Takmarkanir á notkun nagladekkja

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:20:32 (3468)

1999-02-10 18:20:32# 123. lþ. 63.9 fundur 288. mál: #A takmarkanir á notkun nagladekkja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:20]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í þessu sambandi má geta þess að á stjórnarfundi í Umferðarráði í desember 1997 var sú hugmynd rædd að á veturna frá fyrsta til síðasta dags vetrar skyldi hafa grófmynstraða hjólbarða með vetrarmynstri á hjólum bifreiða með eða án nagla. Sömuleiðis að keðjur eða neglda hjólbarða megi ekki nota á sumrin frá fyrsta til síðasta dags sumars, nema þess sé þörf vegna sérstakra akstursaðstæðna, í stað tímabilsins frá 15. apríl til og með 31. október.

Ráðuneytið lét færa hugmyndir af þessu tagi í reglugerðarbúning og sendi til umsagnar. Það kom hins vegar í ljós að ýmsir af hagsmunaaðilum sem tengjast þessum málum voru mjög á öndverðum meiði um það hvernig taka ætti á þessum málum og því var ákveðið að láta málið bíða um sinn. En í ráðuneytinu eru nú uppi áform um að koma á fót sérstökum starfshópi með fulltrúum frá Vegagerð, gatnamálastjóranum í Reykjavík og dómsmrn. til þess að fara yfir þessi mál á nýjan leik og skoða þá nýju möguleika sem hugsanlega kunna að vera fyrir hendi. Að því er stefnt að slíkur hópur geti skilað tillögum í sumar þannig að ef samstaða tekst geti þau sjónarmið náð fram að ganga fyrir næsta vetur.