Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:22:14 (3451)

1999-02-10 15:22:14# 123. lþ. 63.6 fundur 448. mál: #A framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er verið að spyrjast fyrir um aðgerðir í einstökum ráðuneytum því að eins og hv. þingmenn vita þá fer umhvrh. ekki með jafnréttismálin í ríkisstjórninni en þarf auðvitað að fjalla um það sem heyrir undir ráðuneyti hans. Og fsp. er beint til mín munnlegri en öðrum fsp. held ég flestum skriflega. Ég hef m.a. nýlega gengið frá skriflegu svari til hv. fyrirspyrjanda fyrir hönd landbrn.

Hér er sérstaklega spurt um er hvernig hafi gengið að framkvæma þessi mál og hvert sé hlutverk jafnréttisnefndar umhvrn. Þá er rétt að undirstrika að ráðuneytið skipaði þriggja manna jafnréttisnefnd til þess að vinna að þessum málum. Því miður hafa orðið nýlega tvær mannabreytingar í nefndinni þar sem tveir af þeim fulltrúum sem upphaflega voru tilnefndir hafa látið af störfum í ráðuneytinu og vinnan því kannski ekki verið nægjanlega samfelld eða af jafnmiklum krafti eins og ella hefði orðið. En nú eiga sæti í nefndinni Danfríður Skarphéðinsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir og Hugi Ólafsson.

Hlutverk nefndarinnar er eftirfarandi varðandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem gildir fyrir tímabilið 1998--2002 samkvæmt áætluninni eins og hún liggur fyrir og því sem beint er til umhvrn.:

Að sjá til þess að gerðar verði starfsmannaáætlanir fyrir stofnanir ráðuneytisins sem miði að því að jafna stöðu kvenna og karla.

Að halda uppi umræðum og fræðslu um jafnréttismál.

Að safna upplýsingum um stöðu jafnréttismála í stofnunum.

Að koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti.

Að koma af stað átaki til þess að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð umhverfismála á sér stað og ákvarðanir eru teknar.

Nokkuð hefur verið unnið að upplýsingaöflun á undanförnu ári í kjölfar þessarar þáltill. og þessarar áætlanagerðar. Áfram er haldið við vinnu að framangreindum liðum framkvæmdaáætlunarinnar. Reynt verður í framhaldinu að hvetja stofnanir ráðuneytis enn frekar en hingað til til þess að taka tillit til þeirra atriða sem að þeim snúa í þessari framkvæmdaáætlun. Þannig að verkið er í gangi, nefndin er að störfum.

Varðandi annars vegar mannaráðningar og hins vegar nefndastörf er rétt að taka fram að af sex nýjum starfsmönnum, sem ráðnir hafa verið á undanförnum árum á aðalskrifstofu ráðuneytisins, þ.e. á þeim tíma sem ég hef setið þar, er aðeins einn karlmaður en fimm konur sem hafa verið ráðnar til starfa. Fjórar af þeim fimm nýju konum sem ráðnar hafa verið til starfa í ráðuneytinu eru háskólamenntaðir starfsmenn þannig að ég hygg að þar hafi nokkuð skipt um hvað varðar samsetningu starfsfólks. Varðandi nefndirnar sem koma að stefnumótuninni, eins og greint er frá í framkvæmdaáætluninni, er því til að svara hvað varðar átak til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum, að alls voru 34 konur í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum umhvrn. í lok árs 1996, en á tveimur árum eða í lok árs 1998 hafði þeim fjölgað svo að það voru alls 88 konur í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Hér tel ég að hafi orðið veruleg breyting á hvað þetta varðar, hvort sem þakka má það þessari framkvæmdaáætlun sérstaklega eða þeim viðhorfsbreytingum sem eru vissulega í þjóðfélaginu. Vil ég undirstrika að við vinnum að þessari framkvæmdaáætlun og það ágæta fólk sem skipar nefndina vinnur að málinu.