Einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:24:34 (3471)

1999-02-10 18:24:34# 123. lþ. 63.11 fundur 338. mál: #A einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:24]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. 10. mars, fyrir um það bil ári síðan, var ungur maður dæmdur í gæsluvarðhald og einangrun vegna gruns um aðild að afbroti sem vissulega er alvarlegt. Þó var ekki um ofbeldisafbrot að ræða, líkamlegt ofbeldi eða neitt slíkt. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun. Einangrun þýðir innilokun 23 tíma af hverjum 24 stundum sólarhringsins. Og hann var úrskurðaður í einangrun til 25. mars.

Um 25. mars var einangrunarúrskurðurinn eða gæsluvarðhaldsúrskurðurinn framlengdur og framlengingin var til 7. apríl. 7. apríl var aftur um framlengingu að ræða og þá var framlengt til 17. apríl. 17. apríl var tekin önnur ákvörðun um að framlengja enn einangrun og gæsluvarðhald og þá til 29. apríl. Allt var þetta gert í þágu rannsóknarhagsmuna þó að þessi ungi maður hafi aðeins á meðan á þessari einangrunarvist stóð verið yfirheyrður af lögreglu tvisvar eða þrisvar sinnum og svokölluð lokaskýrsla hafi verið tekin í kringum 25. mars. Ekki var því um að ræða yfirheyrslur yfir einstaklingnum allt til 17. apríl þegar hann losnar úr gæsluvarðhaldi og einangrun vegna þess að þegar ný framlenging var kveðin upp þá brotnaði hann niður andlega og var fluttur á bráðamóttöku geðdeildar þar sem hann dvaldist þar til hann var aftur fluttur í gæsluvarðhald í Reykjavík.

Þetta er ekki eina dæmið um að mönnum sé haldið mjög lengi í gæsluvarðhaldi og einangrun í íslenskum fangelsum. Skemmst er að minnast þess í svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmáli þar sem saklausir menn sátu í einangrun í yfir 100 daga. Hins vegar er ástæða til þess að velta því fyrir sér þegar ljóst er að þegar t.d. þessi umræddi einstaklingur sem þarna á hlut að máli og sat í yfir 40 daga í einangrun á liðnu ári, var fluttur til Reykjavíkur og á bráðamóttöku þá var niðurstaða læknis sú að hann ætti við mjög alvarleg veikindi að stríða eftir einangrunarvist, að hann mundi eiga mjög erfitt með að ná sér og að það væri bein afleiðing þeirrar einangrunar sem hann hafði dvalið í yfir 40 daga. Og í læknisvottorði sem gefið var út eftir að þessi einstaklingur kom til vistunar í fangelsi í Reykjavík segir: ,,Frekari einangrun mundi að mínum dómi stríða gegn mannréttindaákvæðinu um vistun fanga.``

Þetta leiðir hugann að því hvort núgildandi reglur um einangrunar- og gæsluvarðhaldsvist fanga brjóti í bága við alþjóðlega samninga sem við höfum undirgengist og því hef ég beint fyrirspurnum á þskj. 429 til hæstv. dómsmrh. Þær eru í fjórum liðum og ég bið hann um svör við þeim.