Tilraunaveiðar á túnfiski

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:42:54 (3477)

1999-02-10 18:42:54# 123. lþ. 63.12 fundur 305. mál: #A tilraunaveiðar á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:42]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrirspurnum á þskj. 365 er það að segja að árangur til tilraunaveiða á síðasta ári var allgóður þótt ekki hafi veiði á hvern úthaldsdag verið jafngóð og á árinu 1997. Árangurinn var eigi að síður vel viðunandi þar sem hvert skip veiddi að meðaltali um 520 kg á úthaldsdag. Árið 1997 veiddust um 950 kg á úthaldsdag. Heildarveiðin 1997 var tæpar 186 lestir en 244 lestir 1998, enda úthaldsdagar mun fleiri.

Ástæður þess að ekki veiddist jafn vel á hvern úthaldsdag 1998 og 1997 geta verið margar. Að sjálfsögðu getur ástand í hafinu umhverfis Ísland og ástand bláuggatúnfiskstofnsins skipt miklu máli án þess að hægt sé að leyfa sér að fullyrða nokkuð um það á þessari stundu.

Að auki skal þess getið að í samningi Hafrannsóknastofnunar við japönsku aðilana sem standa að þessum veiðum eru ákvæði sem skylda japönsku skipin til þess að leita að túnfiski m.a. á öðrum svæðum en þeim sem veiðin beindist að árið áður. Þessi nýju svæði gáfu ekki eins vel af sér og þau svæði sem þá var veitt á. Það að veiðitímabilið hófst fyrr á árinu 1998 en það gerði 1997 kann líka að skýra lakari árangur á úthaldsdag. Veiðin fyrstu vikurnar 1998 er áberandi lakari en meðaltalið.

Varðandi 2. fyrirspurnina er það að segja að frá því hún var lögð fram hafa, eins og kunnugt er, verið gerðar breytingar á gildandi lögum þannig að endurnýjunarreglur eru ekki lengur hluti af löggjöf um fiskveiðistjórnun.

Um 3. fyrirspurn er það að segja að á fundi sem haldinn var með sjútvrh. Færeyinga hér á landi í byrjun þessa árs tók ég þetta mál upp. Það má í sjálfu sér segja að á því sé ekki mikill þrýstingur því eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hafa íslenskir útvegsmenn kannski ekki sýnt nægjanlegan áhuga á að fara í þessar veiðar, enda mikil fjárfesting sem liggur þar að baki. Það varð engin niðurstaða af umfjöllun um þetta á fundi með sjútvrh. Færeyja en hann tók það til umhugsunar og ég geri ráð fyrir að þeim umræðum verði haldið áfram á reglulegum samráðsfundum sjútvrh. Íslands og Færeyja. En eins og menn vita hefur verið mjög gott samstarf við nágranna okkar um þessi efni og mörg önnur í sjávarútvegsmálum á undanförnum árum.

[18:45]

Varðandi 4. fyrirspurnina má taka fram að engar viðræður hafa farið farið um aðild Íslands að Alþjóðatúnfiskráðinu við aðildarríki þess. Hins vegar hefur innan sjútvrn. verið gerð könnun á því hvort æskilegt sé að gerast aðili að ráðinu. Sú könnun benti til þess að í ljósi samþykktar ráðsins, sem einungis hefur viljað viðurkenna veiðar þeirra sem stunduðu þær á árunum 1993--1994, geti verið óráðlegt fyrir Ísland að gerast aðili, a.m.k. að svo stöddu. Á þetta atriði hafa áheyrnarfulltrúar Íslands bent á fundum stofnunarinnar allt frá því að Ísland tók þar fyrst sæti sem áheyrnaraðili árið 1995. Að okkar mati er hér um að ræða brot á rétti strandríkja samkvæmt þjóðarétti.

Á fundi stofnunarinnar, sem haldinn var í lok nóvember á síðasta ári, komu fram vísbendingar um að breytingar kunni að vera í vændum á afstöðu innan stofnunarinnar varðandi þetta atriði. Sérstakur vinnuhópur hefur verið stofnaður til þess að ræða mögulegar viðmiðunarreglur varðandi úthlutun veiðiheimilda. Ríki utan stofnunarinnar munu fá aðgang að þessum vinnuhópi. Að sjálfsögðu mun Ísland nýta sér þennan vettvang til að koma að skoðunum sínum og reyna þannig að hafa áhrif á niðurstöðuna. Má gera ráð fyrir að svo verði um fleiri ríki sem ekki eru enn aðilar að stofnuninni.