimamenn á viðkomandi svæðum vinna við rekstur og viðhald tjaldsvæðanna, ýmist sem starfsmenn Skógræktar ríkisins eða samkvæmt samningi við Skógræktina. Hv. fyrirspyrjandi er kannski að velta því fyrir sér, þ.e. hvernig heimamenn koma að verkefnum Skógræktarinnar. Þar er reynt að eiga sem best samstarf. Ég kem hins vegar betur að því síðar í tengslum við að starfsemi og hlutverk Skógræktarinnar hefur breyst nokkuð á undanförnum árum.

Önnur spurningin var um hvort Skógræktin eigi eða reki þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn, en svo er ekki. Skógrækt ríkisins rekur ekki þjónustumiðstöðvar. Skógarverðir verða þó tilfinnanlega varir við að ferðamenn gera sífellt meiri kröfur. Rætt hefur verið um nauðsyn þess að setja upp þjónustumiðstöðvar en engar ákvarðanir verið teknar um það né um hver mundi reka þær ef af yrði.

Þá er spurt um samning við einkaaðila um þjónustu við ferðamenn í skóglendum ríkisins, eða þjóðskógum. Samningar við einkaaðila um þjónustu við ferðamenn í þjóðskógum hafa alloft verið gerðir. T.d. eru tvö hótel rekin í Hallormsstaðaskógi. Þar er einnig greiðasala og bensínstöð sem og í Ásbyrgi. Eitt sinn var einnig hótel í Vaglaskógi en þar hefur greiðasala verið rekin um langt árabil af mismunandi aðilum. Í Ásbyrgi er útisamkomustaður sem Ungmennasambandið á svæðinu sér um og tjaldsvæði sem Náttúruvernd ríkisins rekur. Á þessu sést að þetta er mjög mismunandi eftir einstökum stöðum.

Undanfarin ár hefur verið rekstur á bátaleigu og hestaleigu í Hallormsstaðaskógi og hafa nokkrir aðilar komið að því. Tjaldsvæðin í Selskógi og Vaglaskógi eru rekin af heimamönnum. Þá hafa alloft verið útihátíðir í þjóðskógunum, einkum í Þjórsárdal, Atlavík og Vaglaskógi. Allt er þetta samkvæmt samningum einkaaðila við Skógrækt ríkisins. Af augljósum ástæðum eru þessir samningar flestir í fjölsóttustu þjóðskógunum, þ.e. á Hallormsstað, í Vaglaskógi og Ásbyrgi, sem jafnframt er hluti þjóðgarðs.

Árið 1998 stóð Skógrækt ríkisins að samningum við eftirtalda aðila um þjónustu við ferðamenn: Samningur var við tvo aðila í Hallormsstaðaskógi, við Fosshótel og skólanefnd hússtjórnarskólans í Hallormsstað. Samið var við Ungmennasamband Norður-Þingeyinga um aðstöðu í Ásbyrgi og við eina ríkisstofnun, þ.e. Náttúruvernd ríkisins um aðstöðuna í Ásbyrgi eins og áður var getið. Þá voru gerðir samningar við fimm einstaklinga um tjaldsvæði, greiðasölur og bensínstöðvarekstur, hestaleigu og bátaleigu á eftirtöldum stöðum: Í Selskógi, í Vaglaskógi, í Ásbyrgi og á Hallormsstað.

Miklu máli skiptir við hvaða einstaklinga er samið um að reka þjónustu við ferðafólk í þjóðskógunum þar sem viðkomandi verður um leið nokkurs konar andlit Skógræktarinnar, málsvari hennar gagnvart ferðafólki.

Síðasti liður fsp. var um hvort aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendunum væri byggð upp í samráði við heimamenn. Þetta er nokkuð misjafnt. Göngustígar eru yfirleitt ekki gerðir í samráði við heimamenn, aðra en skógarverði sem gjarnan eru búsettir á svæðinu, né er haft samráð um merkingar. Tjaldsvæðin eru gömul og urðu þau í Atlavík, Ásbyrgi, Vaglaskógi og Þjórsárdal upphaflega til vegna útisamkoma heimamanna og annarra. Þau hafa síðan þróast í að vera opin fyrir ferðamenn allt sumarið. Tjaldsvæði er skipulagsskyld aðstaða þannig að sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum koma að skipulagningu þeirra og öllum breytingum á þeim. Skógarverðir hafa unnið með skipulagsarkitektum að gerð skipulagsáætlana þar sem um lönd Skógræktar ríkisins er að ræða. Skógarverðir hafa verið í virku samstarfi við ferðamálafélög á sínum svæðum. Mest tengsl eru þó við nágranna viðkomandi skóglendna.

Í öllum þjóðskógum, þar sem einhver starfsemi er rekin, er gömul hefð fyrir því að fólk í viðkomandi sveitum vinni í skógunum. Hér er bæði um sumarstörf unglinga að ræða og heilsársstörf. Þetta hefur skipt miklu, bæði fyrir atvinnulíf og byggð á þessum svæðum. Því miður hefur, með breyttum áherslum í skógrækt, þ.e. aukinni áherslu á styrki beint til bænda og minni áherslu á skógrækt á vegum Skógræktar ríkisins, dregið úr þessum störfum síðustu áratugina og þau færst frá stofnuninni yfir til bændanna sjálfra. Út af fyrir sig er það góð þróun en breytir hins vegar nokkuð hlutverki Skógræktarinnar.

Því miður, hæstv. forseti, svarar þetta kannski ekki nákvæmlega því sem hv. fyrirspyrjandi var að velta fyrir sér. Ég reyndi þó að svara af bestu samvisku miðað við það hve viðamikil fyrirspurnin er.