Takmarkanir á notkun nagladekkja

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:17:10 (3467)

1999-02-10 18:17:10# 123. lþ. 63.9 fundur 288. mál: #A takmarkanir á notkun nagladekkja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég beini til hæstv. dómsmrh. fyrirspurn sem varðar akstur í vetrarfærð.

Lengi var það svo að í snjó og að vetri skelltu bílstjórar keðjum undir bíla sína til að tryggja sig í umferð og komast áfram. En keðjur þóttu heldur erfiðar í akstri og varð því mikill fögnuður þegar ný tækni ruddi sér til rúms með svokölluðum nagladekkjum og hafa þau nú verið notuð um árabil mönnum til mikillar ánægju.

En það eru ýmsar hliðar á þessu með nagladekkin. Það má segja að hagkvæmnin sé tvíbent. Annars vegar slíta þau afskaplega mikið varanlegt slitlag, slíta vegi afskaplega mikið og má segja að kostnaður þjóðfélagsins skipti jafnvel hundruðum milljóna árlega vegna slits á vegum sem rekja má til notkunar á nöglum. Þar að auki mynda þau rásir í vegum sem skapa slysahættu. Hávaði af nöglum er afskaplega mikill bæði fyrir bílstjóra og ekki síður íbúa við fjölfarnar umferðargötur. Af þeim er mikil loftmengun þar sem agnir berast út í loftið og valda mengun sem og sjónmengun. Allir bílstjórar þekkja hvernig tjara og annar óþverri, sem naglar hafa rifið upp, berst á rúður og á bíla.

Kostnaður einstaklinga af þessum völdum er mikill. Tíðan tjöruþvott og hreinsun á bílum sem má rekja til þessa. Og síðast en ekki síst vil ég nefna, herra forseti, að margir telja að nagladekk veiti það sem kalla má falskt öryggi, að menn telji sig færa í flestan sjó með því að aka á nöglum en í mörgum tilvikum sé gripið ekki eins mikið og margir vilja ætla.

Nú hefur rutt sér til rúms ný tækni, svokölluð harðkornadekk, sem er að flestu leyti íslenskt hugvit. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið virðast þessi svokölluðu harðkornadekk veita sambærilega festu og nagladekk. Það hefur verið reynt í sænskri stofnun og þýsk prófun bendir til þess að um sé að ræða 93% minna slit á vegum en með nagladekkjum. Þau eru hávaðalaus. Þau spara vegi. Þau eru mengunarlaus o.s.frv. Með öðrum orðum er hér um að ræða má segja þjóðhagslega hagsmuni ásamt því að hér getur verið um mikinn sparnað fyrir einstaklinga að ræða, en harðkornadekk geta að auki þjónað sem svonefnd heilsársdekk.

Í tilefni þessa spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir takmörkunum á notkun nagladekkja á bifreiðum.