Íþróttasamstarf milli Vestur-Norðurlanda

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:19:57 (3593)

1999-02-15 16:19:57# 123. lþ. 65.6 fundur 196. mál: #A íþróttasamstarf milli Vestur-Norðurlanda# þál., 197. mál: #A stofnun vestnorræns menningarsjóðs# þál., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:19]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma með þessi góðu mál í salarkynni Alþingis. Bent hefur verið á að samskipti okkar við þessar grannþjóðir okkar hafa verið ótrúlega lítil í gegnum tíðina. Á öldum áður var svona afleggjari af Íslandi á Grænlandi, eins konar nýlenda eða sjálfstæð byggð norrænna manna. Samskipti við þá byggð lögðust af í miklum hafís á 15. öld, ef ég man rétt, og byggðin var horfin þegar að var gáð eftir þennan mikla hafísstíma.

Samskiptin hafa nánast ekki verið tekin upp við Grænland að nýju eftir þetta. Ég get t.d. tekið sjálfan mig sem dæmi, ég hef tekið mikinn þátt í Norðurlandasamstarfi undanfarin 12--15 ár, bæði innan hreyfingar jafnaðarmanna og á vegum norrænu félaganna. Ég var m.a. starfsmaður Nordjobb á Íslandi eitt sumar. Ég verð að segja að ef þátttaka mín er dæmigerð, en ég hef aldrei komið til Færeyja og einungis farið í dagsferð til Kúlusúkk, og það var ekkert í tengslum við Norðurlandastarf, þá mættu tengslin að ósekju vera miklu meiri.

Þó grænlenska þjóðin og sú íslenska eigi ekki mjög skylda menningu þá er margt spennandi að gerast í menningu inúíta. Á fót er að komast sjálfsstjórnarhérað í Norður-Kanada, North West Territories svokallað. Ekki er ólíklegt að tengsl Grænlendinga við það sjálfsstjórnarhérað komi til með að verða töluverð þegar fram í sækir. Með því að efla tengslin við þessa granna okkar í vestri höfum við gullið tækifæri til þess að tengja okkur inn í þennan menningarheim, sem á eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Ég tel að við ættum að nýta okkur það tækifæri.

Eins er með náfrændur okkar, það er rétt að nota það orð um þá, í Færeyjum. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. 4. þm. Reykn. áðan, að dýrt hefur verið að fljúga til Færeyja og Grænlands. Á tímabili þurftu Íslendingar að fljúga til Kaupmannahafnar áður en þeir komust til Grænlands, sem var afar sérkennileg staða. Það er afskaplega mikilvægt að við eflum þessi tengsl og því fagna ég þessum tillögum sérstaklega. Ég tek heils hugar undir að sköpuð verði betri aðstaða til menningarsamstarfs. Menningarsamstarf á milli þessara landa mun til framtíðar gefa afrakstur.