Íþróttasamstarf milli Vestur-Norðurlanda

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:09:37 (3591)

1999-02-15 16:09:37# 123. lþ. 65.6 fundur 196. mál: #A íþróttasamstarf milli Vestur-Norðurlanda# þál., 197. mál: #A stofnun vestnorræns menningarsjóðs# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Önnur tillaga sem ég mæli fyrir er 196. mál á þskj. 213 sem er þáltill. um eflingu íþróttasamstarfs milli Vestur-Norðurlanda. Samkvæmt henni ályktar Alþingi að fela menntamálaráðherra Íslands að setja, í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands, á fót vinnuhóp til þess að móta tillögur til eflingar samstarfi landanna þriggja í íþróttamálum.

Stór hluti íbúa á Vestur-Norðurlöndum tekur þátt í íþróttastarfi. Skráðir félagsmenn í íþróttafélögum eru rúmlega 100 þúsund talsins, eða um þriðjungur íbúa í löndunum þremur. Íþróttafélögin vinna gott starf, ekki síst gott æskulýðsstarf, en kannanir hafa sýnt að börn og unglingar sem stunda íþróttir eru líklegri til að ná árangri í skóla og atvinnulífi síðar á lífsleiðinni, og síður líkleg til að lenda í félagslegum erfiðleikum.

Íslensk íþróttafélög hafa lengi átt ýmiss konar samstarf við íþróttafélög á Norðurlöndunum með góðum árangri. Hins vegar hefur samstarf við okkar helstu grannþjóðir, Færeyinga en þó einkum Grænlendinga, ekki verið öflugt að sama skapi og ber að bæta úr því. Ljóst má vera að aukið samstarf íþróttasambanda og ungmennafélaga á Vestur-Norðurlöndum sem standa fyrir íþróttum mun styrkja verulega stöðu þeirra og efla alla starfsemi. Aðalmarkmið íþróttasamstarfs Vestur-Norðurlandanna er þó að efla vestnorræna vitund og samkennd með því að íþróttamenn heimsæki hverjir aðra. Þannig komast þjóðir landanna þriggja í betra samband hver við aðra sem eflir samhug þeirra og samstarf. Slíkt samstarf mun einnig hafa jákvæð efnahagsleg áhrif í löndunum, m.a. með tilliti til ferðaþjónustu. Þá mun aukið íþróttasamstarf Vestur-Norðurlanda efla menningarleg tengsl þjóðanna, sem er í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu ríkis- og landstjórna landanna.

Tillögunni er beint til menntamálaráðherra, sem æðstu yfirmanna íþróttasambanda landanna, og eru þeir hvattir til að setja á fót vinnuhóp til að móta og leggja fram tillögur um hvernig efla má íþróttasamstarf landanna.

Herra forseti. Loks vil ég víkja að annarri tillögu sem er 197. mál þingsins á þskj. 214, sem er þáltill. um að setja á stofn vestnorrænan menningarsjóð. Samkvæmt henni ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að setja, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, á stofn vestnorrænan menningarsjóð í því skyni að efla samstarf landanna þriggja í menningarmálum.

Þessi tillaga á rætur í því að Vestur-Norðurlöndin, Ísland, Færeyjar og Grænland, eiga afar margt sameiginlegt. Saga og menning þessara landa er að mörgu leyti samofin og á þeim grunni byggist vestnorræn samvinna. Löndin þrjú hafa í tímans rás átt margvíslega menningarlega samvinnu sem hefur oft leitt til þess að þjóðirnar hafa nálgast hver aðra á öðrum sviðum og af því vaxið blómlegt samstarf í ólíkum geirum. Enn fremur hefur þessi sameiginlegi menningararfur aukið samkennd á milli landanna þriggja, sem er grunnurinn að samstarfi þjóðanna.

Alþjóðavæðing og samruni þjóðríkja hefur aukið þörfina á fjölbreytilegu samstarfi í menningarmálum Vestur-Norðurlanda. Smærri menningarheimar eiga undir högg að sækja í hnattvæðingu stjórnmála-, efnahags- og menningarlífs. Ein forsenda þess að sameiginleg menning Vestur-Norðurlanda nái að styrkja stöðu sína og eflast í framtíðinni er að sköpuð verði betri skilyrði fyrir menningarlega samvinnu.

Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi sínum í júní sl. að stofnsetning sérstaks vestnorræns menningarsjóðs sé leið að því marki sem muni vafalítið efla og þróa menningarsamstarf landanna. Tekjur sjóðsins skulu vera árgjöld aðildarlandanna, og skulu þau ákveðin í fjárlögum í löndunum þremur. Einnig skal kannað hvort fyrirtæki á Vestur-Norðurlöndum séu reiðubúin að leggja sjóðnum til fé.

Úthlutunarreglur sjóðsins skulu ákvarðaðar af menntamálaráðherrum landanna þriggja, í samráði við Vestnorræna ráðið. Sjóðurinn skal styrkja verkefni m.a. á sviði menntamála, rannsókna og skóla- og íþróttasamvinnu. Stjórn sjóðsins skulu skipa fulltrúar frá Vestnorræna ráðinu, landstjórn Færeyja, landstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands.

Herra forseti. Ég hef nú mælt fyrir þessum þremur tillögum sem voru samþykktar á fundi Vestnorræna ráðsins sem haldinn var, eins og komið hefur fram, í Ilulissat á Grænlandi og vona ég að þær nái fram að ganga hér í þinginu.