Íþróttasamstarf milli Vestur-Norðurlanda

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:15:38 (3592)

1999-02-15 16:15:38# 123. lþ. 65.6 fundur 196. mál: #A íþróttasamstarf milli Vestur-Norðurlanda# þál., 197. mál: #A stofnun vestnorræns menningarsjóðs# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að hafa flutt þessi þrjú mál sem tengjast Vestnorræna ráðinu. Þetta eru merk mál fyrir samstarf vestnorrænu landanna. Það er rétt sem bent var á í framsögu að saga og menning þessara landa er mjög samofin. Þess er skemmst að minnast hve Færeyinga hafa oft staðið við bakið á okkur. Þó þeir séu fáir og hafi kannski ekki mjög mikla burði fjárhagslega þá hafa þeir sýnt hve vinskapur þeirra við okkur er mikill. Ég minni á hvernig þeir komu okkur til aðstoðar í kjölfar Vestmannaeyjagossins og einnig í kjölfar snjóflóðanna á Vestfjörðum. Þar sýndu þeir vinarhug sinn í verki.

Okkur ber að gera allt sem við getum til að varðveita þennan menningararf og það er sérstaklega mikilvægt nú þegar Evrópuvæðing og hnattvæðing eykst, að maður taki sér tak til að passa upp á nágranna sína og standi þannig að málum að sameiginlegur menningararfur vestnorrænu landanna haldi áfram að blómstra.

Ég vil nefna vinabæjasamstarf, sem er norrænt samstarf þar sem sveitarfélög á Norðurlöndunum starfa saman. Í mínu sveitarfélagi, Seltjarnarnesi, eigum við vinabæi á öllum Norðurlöndunum nema á Vestur-Norðurlöndum. Mér þykir það skaði þar sem vinabæjasamstarf er mjög skemmtilegt. Ég beini því til Vestnorræna ráðsins, af því að ég veit að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason er formaður þar, hvort ekki væri hægt að athuga sérstaklega vinabæjasamstarfið gagnvart vestnorrænu löndunum. Ég veit að Norræna félagið hefur skrá yfir samstarfið. Það væri mjög gott ef hægt væri að efla vinabæjasamstarfið við vestnorrænu löndin og gefa kost á að sækja um styrki úr menningarsjóðinum, sem stendur til að stofna samkvæmt þáltill., í því skyni.

Það er ljóst að það er dýrt að ferðast til vestnorrænu landanna. Það er dýrt að fara til Grænlands og dýrt að fara til Færeyja. Sumir halda, þegar þeir koma til Íslands sem ferðalangar, að lítið mál sé að skreppa til Grænlands, þetta sé nú bara næsti bær við og kosti varla mikið að skreppa þangað. En á menn renna tvær grímur þegar þeir sjá verðið.

Ég bind vonir við þennan menningarsjóð, að hann geti eflt menningarsamstarf milli þjóðanna, t.d. leiklistarhópa, ýmsa listahópa og íþróttahópa. Hér er sérstaklega tekið á eflingu íþróttasamstarfs. En af því að ferðirnar eru dýrar, gistingin er yfirleitt dýr nema gist sé í skólum eða einhverju slíku, þá er mikilvægt að hægt sé að sækja í sjóð eins og hér er lagt til að settur verði á stofn.

Einnig er ljóst að dönskukennsla, norskukennsla og sænskukennsla á undir högg að sækja. Börn og unglingar sækja að sjálfsögðu mikið í tölvur, inn á internetið og annað þar sem enskan ræður ríkjum. Ég vona því að þetta átak Vestnorræna ráðsins, sem felst í þessum þremur þáltill., verði til þess að halda uppi merkjum kennslu á norrænum tungum.

Ég vil þakka hv. flm., Ísólfi Gylfa Pálmasyni, fyrir að hafa mælt fyrir þessum þremur málum í beit.