Þjónusta Neyðarlínunnar hf.

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:03:23 (3463)

1999-02-10 18:03:23# 123. lþ. 63.10 fundur 295. mál: #A þjónusta Neyðarlínunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:03]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum, þremur eða fjórum árum, fór fram í sölum Alþingis og víðar talsverð umræða um Neyðarlínuna sem þá var verið að koma á fót og var talsvert tekist á um það mál. Grundvallarágreiningurinn lá í því hvort starfsemi eins og sú sem Neyðarlínan innir af hendi ætti að vera á herðum ríkisins, þ.e. sú neyðarþjónusta og símsvörun og önnur vinna sem Neyðarlínan sinnir, eða hvort þessi þjónusta eða þessi vinna ætti að vera á herðum einkaaðila. Hæstv. dómsmrh. tók þá ákvörðun að gera samning við einkaaðila í þessu máli og var það m.a. sá er hér stendur og fleiri sem gagnrýndu það í umræðu um þau mál fyrir nokkrum árum.

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu lagði hæstv. dómsmrh. fram skýrslu um starfsemi Neyðarlínunnar og í henni kemur fram m.a., með leyfi forseta, að dómsmrh. hafi gert samning við Neyðarlínuna 2. okt. 1995 um að sinna Neyðarsímsvörun á grundvelli áðurnefndra laga, þ.e. laga um neyðarsímsvörun. Samningurinn væri til átta ára og skuldbindi ríki og sveitarfélög til að greiða á því tímabili samtals 296,5 millj. kr. eða u.þ.b. 37,1 millj. kr. að meðaltali á ári fyrir þjónustu frá vaktstöðinni o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég hef núna kannað hvernig framlög hafa verið þessi fjögur ár frá því að Neyðarlínan hóf starfsemi sína. Sú könnun leiðir í ljós að það meðaltal sem fram kemur í skýrslu dómsmrh., um 37,1 milljón, sem var m.a. notuð til þess að rökstyðja það að fara þá leið sem ákveðið var að fara, hefur ekki gengið eftir. Samkvæmt upplýsingum mínum voru árið 1996 a.m.k. 29 milljónir sem fram kom að fóru úr ríkissjóði í þennan málaflokk, 1997 50 milljónir, 1998 52,7 milljónir og 1999 56 milljónir, sem eru vitaskuld miklum mun hærri fjárhæðir en fram kom í þeirri skýrslu sem hæstv. dómsmrh. lagði fyrir þingið.

Virðulegi forseti. Af þessu tilefni og til þess að reyna að fá skýringu á þessu legg ég eftirfarandi spurningu fyrir hæstv. dómsmrh. því að fyrir utan þær upplýsingar sem ég hef skilst mér að frekari framlög hafi verið lögð fram. Því spyr ég:

,,Hvaða fjárhæð hefur ríkissjóður lagt fram á hverju ári þau ár sem þjónustusamningur milli Neyðarlínunnar hf. og dómsmálaráðherra um neyðarþjónustu hefur verið í gildi? Hvernig sér ráðherra fyrir sér framhald samstarfs ríkisins og Neyðarlínunnar hf.``?