Stofnun endurhæfingarmiðstöðvar

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:51:56 (3587)

1999-02-15 15:51:56# 123. lþ. 65.4 fundur 178. mál: #A stofnun endurhæfingarmiðstöðvar# þál., Flm. SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:51]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 188 um stofnun endurhæfingarmiðstöðvar. Flm. að þessari þáltill. eru sú er hér stendur og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Magnús Stefánsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Tillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að setja á stofn endurhæfingarmiðstöð sem verði sjálfstæð opinber stofnun með þjónustusamning við heilbrigðisráðuneyti. Markmið stofnunarinnar yrði að bæta þjónustu við þá sem þarfnast endurhæfingar til lengri tíma, stuðla að því að þeir verði virkir þjóðfélagsþegnar á ný og bæta um leið nýtingu spítalanna.

Virðulegur forseti. Aðalatriðið í þessari þáltill. er það að reyna að bæta langtímaendurhæfingu þannig að maður geti komið fólki fyrr út í atvinnulífið og komið því út í atvinnulífið yfirleitt. En samkvæmt upplýsingum frá forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins getur hver einstaklingur kostað allt að 40--50 millj. í bætur en hægt yrði að spara með því að bæta endurhæfinguna. Það er því til mikils að vinna að koma hverjum einasta manni sem hægt er út í atvinnulífið á ný.

Endurhæfingu sjúklinga til lengri tíma, eftir að bráðaendurhæfingu á spítölunum lýkur, þarf að bæta. Undanfarin ár hefur gengið erfiðlega að koma þessum sjúklingum, sem hafa orðið illa úti af sjúkdómum og slysum, í viðeigandi meðferð. Endurhæfingu á bráðastigi hefur verið nokkuð vel sinnt en almennt er viðurkennt að fjárskortur hefur háð endurhæfingu að því loknu. Tilhneiging hefur verið að sjúkrahús leggi áherslu á bráðaþjónustu á kostnað langtímaendurhæfingar. --- Og það er ósköp eðlilegt að þegar menn þurfa að forgangsraða þá sé bráðaþjónustan valin í fyrsta sæti. --- Þá hefur einnig staðið endurhæfingu fyrir þrifum, bæði á Ríkisspítölunum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur, að heyra undir lyflæknissvið í stað þess að vera sjálfstætt svið með eigin stjórnun, fjárveitingu og rekstur. Til að ráða bót á þessu hafa komið fram hugmyndir um að sameina krafta og þekkingu á endurhæfingardeildum þessara stofnana í eina endurhæfingarmiðstöð. Til greina kæmi einnig að aðrar stofnanir sem sinna endurhæfingu, svo sem Reykjalundur og Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, gætu tengst miðstöðinni svo að sem best samvinna væri um hvert sjúklingar færu til meðferðar.

Ég vil einnig minnast á að nýlega var ráðinn einn forstjóri yfir sjúkrahúsunum í Reykjavík, þ.e. Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítala, Magnús Pétursson, sem ég tel einmitt vera mjög jákvætt, og helst hefði ég viljað sjá þessi sjúkrahús sameinuð. En þessi þáltill. gengur út á það að sameina endurhæfingu þessara tveggja sjúkrahúsa. Varðandi staðsetningu stöðvarinnar tel ég eðlilegt að kannaður verði sá möguleiki að samnýta aðstöðu á Grensásdeild og í Kópavogi en á Kópavogshælinu er ágæt aðstaða og húsakostur.

Í þessari þáltill. er rætt um stjórn miðstöðvarinnar. Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að telja það upp vegna tímaskorts, en eins og stjórnin er skipuð kæmi þar m.a. aðili frá Vinnuveitendasambandinu og Neytendasamtökunum og þetta er til að undirstrika það að meiningin er að þarna yrði talsverð starfsþjálfun.

Í Reykjavík og nágrenni eru samtals um 240--250 rúm skilgreind til notkunar fyrir endurhæfingu en þar af eru aðeins 30--35 fyrir þunga endurhæfingu. Hluti rúmanna er að auki stöðugt tepptur vegna of fárra vistunarúrræða.

Í þáltill. er gert er ráð fyrir að í nýju miðstöðinni rúmist starfsemi sem nú fer fram á Grensásdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur auk endurhæfingarþjónustu þeirrar sem ráðgerð er á nýrri deild á Kópavogshæli þegar hún verður opnuð. Þannig mundi bráðarúm nýtast mun betur á sjúkrahúsunum.

Að lokum langar mig, virðulegur forseti, að upplýsa að mér er ljóst að Tryggingastofnun ríkisins er að skoða þann möguleika --- við reyndar fengum slíkt mál til vinnslu rétt fyrir jól en því var frestað --- að nýtt örorkumat verði gert og staðið verði að því með öðrum hætti, þ.e. að fólk verði látið fara í gegnum svokallað endurhæfingarteymi og í framhaldinu yrði gerður þjónustusamningur við endurhæfingarstofnanir um endurhæfingu þannig að fólk sem lendir í örorku fái mun sterkara prógramm en í dag, meiri endurhæfingu.

Mér er einnig ljóst að samvinnunefnd sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu hefur tillögur til skoðunar sem byggjast að verulegu leyti á sömu hugmyndafræði og þessi þáltill. gerir, þ.e. að sameina endurhæfingu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna í eina endurhæfingu og gera hana sjálfstæðari en hún er í dag. Það er eini möguleikinn sem ég sé í stöðunni þannig að langtímaendurhæfingu sé gert hærra undir höfði og njóti meiri virðingar en hún gerir í dag. Hún drukknar í dag í bráðaþjónustu sjúkrahúsanna.